17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

15. mál, strandferðaskip

Sveinn Ólafsson:

Jeg hafði kvatt mjer hljóðs rjett áður en frestað var fundi við fyrri hluta þessarar umræðu; en nú er svo langt um liðið, að jeg hefi gleymt flestu af því, sem jeg þá hafði hugsað mjer að svara þeim hv. þm., sem töluðu.

Það er svo um þetta mál nú eins og verið hefir, að ágreiningurinn er aðallega um það, hvort eigi að vinda að því bráðan bug að auka strandferðirnar, eða bíða um óákveðinn tíma áður en þörfinni er fullnægt. Mín skoðun er sú, að það hafi þegar verið beðið of lengi með þetta, því að mörg eru nú árin síðan ráðgert var að hafa tvö skin til strandferða, enda voru skipin 2 og stundum 3 frá aldamótum fram undir stríðstíma.

Málið horfir talsvert öðruvísi við nú en það gerði fyrst, þegar það kom fram á þingi 1913, þegar lög voru afgreidd um að útvega tvö strandferðaskip og reka þau. Auðvitað hefir þörfin vaxið, en ekki minkað á þessum tíma, og ýmislegt hefir bæst við, sem ekki þurfti þá sjerstaklega um að hugsa og sem knýr til þess að flýta þessu máli. Fyrst og fremst er það, sem tekið hefir verið fram í þessum umr., að fólksflutningar með ströndum landsins eru afarseinfærir og geta ekki orðið hraðfara nema með þessu eina móti, — ekki a. m. k. fyrst um sinn —, að fleiri skip annist flutninginn. Skipafjölgun er líka eina ráðið til þess að hægt verði að leggja niður þá úreltu aðferð við póstflutninga, sem hjer hefir tíðkast og sem bæði er ótrygg og tiltölulega dýr, og koma honum svo fyrir, að ekki þurfi nema á tiltölulega litlum svæðum að halda uppi stöðugum landpóstferðum.

Annað, sem rekur nú eftir, er það, að samkepni um fólksflutning með ströndum fram hefir orðið svo mikil af útlendum skipum, að mikill hluti þeirra landsmanna, sem þurfa að ferðast, notar útlendu skipin; en gengur á svig við þetta eina innlenda skip, sem í strandferðum er, og auðvitað fyrir þá sök eina, að skipið er of seint í förum vegna vöruflutninganna.

Enn er 3. atriðið, sem ýtir á eftir framkvæmdum hið bráðasta. en það er sú ráðstöfun, sem þarf að gera fyrir 1930 vegna mikilla innlendra fólksflutninga. Það er sem sje vitað nú þegar, að 1930 verður óvenju mikið um ferðir frá fjarlægari landshlutum til Suðurlandsins eða hátíðasvæðisins. — Væntanlega verða þau hátíðahöld einmitt á mesta annatíma ársins; og það er sjerstaklega mikil nauðsyn á því, að allur sá fjöldi manna, sem að vonum sækir hátíðahöldin, þurfi ekki að tefjast um skör fram vegna skipaskorts. En það væri hinsvegar mjög óviðfeldið, ef þessi hátíð yrði haldin á þann veg, að vjer yrðum að sækja til grannþjóðanna farkosti fyrir fólkið.

Það ber annars óvenju margt á milli, þegar rætt er um þetta mál; sumt virðast smámunir, sumt er líka að minni hyggju bygt á hreinum og beinum misskilningi. Jeg man eftir því frá fyrri hluta þessarar umræðu, að hv. frsm. meiri hl. samgmn. hjelt því fram, að mjög væri óheppilegt að aðgreina póst- og vöruflutninga. Þetta kom mjer mjög á óvart, vegna þess að hann hefir áður — að því er mig frekast minnir — látið í ljós þá skoðun, að hann teldi ekki, að farþegaflutningar gætu orðið viðunanlega greiðir fyr en vjer hefðum tvö skip, sem gætu skift með sjer verkum þannig, að vöruflutningar væru fráskildir póstflutningi og farþega. Það var annars margt, sem hann setti út á þessa tilhögun, sem minni hl. vildi hafa, og get jeg látið flest af því óumtalað. En sumt af því var þess eðlis, að það má ekki ómótmælt standa. Hann sagði það meðal annars um þetta nýja skip, að það hefði ekki svo mikla þýðingu, að það væri hraðfært, vegna þess að það yrði þá svo dýrt í rekstri, brendi svo miklum kolum, að rekstrarkostnaður yrði ókleifur. Að vísu krefst aukinn hraði meiri kolabrenslu, en það er þó ekki eingöngu undir henni komið, hvort skip er hraðfært eða ekki. Það fer meðal annars eftir því, hvernig skipið er bygt; það getur verið hraðfært, þótt ekki hafi það hlutfallslega stóra vjel eða sje knúið með ákaflega mikilli kolabrenslu. Enda er hraðinn, sem gert er ráð fyrir, 40 sjómílur á vöku, ekkert meiri en álíta verður nauðsynlegt.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þörfin væri lítil á auknum strandferðum, nema ef vera skyldi á Austfjörðum og nokkrum stöðum á Norðurlandi.

Mjer hefir skilist, og því verið haldið fram af hv. frsm. meiri hl., að þess væri víðar þörf, t. d. á Vestfjörðum og Ströndum, að bættar væru strandferðirnar og auknar; að jeg ekki tali um hjer Sunnanlands, þar sem þær eru takmarkaðastar.

Að hugsa sjer, að landflutningur t. d. milli Suðurlands og Norðurlands geti fyrst um sinn komið í stað þeirra flutninga, sem verið hafa þar á sjó með ströndum fram, finst mjer fráleit fjarstæða. Það líða mörg ár þangað til hægt verður — og það jafnvel að sumarlagi — að komast landveg hjeðan austur í Þingeyjarsýslur með bifreiðum, að jeg ekki nefni Múlasýslur. Og þó að gert sje ráð fyrir, að þessi Norðurlandsvegur, eins og honum er ætlað að verða, geti orðið bílfær eftir 12–15 ár, þá liggur hann beinustu leið gegnum sýslurnar, sem á leiðinni eru, og kemur nokkrum sveitum að gagni, en meginhluti hjeraðanna og útkjálkar þeirra hafa lítil eða engin not af honum.

Bættar strandferðir taka til alls þorra landsmanna að meira eða minna leyti, ef ekki beint, þá óbeint. Og jafnódýrar samgöngubætur og fást með góðu strandferðaskipi er ekki hægt að fá á annan hátt, enda vita allir, að nokkurra kílómetra vegarspotti milli sveita eða um fjöll kostar eins mikið og nýtt strandferðaskip.

Hv. frsm. meiri hl. hefir haldið því fram, að árlegur halli á rekstri Esju hafi verið um 2–3 hundr. þús. kr. Það mun satt vera, að rekstrarhallinn hafi sum árin komist upp í 200 þús. kr., en eitt árið man jeg þó fyrir víst, að hallinn var aðeins um 135 þús. kr. En það er engum vafa undirorpið, að aðalástæðan fyrir rekstrarhalla Esju liggur í vöruflutningi þeim, sem skipið hefir orðið að annast. Skipið hefir í flestum ferðum sínum haft meira eða minna af umhleðsluvarningi til eða frá millilandaskipum og tafist á mörgum höfnum vegna ljelegrar afgreiðslu. En það eru þessar tafir, sem fæla farþega frá að ferðast með skipinu, nema þegar ekki verður hjá því komist, og þá helst á milli næstu hafna. En auk þess gefa umhleðsluvörur miklu lægra farmgjald en annar strandflutningur.

Ágreiningurinn um það, hvenær ætti að ráðast í byggingu skipsins, hefir klofið samgöngumálanefnd, en nefndin hefir komið sjer saman um það, að þegar bygt yrði, þá ætti að byggja skip á stærð við Esju, en ekki minna. Jeg fyrir mitt leyti álít, að skipið eigi að vera mun minna, enda víst, að til vöruflutninga, sem haldast munu á tilteknum svæðum, mundi nægja talsvert minna skip en Esja.

Það hefir líka verið um það deilt, hvernig eigi að haga ferðum þessa skips, ef til kemur. Um það virðist mjer óþarft að deila nú. Úr því verður reynslan að skera, og hún segir best og skjótast til um það, hvernig haganlegast verði almennings vegna að haga ferðum þessum.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að vegna þess að svo langt hefir liðið milli umr., er margt, sem áður var fram komið, orðið fyrnt fyrir mjer, og tek jeg því ekki fleiri atriði til athugunar. Enda geri jeg ráð fyrir því, að hjer muni að mestu ráðið, hvernig atkv. falla, og fyrir þá skuld sje ástæðulaust að halda uppi löngum umr.

Yfirleitt fanst mjer margt í andmælum hv. þdm. við fyrri umr. þessa máls vera af veikum mætti fram borið og aðallega til þess að tefja fyrir málinu, sem líka hefir tekist.