14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2617 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg þakka hjer með hv. landbn. fyrir það, að hún hefir tekið aftur brtt. sínar, þó það sje að vísu af öðrum ástæðum en jeg hefði kosið. Vil jeg þá snúa mjer að þeim tveimur æsingamönnum, hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn., sem vaðið hafa hjer uppi með miklum bægslagangi.

Það mun viðurkent af öllum, að öll sú sjerfræðilega þekking, sem flaggað hefir verið með í þessu gin- og klaufaveikimáli, á rót sína að rekja til próf. Jensens, og það, sem Hannes Jónsson dýralæknir hefir um þetta sagt, er að mestu leyti fengið frá skrifum próf. Jensens eða frá námi hjá honum, en mun ekki nema að. mjög litlu leyti vera frá Hannesi sjálfum. Enda er það svo, að hann fer mjög lítið út fyrir það, sem próf. Jensen hefir áður sagt, og dragi hann einhverjar ályktanir, þá gerir hann það með mestu varfærni og kemur með niðurstöður, sem teljast verða heldur óákveðnar, t. d. eins og „að líklegt sje“ og „að svo virðist“ o. s. frv. Er þetta í sjálfu sjer ekki nema eðlilegt, því þó Hannes dýralæknir hafi tekið gott próf á sínum tíma, þá er langt um liðið síðan og hann hefir ekki haft ástæður til þess að menta sig frekar í þessari grein. Háttv. 1. þm. Árn. virtist líka viðurkenna, að ummæli próf. Jensens væru nokkuð óákveðin, en hann reyndi að teygja þau sjer í vil eftir því sem hann best gat. Hv. þm. Borgf. vildi aftur á móti knjesetja þennan vísindamann, og reyndi jafnvel að skerða vísindamannsæru hans með því að gefa í skyn, að yfirlýsingar hans væru af pólitískum lopa spunnar og bæri að skilja þær svo, sem þær væru yfirlýsingar frá fulltrúa erlendrar þjóðar, er hjer hefði hagsmuna að gæta. Víða sleit hann ummæli prófessorsins út úr samhengi, ef hann gat á þann hátt fengið orðin til að hljóða sjer í hag, og þar sem skoðun próf. Jensens kom í bága við hans eigin, sagði hann, að prófessorinn færi með rangt mál. Leyfði hv. þm. sjer þannig að setja sjálfan sig sem nokkurskonar yfirvitring í þessum efnum, og það eigi aðeins hvað Norðurlönd snertir, heldur og jafnvel alls heimsins. Hafði hann þó ekkert við að styðjast í þessu nema sína persónulegu skoðun, sem menn geta ekki tekið mikið tillit til. Hv. þm. gerði og það að gamni sínu að lesa upp, að vísu ekki orðrjett, en þó því sem næst, „prívat“-brjef. Hefi jeg áður vitnað í það, að vísu með leyfi, og bent á staðreyndir, sem í því standa. En hv. þm. Borgf. tók setningarnar hverja fyrir sig og teygði úr þeim sjer í hag eftir því sem hann gat, gerði gys að vináttumerkjum brjefsendanda til starfsbróður hans, og var svo að heyra, sem honum smakkaðist þetta vel svona framborið. Er slík meðferð á „prívat“brjefi bæði fáheyrð og ósvífin. Vildi hann láta líta svo út, að verið væri að beygja sig undir danska hagsmuni, ef öðruvísi væri farið að en hann og þeir fimmmenningarnir legðu til. En jeg hygg, að flestir Íslendingar sjeu sammála um það, að við höfum margt annað þarfara að gera en að vera að fjandskapast við aðrar þjóðir. Og ekki fæ jeg skilið, hvaða gagn við hefðum af því að fara út í tollstríð, því endirinn á slíkum stríðum verður altaf sá, að hinn veikari og minni má sín miður. Og ef þetta yrði til þess, að samskonar kvaðir væru lagðar á viðskifti Íslands og Danmerkur af Dana hálfu og hjer er farið fram á, að við gerum, þá býst jeg við því, að þó tjón Dana verði nokkurt, þá verði þó okkar meira.

