22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2588 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jón Auðunn Jónsson:

Það fer svo hjer eins og vanalega, þegar um bann er að ræða, að menn vilja ganga mislangt. Virðist mjer mjög hafa kent þess hjer, því það er rjett eins og sótthiti grípi suma, þegar minst er á bann. En jeg lít nú svo á í þessu máli, að hæstv. stj. hafi fulla heimild til að gera þær ráðstafanir, sem taldar eru nauðsynlegar til þess að hindra það, að gin- og klaufasýki berist til landsins, og jeg hjelt satt að segja, að hv. þingdeildarmenn mundu fullkomlega treysta hæstv. atvmrh. til að fara með þetta vald, jafneindreginn og hann hefir sýnt, að hann er í þessu máli. (PO: Hann er nú að linast). Já, jeg gæti nú hugsað, að fleiri mundu linast, ef þeir ættu að starfa að þessum málum. Menn fá meiri þekkingu og víðari sjóndeildarhring, er þeir fara að starfa að málunum, og af því get jeg hugsað mjer, að það stafi, sem hv. þm. Borgf. kallar, að ráðh. sje farinn að linast.

Þá vil jeg benda háttv. flm. till. á þskj. 528 á það, sem var tilefni þess, að jeg kvaddi mjer hljóðs, nefnilega það, að engar líkur eru fyrir því, að hætta sje á, að gin- og klaufaveiki berist með niðursoðinni mjólk. Þetta er nauðsynjavara fyrir sjómenn, sem ef til vill eru vikum saman úti í sjó og geta því ekki fengið nýja mjólk, þó til væri í landi. Sama máli er að gegna með egg. Það hafa engar líkur verið færðar fyrir því af mönnum, er nokkuð þekkja til, að hætta geti verið á því, að sóttkveikjur berist með þeim.

Meginástæða mín fyrir því, að vilja ekki setja fastákveðin lagaákvæði um það, hvað flytja megi inn og hvað ekki, er sú, að menn þekkja alls ekki til hlítar, hvernig veikin breiðist út, með hverju hún berst. Hún getur því borist með fleiru en hjer er talið. Þess vegna er það best fyrir framkvæmd þessa máls að fela stj. sem mest vald til þess að ákveða, hvað flytjast megi inn og hvað ekki. Hv. þm. Borgf. segir, að öll Norðurálfan sje smituð. En ef svo er, þá veit jeg ekki, hvað við eigum að gera við heimild til þess að leyfa innflutning frá ýmsum löndum. Þá væri rjettara að leyfa aðeins innflutning frá einhverju ákveðnu fylki í Bandaríkjunum, ef þau finnast þar ósmituð.

Það er vitanlegt, að í sjúkrahúsum hjer er mjög erfitt að fá þau egg, er læknar fyrirskipa, og stundum alveg ómögulegt. Jeg hefi af eigin reynslu kynst þessu, því í vetur þurfti jeg að útvega egg handa sjúklingi. Jeg gat vanalega ekki fengið meira en helming af því, sem jeg þurfti, 5–10 egg í mesta lagi, og það með miklum erfiðismunum.

Jeg sje enga ástæðu til þess að banna innflutning á eggjum, enda er nauðsynlegt að flytja þau inn, og það því fremur, sem bannað er að flytja inn fugla. Eða hvernig ætla þeir, er bæði vilja fjölga hænsnum og alifuglum í landinu, en þó jafnframt banna innflutning á þeim, að koma því fyrir? Flest þau egg, sem orpin væru í landinu, yrðu að ganga til þess að fjölga fuglunum, og ekki væri hægt að eta þau líka. Og hvað ætti þá að hafa handa sjúklingum og öðrum, er þurfa á eggjum að halda heilsunnar vegna?

Vitanlega kemur öllum saman um það, að sjálfsagt sje að gera nauðsynlegar ráðstafanir til hindrunar því, að þessi veiki berist til landsins. En eins og jeg hefi tekið fram áður, tel jeg best, að hæstv. stj. sje falið að sjá um framkvæmdir þessar og að hún hafi vald til þess að leyfa og banna.

Þá er það ekki lítill útgjaldaauki fyrir kaupstaðina, ef bannað verður alt það, sem talið er upp á þskj. 528. Jeg er sannfærður um, að það nemur hundruðum þúsunda kr. árlega. Og óneitanlega virðist það benda til þess, að verið sje að hugsa um eitthvað annað en að hindra það, að gin- og klaufaveiki berist til landsins, þegar banna á innflutning á niðursoðinni mjólk. Það er næstum því ómögulegt að ímynda sjer, að það sje gert í þeim tilgangi. Hv. þdm. hafa talað mikið um fagþekkingu í þessum efnum, en erlendis er það viðurkent, að menn vita í raun og veru ekki, hvernig veikin berst.

Háttv. þm. Borgf. var að tala um það, að hv. 2. þm. Rang. hefði verið utanlands fyrir skemstu og þá dvalið á heimili, þar sem var gin- og klaufasýki. Jeg spurði þá, hvort hann hefði verið sótthreinsaður eða einangraður, er hann kom heim. Þetta hygg jeg, að hafi ekki verið gert. Máske hefir hann verið talinn óhæfur til þess að flytja hana með sjer eða þessi skæða baktería þrífist hvorki í honum nje á. Alt þetta sýnir, hversu mikið er á reiki í þessum efnum.

Eftir því sem hægt er að fá sjerþekkingu í þessum efnum, þá hefði þó hv. landbn. Ed. átt að hafa meiri sjerþekkingu yfir að ráða í þessu máli, þar sem sæti á einn allra lærðasti læknir landsins. Mjer finst því af öllu þessu jafnsjálfsagt að samþ. frv. eins og það kom frá Ed. eins og það er fráleitt að samþ. brtt. á þskj. 528. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta.