31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Baldvinsson:

Jeg hafði ekki búist við að tala svona snemma. En fyrst það liggur við, að umr. verði slitið, þá verð jeg að segja fáein orð um þær brtt., sem jeg hefi borið fram. Jeg er nú samt ekki viss um, að jeg hafi viðað nægilega að mjer til þess að tala um þær allar, en ef mig skortir eitthvað, þá á jeg þó aðra ræðu til, ef mig skyldi þrjóta gögn nú.

Það er þá fyrst á þskj. 642, sem jeg á nokkrar brtt. um það að fella niður skólagjöld. I., XVII. og XX. brtt. snerta allar það sama, og get jeg því tekið þær allar í einu. Sú fyrsta fer fram á, að skólagjöldin, sem talin eru til tekna í 2. gr., falli niður, en hinar 2 eru þess efnis, að athugasemdir í 14. gr. um skólagjöld falli niður.

Þetta mál hefir nú áður verið til umræðu hjer á þingi og þá mikið rætt, og jeg verð að segja það, að mjer finst það blettur á Alþingi að hafa nokkurntíma sett skólagjöld við skólana hjer, því vitanlegt er, að fátækustu nemendurnir eiga mjög bágt með að greiða þessa upphæð. Skólagjald mun nú vera um 150 kr. Voru það að vísu ekki miklir peningar, þegar þessi gjöld voru sett í upphafi, en nú er það talsvert mikið fje. Því það er nú svo, að eftir því sem krónan hækkar og fær meira gildi, þá verða þetta allmikil útgjöld fyrir fátækt fólk. Jeg álít því, að fella beri þessi skólagjöld niður. Það er mjög erfitt fyrir fátæka pilta að afla sjer þessa fjár, og þar sem það fer nú oft saman, að þeir fátækustu eru efnilegusu námsmennirnir, þá er það því ósanngjarnara að leggja stein í götu þeirra. Allar slíkar hindranir og þessar á að nema á burtu, því jeg býst við, að það hafi oft komið fyrir, að efnilegustu menn hafi orðið að hætta námi vegna þeirra fjárhagslegu örðugleika, sem þeir hafa átt við að búa. En allir sjá hversu hróplegt ranglæti það er, þegar skólagangan miðast orðið við efnahag, en ekki við hæfileika. Já, en nú er heimilt að endurgreiða fátækum og efnilegum nemendum það skólagjald, sem þeir hafa greitt, munu menn segja við þessu. Rjett er það að vísu, en þeir verða þó að útvega sjer fjeð, því þessi gjöld verða að greiðast fyrirfram. Og þó þeim sje greidd þessi upphæð aftur, þá er ekki nema að hálfu leyti bætt úr þessu órjettlæti, því það örðugasta helst samt sem áður, og það er að þurfa að útvega sjer þetta fje; og vitanlega fá ekki allir fátækir, efnilegir nemendur skólagjald eftirgefið. Jeg vona nú, að hv. deild sýni það rjettlæti að fella niður þessi skélagjöld bæði hjer í Reykjavík og við Flensborgarskólann. Þau eru hvorki rjettlát nje sanngjörn og ríkið missir litlar tekjur við þetta.

Þá kem jeg að brtt. VII. á þskj. 642. Fer jeg þar fram á allríflega, fjárveitingu, sem á að fara í stórt mannvirki. Það er sem sje farið fram á 100 þús. kr., fyrsta framlag, til vegarlagningar yfir Fjarðarheiði. Þetta mál var hjer tvisvar fyrir á þinginu í fyrra. Í fyrra skiftið sem þáltill., en í síðara skiftið sem brtt. við fjárlögin. Þáltill., sem var þess efnis, að rannsókn skyldi fara fram á vegarstæði þarna og kostnaði við lagningu vegar, var samþ., en brtt. um framlag til vegarins var feld. Rannsóknin var svo framkvæmd síðastl. sumar, og varð niðurstaðan sú, að ekki mundi vera svo mjög örðugt að leggja veg þarna og kostnaður mundi verða. minni en búist var við. Till. vegamálastjóra hvað þetta snertir er sú, að rjett sje að byrja ekki strax á verkinu, þó þetta verði samþ. En hann er ekki sá maður, sem hefir nokkurt vald til þess að segja þinginu, hvað það á að gera eða láta vera. Auk þess er hann talsvert einstrengingslegur og vill binda sig við það, sem honum sjálfum þykir best, en mörgum þykir það nálgast sjervisku. Alþingi hefir oft áður virt að vettugi álit hans, svo eins ætti að vera hægt að gera það nú. En verði þessi vegur lagður yfir Fjarðarheiði, þá eru Hjeraðinu trygðar samgöngur við þann kaupstað Austurlands, sem bestar samgöngur hefir við útlönd, og mundi það hafa mikla þýðingu, bæði fyrir kaupstaðinn og Hjeraðið, og verða bæði Seyðisfirði og Fljótdalshjeraði til hins mesta gagns. Það er gert ráð fyrir því, að þessi vegur verði lagður á 4 árum, og er áætlaður kostnaður 360 þús. kr. Mundu það þá verða 90 þús. kr., er færu til vegarins árlega, en jeg sting upp á 100 þús. kr., því jeg get vel ímyndað mjer, að hann færi eitthvað fram úr áætlun, því það hefir svo oft viljað brenna við, að áætlanir verkfræðinganna væru ekki sem áreiðanlegastar. En verði þessi till. mín feld, þá býst jeg við að fallast á till. hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) um, að veittar verði 50 þús. kr. til þessa, þó jeg verði að játa, að mjer þykir minna varið í það að fara svo hægt af stað. Því eftir þeirri till. tekur það 8 ár að byggja þennan veg, sem er þó ekki nema ca. 24 km., og er það miklu lengri tími en aðrir vegir eru bygðir á. Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta, en ef komið verður með rökstudd mótmæli gegn þessu, þá mun jeg svara þeim í síðari ræðu minni og gefa frekari upplýsingar um þetta. ef hv. þm. Seyðf. gerir það ekki. Þetta er alment áhugamál manna þar eystra, því ef þessi vegur verður bygður, geta kaupstaðurinn og sveitin tengst þeim böndum, sem verður til hagnaðar fyrir báða. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefir sent Alþingi áskorun um að hraða þessu máli sem mest.

Þá kem jeg að X. brtt., sem er þess efnis, að Ólafi Sveinssyni, vitaverði á Reykjanesi, verði veittar 800 kr. til þess að fullgera akveg að Reykjanesvita. Hann hefir þegar sjálfur byrjað á þessum vegi og lagt þar allmikið í kostnað úr sjálfs sín vasa. Ferðamannastraumur er allmikill þangað og mundi aukast, ef þessi vegarspotti yrði fullgerður að vitanum. En aðsókn að þessum stað stafar af því, að náttúrufegurð er þarna mikil og mjög stórfengleg og útsýni alt hið besta. Staður þessi liggur út að opnu Atlantshafi, og er mjög tilkomumikið að sjá hinar þungu öldur úthafsins mynnast við hraunklettana. Þessi fjárhæð, sem farið er fram á, er mjög lítil, og mundi þetta verk verða svo ódýrt, að slíks eru fá dæmi um vegalagningu hjer á landi. Ætlar vitavörðurinn að vinna sjálfur að þessu með sonum sínum, en hann er eins og kunnugt er mjög duglegur maður. Mun þetta margborga sig fyrir ríkissjóð, því fyr eða síðar verður þessi vegur að koma, og er þá sjálfsagt að nota tækifærið meðan þarna er duglegur maður, sem vill vinna að þessu fyrir ekki meira fje en hjer er um að ræða. En því til sönnunar, að þessi vegur verði að koma, er það að bæði leiðir það af ferðamannastraumnum þangað og auk þess er það nauðsynlegt vegna vitans sjálfs. Þangað verður að vera sæmilegur akvegur, svo hægt sje að flytja nauðsynjar til vitans, og auk þess er nauðsynlegt, að hægt sje að komast þangað í fljótu bragði, ef vitinn bilar, sem vitanlega má ekki eiga sjer stað, að svo standi lengi, svo mikla þýðingu sem hann hefir fyrir siglingar hjer sunnanlands. — Þá hefi jeg líka flutt varatill. þess efnis, að heimilt sje að veita Ólafi Sveinssyni vitaverði 800 kr. af fje því er ætlað er til óvissra, útgjalda. við vitana. Í sjálfu sjer er enginn munur á þessu, því annað fer fram á að hækka útgjaldalið fjárl. en hitt að þessi upphæð verði veitt af þessum 10 þús. kr., sem ætlaðar eru til óvissra útgjalda, því ef meira fje þarf til þeirra en gert er ráð fyrir, þá er varla vafi á því, að það verður veitt. En það getur verið, að hv. dm. finnist annað, og læt jeg þá þess vegna sjálfráða um það, hvora þeir fallast á, en vona aðeins, að önnurhvor finni náð fyrir augum þeirra.

Þá kem jeg að 2. lið XVII. brtt. á þskj. 642, sem er frá mjer, um að veita Hallgrími Jónssyni 1200 kr. utanfararstyrk. Þessi kennari er, eins og kunnugt er, einn af elstu kennurum við barnaskólann hjer í Reykjavík, og án þess að jeg vilji á nokkurn hátt gera lítið úr öðrum kennurum við þann skóla, þá held jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að hann sje einn af þeim bestu. Hann tók kennarapróf frá Flensborgarskóla árið 1901 og hefir stundað kenslu síðan. Hann sigldi einu sinni til Kaupmannahafnar til þess að kynna sjer nýjungar í kensluaðferðum, og fór hann þá ferð upp á eigin spýtur. En nú fer hann fram á að fá þetta fje í þessu sama skyni. Ef til vill mætti líka veita honum þessa upphæð af utanfarastyrk barnakennara. Mundi jeg og láta það nægja, ef hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir, að honum skyldu veittar þessar 1200 kr. úr þessum sjóði, en tryggilegast væri vitanlega að fá það í fjárlögin. Sjálfur verður hann og að leggja. mikið úr eigin vasa, því þessar 1200 kr. hrökkva vitanlega skamt, því bæði er það, að ferðalög eru dýr, og auk þess ætlar hann að dvelja um tíma í Englandi, en þar er mjög dýrt að lifa, sökum þess hvað sterlingspundið er stór penningur. Vonast jeg til, að hv. deild sjái sjer fært að veita honum þetta, og það ekki síður sökum þess, hvað hann verður að leggja mikið fram úr eigin vasa.

Annar kennari er það líka, sem jeg hefi farið fram á, að fengi styrk. Heitir hann Andrjes J. Straumland. Er það ungur og mjög efnilegur kennari, sem dvalið hefir erlendis, en er nú við nám í Ruskin College í Oxford. Sótti hann um 2000 kr. styrk til Alþingis til þess að dvelja við þennan skóla til að kynnast kensluaðferðum, svo hann gæti verið sem best undir það búinn að taka við kenslu hjer heima. En það hlýtur öllum að vera ljóst, hversu mikil nauðsyn er á því, að þeir, sem kenna eiga börnum og unglingum, sjeu sem vitrastir og víðsýnastir menn. Þess vegna þurfa þessir menn að eiga kost á því að sjá sig um í heiminum og geta dvalið eitthvað í öðrum löndum, til þess að þeir sjeu sem best búnir undir þetta vandasama starf.

Það stækkar sjónhringinn að kynnast því, sem fram fer á þessum sviðum í öðrum löndum, og þar kynnast menn nýjum aðferðum og þeir flytja heim þá þekkingu og mentun, sem þeir öðlast ytra, og miðla henni við kenslu unglinga og barna. Fyrir því álít jeg, að fjárveiting í þessu skyni sje nauðsynleg, og það hærri fjárhæð en veitt er í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar. Tel jeg því rjett, að þessi 1200 kr. fjárhæð verði veitt, nema því aðeins, að þessi maður geti komist einnig undir þann lið fjárlaganna, þar sem fje er veitt til utanfarar kennara.

Þá kemur næsta till., sem við höfum flutt þrír; það er styrkur til Brynjólfs málara Þórðarsonar. Þessum manni hefir verið veittur styrkur undanfarin tvö ár í fjárlögum, 1500 kr. Hann lærði hjá Þórarni Þorlákssyni og er talsvert kunnur málari hjer á landi. En hann hefir átt við heilsuleysi að búa undanfarin ár, en þó haldið áfram námi sínu. Nú dvelur hann suður við Miðjarðarhaf, og getur því aðeins haldið áfram námi og bætt heilsu sína, að honum sje veittur lítilsháttar styrkur. Það, sem farið er fram á handa Brynjólfi, er ekki nema 1500 kr.; sama fjárhæð og veitt var nú í tvö ár. Jeg veit, að þeir hv. þdm., sem hlustuðu á umræður hjer í fyrra, munu líta svo á, að það sje ekki rjett að taka styrkinn af þessum manni, sem hefir brotist áfram af litlum efnum og miklum dugnaði, þrátt fyrir heilsuleysi á sínum lærdómstíma. Tel jeg víst, að hann muni hljóta náð fyrir augum hv. deildar nú eins og fyr.

Þá hefi jeg borið fram till. í þremur liðum, nr. XXVI. Fyrsti liður er styrkur til Jóns Jónssonar frá Hvoli, 200 kr. Sannast að segja álít jeg ekki þörf að tala lengi fyrir þeirri till. Þessi maður er einn af þeim, sem hafa stytt mönnum stundir með stökum sínum; en ferhendurnar hafa löngum verið í miklum metum hjá okkur Íslendingum og hagyrðingar átt vinsældum að fagna hjá alþýðu. En þeir hafa oft verið ekki að sama skapi fjáðir, og þessi maður er enn af þeim. Hann er roskinn maður orðinn og segir svo sjálfur, að hann búi nú heldur í skugganum. Jeg fer fram á þetta aðeins sem viðurkenningu og er ætlast til, að sje í eitt skifti fyrir öll. Þess má jeg geta, að Jón hefir gefið út laglegt vísnakver, árið 1921 og einn af okkar góðu ritdómurum, Jakob J. Smári, hefir lokið lofsorði á stökur hans, enda voru þær gefnar út mikið fyrir hans tilmæli. Það er synd að þreyta hv. deild á mjög langri ræðu um svo litla till., sem jeg þykist vita, að verði samþykt.

Þá hefi jeg flutt tvær till. um að hækka nokkuð styrk dr. Guðbrands Jónssonar til þess að semja íslenska miðaldamenningarsögu. Til þessarar vinnu eru veittar 1200 kr. í fjárlögum, en jeg ætlast til, að honum verði veittar 2000 kr. með verðstuðulsuppbót, 2800 kr. Það munu allir þekkja, sem við slík verk fást, að þetta er ekki stór upphæð. Það er ekki mikið hægt að gera fyrir 2000 kr. og ekki hægt að búast við, að hann geti lagt mikið til ritstarfa, þar sem mikið af tímanum þarf að ganga til kennslu og annara starfa til lífsnauðsynja. Vil jeg stinga upp á þessari hækkun á launum hans, en sje ekki hægt að ná henni fram, þá til vara, að þau verði hækkuð úr 1200 kr. upp í 2000 kr., og sje ekki nein verðstuðulsuppbót.

Þá kem jeg að næstu till., um að veita Ásgeiri Einarssyni 1200 kr. til dýralækninganáms. Það er ungur stúdent, sem sækir um styrk til að nema dýralæknisfræði í Þýskalandi. Jeg þekki dálítið til þessa pilts og veit, að hann er fyrst og fremst ágætum gáfum gæddur og líklegur til að inna fljótt og vel af hendi þetta nám. Hann er bæði reglusamur og sparsamur, svo að allar líkur eru til, að því fje, sem honum kynni að verða veitt, yrði vel varið. Jeg sting upp á, að honum verði veittar 1200 kr., eins og var í frv. veitt ýmsum stúdentum En jeg sje, að nefndin hefir þar klipið af 200 kr., svo að jeg þorði ekki annað en koma með varatill. um 1000 kr.

Þá er það 2. till. undir XXII. lið, að í stað „aðstoðarmanns við Þjóðskjalasafnið“ komi: „og til aðstoðar eftir reikningi“. Þetta er ekki annað en orðamunur, til þess að ekki sje verið að festa þarna mann og ekki meira fyrir borgað heldur en fjárlagaliðurinn til tekur. Skil jeg ekki annað en hv. þdm. geti á þetta fallist.

Út af 3. till. undir XXII. lið hefi jeg fengið mótmælaskjal frá forseta Bókmentafjelagsins. Jeg hafði gert till. um að hækka styrkinn til Bókmentafjelagsins um 400 kr. Mjer finst ekki sitja á forseta að mótmæla því, þó að sú athugasemd fylgi, að því sje ætlað að gefa út niðurlagið af ritgerð um dómkirkjuna á Hólum. Það hefir áður gefið út nokkuð af þessari ritgerð, sem átti að vera 25 arkir að stærð, en mun verða um 30; mun fjelagið vera búið að gefa út nálega 18 arkir. En það sýnist meiningarlaust að gefa út slíka ritgerð hálfa; þess vegna vil jeg láta ljúka við útgáfuna og skylda Bókmentafjelagið til þess. — Mjer finst það satt að segja hálfgerð frekja af forseta Bókmentafjelagsins að fara að sletta sjer fram í, þó að þingið vilji setja athugasemd og till. um það, hvað það vildi og óskaði, að út yrði gefið. Hann hótar því, forsetinn, að taka ekki við neinum styrk. Jeg sje raunar, að það er í fjárlögum skilyrði fyrir styrk, því að þar stendur: enda haldi það áfram útgáfu hins íslenska fornbrjefasafns. Og jeg skil ekki, að það komi til, að forseti komist upp með það að neita að taka við styrknum til fjelagsins frá þinginu, þó að því sýnist ástæða að setja þarna aths. við. Jeg hygg, að brjef þetta sje ekki sent fyrir ráð stjórnar Bókmentafjelagsins, heldur hafi forseti aðeins gert það af einræði sínu. Og það getur vel komið til mála, ef hann óskar frekari umræðna um styrkveitingar, að maður talaði um, hvort hann ætti sjálfur að þiggja nokkurn styrk hjá þinginu.

Þó að jeg hafi ekki talað um mínar till. í röð, býst jeg við, að jeg hafi minst á þær allar og gert hv. þdm. ljóst, hvað þær fela í sjer. Og jeg efast um, að jeg muni taka til máls aftur, nema alveg brýnar ástæður sjeu fyrir hendi.