Það er því eins og nú er ástatt ekkert vit í því að leggja út á þessa braut, enda hefir meiri hl. landbn. fallist á þetta, með því að taka aftur brtt. sínar, sem þó ganga ekki eins langt og brtt. þeirra fimmmenninganna. T. d. um röksemdaleiðsslu hv. þm. Borgf. má nefna það, er hann mintist á Færeyjar. Hv. þm. ætti að vita það, að þótt, Færeyingar vilji vera sjálfstæðir, þá eru þeir aðeins amt úr Danmörku, og það segir sig sjálft, að það mundi ekki vera hagur fyrir Danmörku, að gin- og klaufaveikin bærist til Færeyja. Því ef veikin bærist þangað, yrði danska ríkið vitanlega að bæta þann skaða, sem af því hlytist. En hv. þm. Borgf. vildi gefa í skyn, að ábyrgðarleysi Dana væri svo mikið í þessum efnum, að þeir vildu ekki gera ráðstafanir til þess að hindra það, að veikin bærist til Færeyja, eða þeir jafnvel vísvitandi gerðu ráðstafanir, þannig að veikin hlyti að berast þangað. Þessu til sönnunar tók hann svo óskylt dæmi og þegar Dönum á ófriðarárunum mislíkaði það, að Færeyingar skyldu leita til annara landa um kaup á nauðsynjavörum. (PO: Samur er viljinn!). Vitanlega dettur engum heilvita manni í hug, að Danir láti sig engu skifta, hvort veikin berst til Færeyja eða ekki. Og þó varnarráðstafanir þeirra gagnvart Færeyjum gangi skemmra en hjer hefir verið farið fram á, þá sýnir það ekki annað en að þeir álíta það nægilegt til þess að hindra útbreiðslu veikinnar. Þá vildi hv. þm. halda því fram, að ekkert væri að miða við þær ráðstafanir, sem Danir gerðu, því þar væri veikin landlæg, en hjer ekki. Í þessu sambandi þurfum við ekki annað en líta til annara landa, sem verið hafa laus við veikina, eins og t. d. Noregur, til þess að sjá, að þau hafa ekki tekið upp slíkar varnarráðstafanir og hjer er farið fram á, og það hefir vitanlega verið vegna þess, að slíkt hefir verið talið þýðingarlaust. Og það ætti hv. þm. að skilja, að fleirum gæti dottið í hug að banna innflutning á mjólkurmat, eggjum, kartöflum og kálmeti en þeim fimmmenningunum. Vitanlega ættu þeir, sem best eru að sjer í þessum efnum, að láta sjer detta slíkt í hug, ef þeir álitu, að nokkurt gagn væri að því. En hvaðan kemur hv. þm. Borgf. þetta vit umfram aðra menn, að rjett sje og nauðsynlegt að banna innflutning á þessum vörum til þess að verjast gin- og klaufaveikinni? Í þessu sambandi mætti minna á það, að við höfum haft eitt hættulegt dæmi um það, hvernig veikin hefði getað borist, þar sem hv. 2. þm. Rang. hefir lýst því yfir, að hann hafi hvað eftir annað verið þar, sem skepnur, sem höfðu gin- og klaufaveiki, höfðust við, og lýsti því á mjög „dramatískan“ hátt. Samt hefir hv. þm. Borgf. ekki krafist þess, að sjerstakar ráðstafanir væru gerðar, til þess að einangra hann, og er þó öllum kunnugt, að ekkert er eins líklegt til þess að breiða út veikina eins og allskonar ferðalangar, sjerstaklega þó hestaprangarar og aðrir verslunarerindrekar. (PO: Hann var sápuþveginn hátt og lágt). Það liggur engin sönnun fyrir um það, að svo hafi verið gert. (ÓTh: Það sjest á honum. — PO: Sýnist hann máske vera óhreinn?). Enda mundi sápuþvottur einn ekki sótthreinsa háttv. 2. þm. Rang. fyrir gin- og klaufaveiki.

Hv. þm. Borgf. virðist vera kominn inn á sömu braut eins og „Tíminn“, er hann hamaðist mánuð eftir mánuð á því að fá innflutningsbann á flestum aðfluttum nauðsynjavörum, sem öllum var kunnugt um, að var ekki gert vegna hættu við gin- og klaufaveiki, þó að svo væri látið í veðri vaka, heldur til að koma á alhliða verndarbönnum við samkepnisvörur íslensks landbúnaðar, án tillits til hagsmuna neytenda þeirra hjer. Jeg veit, að hann mun vilja verja það blað eins og hann getur. (PO: A. m. k. það, sem það hefir sagt um gin- og klaufaveikina). Annars virtist mjér hann hafa lesið þennan pjesa eins og sagt er, að ónefnd persóna lesi biblíuna. Hegðun hv. þm. gæti gefið mönnum í skyn, að varhugavert væri að leyfa öllum mönnum, sem vilja, að verða löggjafar. Hv. þm. kom hjer með stundarfjórðungs upplestur um það, hve mjólkurafurðir væru hættulegar, og vitnaði í því sambandi m. a. í próf. Jensen. Ekki var þó of vandlega með heimildir farið, því að hv. þm. gat ekki þeirra orða, sem standa næst á undan þeim, sem hann las upp, og óneitanlega hafa mikla þýðingu í þessu sambandi. Prófessorinn segir sem sagt, að mjólk sú, sem send er heim aftur frá mjólkurbúunum, orsaki oft smitun, en hins getur hann hvergi, að smitun hljótist af mjólkurafurðum yfirleitt. Jeg sje á hv. þm. (PO), að hann er að rifja þetta upp fyrir sjer og fletta pjesanum, og það veitir víst sannarlega ekki af. — Hannes Jónsson dýralæknir segir aftur á móti, að mjólkurafurðir geti borið sóttnæmið, „en sennilega er þessi hætta enganveginn mikil“, bætir hann við. Þessi orð feldi háttv. þm. Borgf. undan. En nú styðjumst við aðallega við prófessor Jensen, og er engin ástæða til að rengja orð hans, þótt hann sje danskur. Fyrir því hefi jeg viljað fá fram stuttan útdrátt um það, hverjar vörur hann teldi hættulegar og ástæðu til að banna innflutning á. Hefi jeg því gert lauslega þýðingu á símskeyti frá honum, sem jeg vildi lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar svo:

„Þegar staðhæft er, að vísindin þekki ekki smitleiðir sjúkdómsins, er þetta með öllu órjett og er að kenna ábyrgðarlausum blaðaskrifum. Þess vegna er engin ástæða til víðtækra opinberra ráðstafana, sem einungis byggjast á hugsuðum möguleikum um smitun. Ennfremur verður að taka fram, að vinnuaðferðirnar á mjólkurbúunum gefa ekkert tækifæri til að bera smita í unnu afurðirnar. — Á grundvelli rannsókna síðustu ára um smitaleiðir á gin og klaufaveiki og eiginleika smitaberans er hægt að staðhæfa, að ástæða sje til að gera ráðstafanir gegn: Innfluttu fólki, sjerstaklega verslunarfólki, og frjálsu ferðalagi sveitamanna, og að sótthreinsa klæði þeirra og farangur; og að banna innflutning á:

lifandi og slátruðum klaufdýrum,

óunnum eða þurkuðum húðum og skinnum,

beinum, hornum og klaufum,

óþveginni ull og ótilbúnum hárum og fjöðrum,

notuðum klæðnaði og þvílíku,

klíði og öðrum fínskornum fóðurefnum,

heyi og hálmi,

notuðum fóðurpokum.

Aftur á móti er ónauðsynlegt að banna innflutning á:

Soðnu kjötmeti,

slátruðum fuglum,

smjöri, tilbúnu úr pasteurhituðum og sýrðum rjóma eða mjólk,

eggjum,

skepnufóðri, tilbúnu úr sýrðum, eimdum áfum,

geymdum ostum,

tilbúnum hárum, ull og fjöðrum og vörum unnum úr þessu,

trjáplöntum og garðávöxtum, þegar hey og hálmur er ekki notað til umbúða,

olíukökum, þegar ekki er notuð upphitun eða kemisk fóðurvinsla við tilbúning þeirra“.

Af þessu skeyti sjest, að álit próf. Jensens er það, að með öllu sje óþarft að banna innflutning á ýmsum þeim vörutegundum, er þeir fimmmenningar vilja leggja strangt bann við. Af því mikla kappi, sem sjerstaklega tveir hinna hv. fimmmenninga hafa lagt á þetta mál, hlýtur mönnum að koma til hugar, að það sje ekki gin- og klaufaveikin ein, er þeir hafa í huga. Þeir hafa haft alveg sömu gögn að fara eftir eins og við hinir og nákvæmlega sömu möguleika til að afla sjer frekari gagna. Á þeim grundvelli er því ósennilegt, að þeir hafi getað komist að svo gerólíkri niðurstöðu. Hinsvegar er það kunnugt um þessa hv. þm., að þeir eru mjög hneigðir til að vernda innlenda framleiðslu í samkepninni við útlenda og hafa ekkert á móti innflutningsbönnum í þessu skyni. Jeg hygg, að afstaða þeirra sje sprottin af þessu, þar sem þeir eru auk þess báðir fulltrúar bændakjördæma, sem gætu haft mikla hagsmuni af innflutningsbönnunum. En þeim þykir betra að fá vörurnar bannaðar af heilbrigðisástæðum. Það lítur betur út og er auk þess auðveldara að koma því fram heldur en háum verndartollum. En þetta er engu haganlegra fyrir landsmenn heldur en verndartollur, — síður en svo. Af þessu hlýtst áreiðanlega skortur á ýmsum vörutegundum í mörgum hjeruðum suma tíma ársins, en af því leiðir aftur óeðlilega og óheilbrigða verðhækkun. Af tvennu illu vildi jeg þó heldur aðhyllast verndartollana en þessa bannstefnu hv. þm. Með henni er ekki komið hreint til dyra, heldur gengið aftan að mönnum. Er jeg verð þess var, að menn hugsa um vernd atvinnuveganna með þessu móti, kemur hjer í hug þessi vísa:

Hylur gæran sauðar svarta

soltinn úlf með geði þungu,

dúfuauga, höggormshjarta,

hunangsvarir, eiturtungu.