17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

15. mál, strandferðaskip

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg get ekki látið þetta mál fara svo í gegnum hv. deild við þessa 2. umr., að jeg taki ekki til máls.

Það verður ekki sagt, að samgmn. hafi í máli þessu stefnt til austurs eða vesturs, því svo má að orði kveða, að meiri hl. hennar hafi þegar siglt á land, þar sem hann leggur til, að lagt verði meira kapp á að bæta samgöngur á landi en með ströndum fram. Mjer virðist því aðallega vera um það að ræða, hvort meta eigi meira: samgöngubætur á landi eða sjóleiðina, og verður þá ekki hjá því komist að hafa í huga, hvernig staðhættirnir eru og hvernig okkur er í sveit komið um alla aðdrætti. Landið okkar er eyland; það getur því ekki leikið á tveim tungum, að það er sjóleiðin kringum strendur landsins, sem við verðum að leggja aðaláhersluna á að nota til flutninga fólks og farangurs. Sá vegur er öllum opinn og besta lausnin á bættum samgöngum er að auka ferðir með ströndum fram með betra og fullkomnara skipakosti. Við verðum að líta fram í tímann, en ekki láta okkur nægja að tjalda til einnar nætur. Á þessari grundvallarhugsun byggist álit okkar minni hl.

Annars eru skoðanir manna mjög á reiki um það, hvað leggja eigi mesta áherslu á í samgöngum. Framfarirnar úti um heim á því sviði eru svo hraðstígar, að nú er sú stefna uppi þar, að skip, járnbrautir og jafnvel bifreiðar muni innan langs tíma verða minna notað til þess að flytja fólk og þungaminni póst á lengri vegalengdum, heldur verði það flugvjelarnar, sem annist slíka flutninga að mestu leyti. Að vísu er þetta enn á byrjunarstigi úti um heiminn, en þó er margt, sem bendir á, að flugvjelar muni, er stundir líða, betur henta til mann- og póstflutninga en önnur farartæki, er nú þekkjast. Og á meðan alt er svona á reiki um, hvað hentast muni í framtíðinni, finst mjer, að ekki eigi að binda sig við ákveðin „plön“ um vegagerð eða þess háttar. Jeg hefi líka upp á síðkastið heyrt marga framsýna menn halda því fram, að það sjeu ekki járnbrautir, sem hjer eigi að verða framtíðarflutningatækin á landi, heldur sjeu það bifreiðarnar, sem samgöngur ýmsra sveita og hjeraða sín á milli verði að byggjast á, en því fylgja aftur betri og fullkomnari segir, þar sem hægt er að koma slíkum flutningstækjum við. En þó að við fáum vegi og bifreiðar, þar sem því verður við komið, er ekki bætt úr samgangnaleysi ýmsra landshluta, t. d. eins og á Vestfjörðum og Austurlandi. Þar eru það skipin, og ekkert annað, sem geta bjargað og bætt úr þeim örðugleikum, sem þessir landshlutar hafa átt og eiga enn við að stríða í samgöngunum. Og þá vaknar spurningin: eigum við að byggja skip, sem nægir okkur í 2–3 ár, eða eigum við að miða byggingu skipsins við það, að það endist okkur í 10–20 ár? Mjer blandast alls ekki hugur um, að skipið eigum við að smíða þannig, að það verði til frambúðar. Hitt er kák, að ætla sjer aðeins að bæta úr brýnustu þörfinni í bili. Við verðum að byggja svo vandað og fullkomið skip, að það nægi okkur um næsta áratug.

Sú stefna hefir verið uppi á Alþingi hjá hv. flm. þessa máls að leggja aðaláhersluna á að fá skip, sem annaðist vöruflutninga með ströndum fram, en minni áhersla lögð á, að skipið væri útbúið til fólksflutninga, og hafa þessir menn miðað skoðun sína við það, að Esja fullnægði fólksflutningunum. En við minni hl. lítum svo á, að þó að við höfum eitt skip, sem sjerstaklega er útbúið til þess að annast vöru- og fólksflutninga, þá sje full þörf á öðru skipi af líkri gerð. Enda er öllum kunnugt, að Esja nægir ekki nema að litlu leyti þörfum landsmanna, hvort sem heldur er um að ræða vöru- eða fólksflutninga.

Ef litið er til vilja fólksins í þessu efni, þá má benda á, að í allmörgum þingmálafundagerðum, er lagðar hafa verið fram í lestrarsal Alþingis, koma fram eindregnar óskir og áskoranir um það, að bættar verði samgöngur með ströndum landsins. Þetta eru óskir almennings, en vitanlega er það á valdi Alþingis að skera úr, á hvern hátt verði heppilegast úr þessum óskum bætt.

Við í minni hl. lítum svo á, að þetta nýja strandferðaskip eigi ekki aðeins að vera eins vel útbúið og Esja, heldur betur. Það á að vera með kælirými og nokkru stærra farmrými en Esja hefir, en þó útbúið svo, að flutt geti það álíka marga farþega og hún. Við höfum leitað álits Nielsens framkvæmdarstjóra og skipstjórans á Esju um þetta mál, og við fleiri menn höfum við átt tal, er allir eru sammála um, að þetta nýja skip eigi að verða sem næst því, er jeg hefi nú lýst og nánar er vikið að í nefndaráliti okkar minni hl.

Það er nú orðinn nokkuð langur tími liðinn, síðan jeg hefi haft tækifæri til að ferðast meðfram ströndum landsins. En áður fyr hefi jeg siglt sem skipverji bæði austur og vestur um land og á strandferðaskipi, og er því ekki með öllu ókunnugt um, hvernig til hagar bæði á höfnum og leiðum. Jeg get ekki betur sjeð en að hjá okkur hafi orðið stór afturför, að hafa nú aðeins eitt skip í förum, í staðinn fyrir að áður voru það tvö skip, sem önnuðust strandferðirnar. Þó vil jeg benda á, að nú eru menn komnir á þá skoðun, að heppilegra sje að láta strandferðaskipin ekki skifta um á Akureyri eða Reykjavík, eins og áður var reglan, heldur fari skipið hringferð um landið í gagnstæða átt við hitt.

Það hefir verið óspart notað og bent á í sambandi við smíði og rekstur nýs strandferðaskips, að halli hafi orðið á rekstri Esju. Það er rjett, að mikill halli hefir orðið á rekstri hennar, en það er líka álit flestra þeirra, er nokkuð þekkja til slíkra mála, að strandferðir verði aldrei reknar hallalaust. Reynslan hefir sýnt, að hallinn á rekstri Esju hefir verið um 177 þús. kr. að meðaltali á ári síðan hún hóf strandferðir sínar. Þessi rekstrarhalli er með minna móti síðastl. ár, og stafar sennilega að nokkru leyti af vjelabilunum, er komu fyrir. Nielsen framkvæmdarstjóri hefir bent á, að það mundi draga úr rekstrarhalla Esju, ef annað skip kæmi, sem gerði henni kleift að fara hraðar yfir, því að þá mundi fólk taka sjer far með henni meira en verið hefir. En þó að gert sje ráð fyrir, að þetta nýja skip hafi meira farmrými en Esja, þá verður það líka að vera útbúið til þess að flytja fólk, sem ætti þá að draga úr rekstrarhalla þess.

Eins og tekið hefir verið fram í þessu sambandi, hafa tillögumenn miðað byggingu skipsins við þær hafnir á landinu, sem lítil eða engin not hafa af ferðum millilandaskipanna, eins og t. d. við Hornafjörð, þar sem stærri skip vilja alls ekki líta við að koma. Sama er og að segja um margar smærri hafnir innan Breiðafjarðar. Þeir, sem til þekkja, vita, að þar er víða skerjótt og vont til siglinga stórum gufuskipum. Ætti því að byggja sjerstakt skip með tilliti til Breiðafjarðar. Þyrfti það að vera grunnskreitt og sjerstaklega útbúið með tilliti til Breiðaflóa eins; slíkur bátur þyrfti ekki að vera stór, enda hefði hann ekki aðra staði að annast. Sama má segja um Hornafjörð, að vegna grunnsævis, storma og staðhátta eru það aðeins smærri skip, sein geta komið honum að notum. Enda er það yfirleitt skoðun manna, að Hornafjörður muni best trygður með litlu skipi, eða fjarðarbáti af líkri gerð og norskur línubátur, sem ekki þyrfti að vera dýr í rekstri, er hafi samband við Austfirði og yrði um leið Austfjarðabátur, en að sjálfsögðu komi svo strandferðaskipin inn á Hornafjörð, þegar þess er einhver kostur. Menn líta yfirleitt svo á, að ekki sje hægt að staðbinda ferðaáætlun neinna skipa við stað eins og Hornafjörð.

Þetta er meginþáttur uppistöðunnar í áliti okkar minnihlutamanna. En svo vil jeg benda á, að ef það er ætlunin, að við verðum sjálfum okkur nógir að því leyti að fullnægja flutningaþörfinni með ströndum fram, þá verður ríkið að leggja drjúgan skerf til strandferða. Því að vitanlega myndi hvaða fjelag sem er ekki taka slíkar ferðir að sjer nema fyrir allháan styrk frá ríkinu. Jeg man ekki, hvað Thorefjelagið eða Sameinaða fjelagið höfðu mikinn styrk hjer á árunum til slíkra ferða, og þau þóttust víst ekki ofhaldin af því tillagi, sem þau fengu.

Það er lauslega bent á það í nál. okkar minni hl., að við eigum sjálfir að annast flutninga með ströndum fram. Það ætti í raun og veru að vera sjálfstæðismetnaðarmál okkar, að Íslendingar ráði siglingum sínum, ekki aðeins meðfram ströndum landsins, heldur og landa milli. Ef menn telja þessa stefnu rjetta, sem jeg varla efa, þá fæ jeg ekki annað sjeð en að ríkið eitt taki þessi mál að sjer, því ekki er að ætlast til þess af einkafjelögum, að þau ráðist í slíkt hvað strandferðirnar áhrærir. En verði haldið áfram í þessu efni á þann hátt, að ríkið reki strandferðirnar, þá verður að hafa skipin svo fullkomin, að ekki þurfi að kasta þeim sem ónothæfum eftir fáein ár.

Þá skal jeg lítilsháttar víkja að því, sem talað hefir verið um kostnaðinn við að smíða þetta skip, sem mjer virðist mörgum hv. þdm. vaxa mjög í augum. Jeg þykist nú vita, að í næstu fjárlögum verði ekki fje aflögum til þess að leggja í þetta, en mjer finst hinsvegar enginn ógerningur að taka lán, svo að hafin væri smíði skipsins, sú upphæð, sem nefnd er í nál. minni hl., 600–700 þús. kr., sem áætlað er, að skipið muni kosta, er höfð eftir Nielsen framkvæmdarstjóra, en er ekki nákvæm, því athuga verður, að þar er miðað við danskar krónur. — Framkvæmdarstjórinn hefir upplýst nú, að skip á borð við Esju, en jafnvel útbúið og með kælirúmi, muni kosta fullbúið um 800 þús. kr. ísl. En aftur á móti lítið flutningaskip, eins og frv. gerir ráð fyrir, segir sami maður, að engin leið sje að hugsa sjer, að það kosti minna en 550–600 þús. kr. íslenskar.

Þá er spurningin: eigum við að smíða lítið flutningaskip, sem kostar upp undir 600 þús. kr., eða eigum við að leggja áherslu á stærra og fullkomnara skip, sem kostar 200 þús. kr. meira? Jeg fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um, að við eigum að leggja kapp á að eignast fullkomnara skipið. —

Jeg er nú búinn að gleyma mörgu af því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði hjer á dögunum, en hann virtist koma fram sem sá fróði maður um byggingu og rekstur strandferðaskips. Hann benti á, að kælirúmið tæki svo mikið rúm frá öðrum flutningi. Það er alveg rjett, en kælirúm slíks skips verður að telja nauðsynlegt, en þó má benda á það, að slíkt rúm má nota fyrir almennar vörur, ef engar kældar vörur eru með. Nú er uppi sú stefna, að okkur sje fyrir öllu að koma vörum okkar nýjum og frystum til þeirra, sem neyta þeirra, og gildir sama um kjöt, fisk, síld eða hvað sem er, að þessu verður að koma frystu milli hafnanna.

Það hefir verið bent á, að það sje mikill hagur fyrir bændur, sem nærri frystihúsum búa, að geta geymt þar vörur sínar. En þó er það ekki bændum nóg; þeir þurfa að koma vörunum á markað, ekki aðeins hingað eða til annara hafna, þar sem hægt er að selja þær, heldur og til útlanda. Verða strandferðaskipin að annast þann flutning með ströndum fram í beinu sambandi við ferðir millilandaskipanna.

Esja hefir nú aðeins rúm fyrir flutning, sem nemur 180 smálestum, og sjá allir, að það getur aðeins fáum að haldi komið. En væru þau tvö, strandferðaskipin, yrði þó að nokkru bætt úr flutningaþörfinni og fleiri mönnum auðsótt að koma framleiðsluvörum sínum nýjum á markaðinn.

Þá talaði sami háttv. þm. um hraða skipsins, og er það rjett, að hann stendur í hlutfalli við stærð vjelarinnar og styrkleika, en þó líka við byggingarlag skipsins og lengd þess.

Nielsen framkvæmdarstjóri gerir ráð fyrir 100 hestafla stærri vjel í þessu nýja skipi en Esja hefir nú, til þess að líkur ganghraði náist vegna kælirúmsins. Þá gerði hv. þm. alt of mikið úr kolarúminu. Skip, sem fara með ströndum fram, þurfa ekki að hafa mikil kol meðferðis; þau geta haft forðabúr hjer og þar á góðum höfnum, t. d. Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði, og tekið kolin þar jafnótt og þeirra er þörf. Hv. þm. þurfti heldur ekki að tala mikið um Hornafjörð. Jeg er honum sammála um, að ekki sje hægt að binda skipið við að koma þangað í hverri ferð. Því veldur, hve miklum vandkvæðum er bundið að komast þar inn. Þar ræður ekki sjerstaklega stærð skipa, heldur miklu fremur, hvernig veðri er háttað í hvert skifti. En krafan um strandferðaskip er heldur ekki komin frá Hornafirði einum. Hún er landskrafa. Öll hin afskektari hjeruð þarfnast bættra strandferða.

Þá gerir hv. þm. mikið úr því, að hægt sje að senda nýtt kjöt með bílum. Þetta getur tekist sumarmánuðina í sumum landshlutum. En mjer líst í meira lagi illa á það, að hægt sje að treysta bílferðum t. d. yfir Holtavörðuheiði, þegar komið er fram á haust. Reynslan er sú, að vegurinn hjeðan austur yfir fjall hefir margan vetur verið með öllu ófær bílum, og eru þó minni snjóþyngsli sunnanlands en norðan.

Þá telur hv. þm. það víst, að fargjöld verði lægri á bílum en skipum. Hann sagði, minnir mig, að hægt yrði að komast úr Skagafirði til Borgarness fyrir 30 kr. En nú er líka hægt að komast úr Skagafirði með Esju til Reykjavíkur fyrir 32 kr. Er þá lítill munurinn. Ennfremur eru líkur til þess, að hægt verði að lækka fargjöld skipanna, en naumast er að búast við því sama um bílana. Auk þess ætla jeg, að sú muni raun á, að fólk kjósi heldur að ferðast með skipum en bílum, þegar strandferðirnar eru orðnar svo tíðar og svo vel að farþegunum búið, að við sje unandi.

Jeg er raunar búinn að svara því, sem hv. þm. sagði um það, að fólk vildi heldur síma en samgöngur á sjó. Það er rjett, að almenningi, einkum í afskektum sveitum, er mikil þörf á síma, enda hefir Alþingi gert mikið til að bæta úr þeirri þörf. En því aðeins verða full not símans, að samgöngubæturnar verði honum samferða. — Mönnum er t. d. lítið gagn að því, þó að þeir með aðstoð símans geti náð góðum vörukaupum á fjarlægum stöðum, ef samgöngutækin vantar til þess að flytja þær til þeirra.

Hv. þm. hefir það eftir framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, að rekstrarhalli strandferðanna mundi aukast, ef nýtt skip yrði bygt. Mjer þykir þetta undarlegt, því að framkvæmdarstjórinn hefir látið alt annað uppi við mig, og hefi jeg í höndum brjef frá honum um þetta efni, sem jeg skal lofa hv. þm. að sjá, ef hann vill.

Þá segir hv. þm., að fólk hliðri sjer hjá að ferðast með Esju og kjósi heldur önnur skip. Þetta mun vera rjett eins og nú er ástatt. En hver er ástæðan? Sú, að Esja fer alt of hægt yfir. En það er vegna þess, hversu marga viðkomustaði hún hefir í hverri ferð. En þetta mundi breytast. Nú kemur hún á 40–50 hafnir í hverri ferð. En væri annað strandferðaskip til, mundi hún koma á smáhafnirnar til skiftis og miklu færri í hverri ferð. Þá mundi fólk ekki síður kjósa að ferðast með okkar eigin strandferðaskipi en hraðferðaskipunum erlendu, sem koma þó ekki nema á aðalhafnirnar. Og jeg er þess fullviss, að hv. þm. mælir ekki með því, að erlend gróðafjelög sitji fyrir öllum hagnaði af fólksflutningunum. Hann benti rjettilega á það í ræðu sinni, að venjulega væri hvert rúm skipað á Esju milli Reykjavíkur og Breiðafjarðar. En af hverju er þetta? Af því, að þá leið fer hún á nógu skömmum tíma.

Þá vildi hv. þm. gera lítið úr markaðinum fyrir kælivörur og möguleikum til að auka hann. Jeg vil ekki segja, að hann tali hjer á móti betri vitund. En hitt er mjer kunnugt, að í hjeraði hans, Ísafjarðarsýslu, eru sæmilegar samgöngur, og því lítil þörf að ljetta undir með mönnum þar að flytja vörur til markaðar á þann hátt, sem, hjer er gert ráð fyrir. Jeg held því, að hjer sje, vægast sagt, um nærsýni að ræða hjá hv. þm. En við Reykvíkingar höfum ástæður til að líta jafnt á hag allra landsmanna í þessu efni. Vera má, að jeg sje of bjartsýnn á framtíðina. En jeg hefi örugga trú á því, að mikið megi auka markaðinn fyrir kælivörur í kaupstöðum landsins, og sömuleiðis erlendis. En til þess þarf kæliskip, sem komi á sem flestar hafnir.

Orð hv. þm. gefa mjer tilefni til að minnast á flóabátana, enda er þess full þörf. Það er alkunna, að flóabátafyrirkomulag okkar nú er alveg óþolandi. Það er aðeins vandræðaráðstöfun, til að bæta úr brýnustu nauðsyn. Það er ekki nægilegt, að bátarnir flytji vörur, heldur þarf að vera sæmilega sjeð fyrir kosti farþega. Þeir verða að vera búnir nauðsynlegustu þægindum, jafnvel þó að ekki sje að ræða um lengri ferðir en innan fjarða. Hitt er með öllu óþolandi og menningarþjóð ósamboðið, að farþegar hafi ekki einu sinni skjól fyrir stormi og regni, enda hættulegt heilsu manna og lífi. — Þeir bátar, sem nú eru notaðir, eiga að hverfa úr sögunni, en aðrir að koma í þeirra stað, svo úr garði gerðir, að fólki sje boðlegt að ferðast með þeim. Og þeir eiga að taka króka af strandferðaskipunum, losa þau algerlega við tafsamar viðkomur á afskektum smáhöfnum.

Jeg held, að mikið sje leggjandi í sölur til þess að koma strandferðunum í gott horf. Eins og æðakerfi líkamans er samgöngutæki fyrir blóðrásina, svo eru og samgöngurnar æðakerfi landsins.

Jeg hefi hingað til beint máli mínu til málsvara Íhaldsflokksins hjer í hv. deild. Satt að segja get jeg alls ekki skilið afstöðu þess flokks í þessu máli bæði nú og fyr. Nú skal jeg aðeins víkja að hv. 2. þm. Rang. Hann hefir skrifað undir nál. með fyrirvara. Jeg er nú hálfhræddur um, að sá hv. þm. líti fullmikið á nauðsyn hjeraðanna austanfjalls, t. d. Flóans og Holtanna. Í rauninni er honum ekki láandi, þó að hann vilji hag síns hjeraðs. En það eru fleiri hjeruð en Rangárvalla- og Árnessýslur, sem þurfa góðar samgöngur. Jeg get sagt honum það, að við jafnaðarmenn viðurkennum fyllilega samgönguþörf suðurláglendisins og munum styðja það, að úr henni verði bætt á þann hátt, sem við sjálfir ráðum við og hjeruðunum má að gagni verða, þó að við viljum láta þetta mál ganga á undan.

Að lokum vil jeg geta þess, að jeg er maður með svo miklu sjálfstæðisblóði, að jeg skil, hvílík hætta sjálfstæði okkar er búin, ef við höfum ekki ráð á okkar eigin siglingum. Við megum minnast styrjaldaráranna. Hvernig hefði þá farið, ef við hefðum ekki haft skip? Styrjöld getur gosið upp áður en okkur varir, miklu ægilegri hinni síðustu, með víðtækara hafnbanni. Hvað myndu þýða þá norsk og dönsk skip? Gæti þeir sín því vel, sem þetta mál vilja feigt.