17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Meiri hl. samgmn. getur í raun og veru verið mjög ánægður með þær umr., sem fram hafa farið, því að andmælendur hafa ekki hreyft við aðalniðurstöðu álits okkar, þeirri, að annað sje nauðsynlegra til umbóta á samgöngumálunum en nýtt strandferðaskip.

Til þess að fylgja röðinni, hefði jeg fyrst átt að svara hæstv. dómsmrh. Hann er nú ekki viðstaddur, og ætla jeg því að bíða með svar til hans og sjá, hvort hann birtist ekki í deildinni síðar. Jeg ætla þá að snúa mjer að háttv. 1. þm. S.-M. og háttv. 4. þm. Reykv., og ætti það þó ekki að vera nauðsynlegt, þar sem þeir hafa, eins og jeg tók fram, ekki reynt að hnekkja aðalniðurstöðu okkar meirihlutamannanna. En jeg get ekki slept að benda á það, að þessir 2 hv. þm. eru sín á milli ósammála. Það er auðheyrt, að þeim kemur alls ekki saman um, hvað eigi að gera. En meiri hl. nefndarinnar er það tvent ljóst, fyrst og fremst það, að samgöngubæturnar á landi, svo og símalagningar og hafnarbætur, eiga að ganga fyrir aukning á strandferðunum, og í öðru lagi það, að ríkið hefir ekki efni á að gera hvorttveggja: Byggja skip og bera rekstrarhalla þess og leggja jafnframt í mikinn kostnað til samgöngubóta á landi.

Háttv. 1. þm. S.-M. telur aukning strandferðanna nauðsynlega til farþega- og póstflutninga og heldur, að fjölgun þeirra muni spara póstferðir á landi. En svo undarlega ber við, að hann leggur ekki til að byggja skip til að starfrækja mann- og póstflutninga. Nei, hann vill fá vöruflutningaskip. Hv. 4. þm. Reykv. segir aftur á móti, að ekki sje enn sem komið er hægt að ákveða, hvernig póstflutningi verði best fyrir komið og alls ekki fyr en athugað sje, að hve miklu leyti hægt sje að nota flugvjelar til þessa. Rökrjett ályktun af orðum beggja þessara hv. þm. er einmitt niðurstaða meiri hl. nefndarinnar: Að fresta málinu.

Jeg sje, að hæstv. dómsmrh. er kominn inn í deildina og ætla jeg því um sinn að snúa mjer að honum. — Hann hjelt því fram með sinni venjulegu góðgirni, að jeg væri á móti málinu, af því að N.-Ísafjarðarsýsla hefði góðar samgöngur. Allir kunnugir menn vita, að hjer er málum blandað. Ekkert hjerað hefir að tiltölu við stærð og mannfjölda fengið eins lítið framlag til samgöngubóta frá hinu opinbera og einmitt N.-Ísafjarðarsýsla. Undanfarið hefir hún ekki fengið frá ríkinu nema sem svarar 4 kr. á hvern íbúa til póst-, mann- og vöruflutninga. En þetta er aukaatriði, sem ekki kemur málinu við. Hæstv. dómsmrh. var að tala um þröngsýni Íhaldsflokksins. Jeg held, að allir hljóti að viðurkenna, að ekki hefir verið um meiri verklegar framkvæmdir að ræða en einmitt meðan Íhaldsflokkurinn fór með völd. Jeg ætla ekki að rekja þetta, það er öllum kunnugt; og heldur ekki að þakka það. Það er nú svo, að það er ekki stjórnarflokkurinn, sem fyrst og fremst hefir veg og vanda af þingstörfunum, heldur meiri hl. þingsins, hver sem hann er. Nú sem stendur er það Framsókn og jafnaðarmenn. Jeg vona, að núv. stj. takist jafngiftusamlega og fyrv. stj. Jeg veit þó, að til þess þarf kraftaverk, en vonandi eru tímar kraftaverkanna ekki liðnir, svo vera má, að þetta geti rætst.

