23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2658 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

15. mál, strandferðaskip

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta mál, sem hjer liggur fyrir, er enginn nýr gestur á Alþingi. Þetta mun vera í þriðja sinn, sem það kemur fram, og hefir það, við þær umræður, sem orðið hafa, fengið mjög ítarlega athugun og rækilegan flutning, einkum af hálfu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Rökin með og móti þessu máli hafa svo oft og rækilega verið tekin fram og skýrð, að jeg tel óþarft að fara út í þau á þessu stigi málsins. Mjer finst það mega bíða til síðari umr. að leiða saman hesta sína í þessu máli. En jeg vil beina því til þeirrar nefndar, sem mál þetta fær til athugunar, að í sambandi við þetta er ómögulegt að komast hjá því að taka upp annað mál, nefnilega það, hvernig við högum okkar póstgöngum. Það er mál, sem samhliða þessu verður að taka til rækilegrar athugunar.

Að svo mæltu vil jeg leggja til, að þessu máli verði, að lokinni þessari umr., vísað til samgmn.