Hæstv. ráðh. sagði, að lestaflutningarnir væru skrælingjamerki. Jeg vil benda honum til Noregs; þar er líka löng strandlengja, en þó eru tekjur af rekstri strandferða þar margfalt meiri, vegna fjölda landsmannanna þar. Þó fara mannflutningar þar í landi fram í lestum skipanna, jafnvel á 6–7 daga ferðalögum. Skip, sem hafa farþegarúm fyrir 80–90 manns, flytja á vissum tíma árs, þegar fólk ferðast mest í atvinnuleit, 300–400 manns. Því að þótt fólksfjöldinn og þar af leiðandi tekjurnar sjeu miklar, er ekki hægt að byggja svo stór skip, að þörfinni sje fullnægt, þegar hún er mest, enda yrði þá að selja farið svo dýrt, að fólk leitaði sjer flutnings á annan hátt. Og hjer hjá okkur er geta fólks yfirleitt lítil til að greiða há fargjöld, og við verðum að una því vegna fátæktar okkar, að aðbúnaður sje ekki sem ákjósanlegastur. Við verðum að sníða okkur stakkinn eftir vextinum og megum ekki fara of geist; þarfirnar eru svo margar, að ef ein er uppfylt til fulls, situr fjöldi annara á hakanum.

Þá mintist hæstv. dómsmrh. á matvælaflutning í kælirúmi. Öll nefndin er sammála um, að næsta skip, sem bygt verður, verði útbúið með kælirúmi. En hitt er annað mál, að margir í nefndinni líta svo á, að flutningur fiskjar hafna á milli innanlands verði mjög lítill. Það hagar svo til, t. d. á Húnaflóa, og reyndar á öllu Norðurlandi, að þar eru fiskiveiðar á mörgum stöðum stundaðar fram á haust, og á Austfjörðum er nóg af fiski, svo að ekki þarf að flytja hann að annarsstaðar frá. Að vísu er fiskur fluttur til Húnaflóa frá Vestfjörðum fyrri part árs, en hann helst óskemdur í lest, svo að af þeirri ástæðu þarf ekki skip með kælirúmsútbúnaði, enda mundi kæliflutningur hleypa verðinu á þessari vöru svo fram, að það mundi draga mjög úr neyslunni. Nefndin er sammála um, að fyrirkomulag það, sem stjfrv. gerir ráð fyrir, sje ekki heppilegt. Hefir háttv. 4. þm. Reykv. fært frekari rök fyrir því en jeg áður gerði, svo að jeg þykist ekki þurfa að endurtaka það, sem við höfum sagt þar um.

Hæstv. dómsmrh. segir, að þetta skip eigi að koma á allar minni hafnir og taka vörur til flutnings. Ef það á að koma á allar hafnirnar í hverri ferð, þá er jeg sannfærður um það, að viðkomur skipanna á smærri höfnunum verða lítið betri en nú, því að skipið tekur ekki 40–50 hafnir kringum land á skemri tíma en mánuði. Og þar eð skipið verður svo hægfara, fer það varla meira en 10 ferðir á ári, svo að það getur ekki sint að neinum mun pósti og fólksflutningum; það gæti ef til vill tekið farþega til stærri hafna í leið fyrir stærri og fljótfærari skip, en lítið mundi að þessu gert. Hann mintist á, hvað flutningurinn væri erfiður. Þetta er rjett; hann er bæði dýr og erfiður, og verður það ávalt. Hæstv. ráðh. gat þess í þessu sambandi, að það gæti kostað 5 kr. að flytja sementstunnuna frá Reykjavík til sunnanverðs Snæfellsness. En við þetta bætist svo, að þessir menn verða að flytja vörurnar á landi og leggja á sig mikinn kostnað við landflutninginn, því að landflutningarnir eru dýrari en flutningar á sjó. Og þess vegna finst mjer rjettara að koma vegunum í betra horf, enda stendur svo á, að bændum á Norður- og Suðurlandi er meiri styrkur að því.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta væri þjóðernismál. Það má segla svo um alt, sem er til styrktar mentalífi og atvinnnvegum landsmanna. En ef hæstv. ráðh. hefði sagt, að þetta væri alþjóðarmál, er það ekki rjett. Ef svo væri, væri leiðin til að hrinda því fram sú sama og farin var, þegar Eimskipafjelagið var stofnað, og þess ætti að mega vænta, að þeir sem kvarta um samgönguleysi, vildu eitthvað leggja fram. t. d. sem hlutafje.

Hæstv. ráðh. sagðist hafa augastað á einhverjum 400 þús. kr. í þessu augnamiði, sem væru handbærar og fengjust með góðum kjörum. Ef þessi upphæð fæst með góðum kjörum, má nota hana til þarfari og brýnni framkvæmda, eins og jeg hefi margsýnt fram á. Hæstv. ráðh. verður að sætta sig við, að jafnvel flokksmenn hans geta ekki orðið honum samferða í fyrirkomulagsatriðum málsins.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að það þyrfti auknar strandferðir til fólksflutninga fyrir 1930, því að þá mundi fjöldi fólks utan af landi vilja komast hingað til Suðurlands. Mjer finst nú, að það sje ekki nóg ástæða til að byggja nýtt strandferðaskip, þó að nægur farþegaflutningur fáist á einhverju einstöku tímabili eins einasta árs, enda er alls ekki ráð fyrir því gert í frv., að skipið verði aðallega mannflutningaskip. Þvert á móti heldur hann og hæstv. stj. fast við það, að skipið verði nær eingöngu vöruflutningaskip. Það er með engu móti hægt að hrekja það, að mikil bót er ráðin á mannflutningunum með bílveg milli Norður- og Suðurlands, enda hefir enginn rengt það. Auk þess fer fólk með bíl fremur en skipum, að öðru jöfnu. Háttv. 4. þm. Reykv. reyndi að vísu að hrekja þetta, en færði engin rök fram. Í nál. okkar er gerður samanburður á mannflutningum með bíl og skipum. Ferðirnar með bílunum eru ódýrari, og þar við bætist svo, að styttri tími fer í ferðalagið og þar af leiðandi minna vinnutap. En þó er ótalið, að þeir, sem ferðast með strandferðaskipunum, fá styrk úr ríkissjóði til að ferðast ódýrar, en ef þeir ferðast með bílunum, er ekki gert ráð fyrir, að þær ferðir sjeu styrktar með árlegu framlagi úr ríkissjóði. Vegirnir eru að vísu lagðir, en þeir eru óhjákvæmilegir til þess að fært sje hjeraða á milli. Og er ekki gott að geta bætt samgöngurnar án þess að leggja fram meira fje úr ríkissjóði en nú er gert?

Hv. 1. þm. S.-M. sagði með rjettu, að tekjuhalli á Esju hefði eitt árið verið 135 þús. kr. En hann gætti þess ekki, að þá byrjaði Esja ekki strandferðir fyr en í maí og hjelt aðeins út þangað til í desember. (SvÓ: Byrjaði ekki þá, heldur í mars). Það var fyrsta árið. (SvÓ: Það var ekki fyrsta árið). A. m. k. er meðalhalli skipsins 137 þús. kr., eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram. Í reikningum Esju eru ekki bókfærðir vextir af þeim 900 þús. kr., er hún kostaði, og svo er sáralítið gert fyrir sliti skips og vjelar og „klössun“ skipsins, sem verður fram að fara fjórða hvert ár. Raunverulegur halli er því 80–90 þús. kr. hærri en reikningarnir sýna. Mjer skildist á hv. þm. síðast í ræðu hans, að ekki þyrfti að tala um fyrirkomulag strandferðanna, þótt frv. væri samþ. Til þess væri nógur tími, þegar skipið væri fengið. En það er nú álit flestra, og að minsta kosti samgmn., að rjettara sje að vita, hvað með skipið eigi að gera, áður en lagt er út í þann kostnað að byggja það. Jeg held, að hv. þm. sje mjer sammála í þessu efni, þó að honum hafi gleymst þetta í hitanum. Hv. þm. sagði, að nefndin væri ekki sammála um fyrirkomulagið. Þetta er ekki rjett. Það er ágreiningur um það, hvort ráðast eigi strax í framkvæmdirnar eða fresta þeim. Auk þess eru það ýms smávægileg atriði, sem hver hefir sína skoðun um, eins og gengur.

Hv. 4. þm. Reykv. álítur, að tvö fólksflutningaskip myndu auka fólksflutningana. Jeg er á sömu skoðun, en því aðeins yrði það, að skipin verði rekin eins og nál. bendir til. Við búumst við því, að nokkur farþegaflutningur fáist, sem nú rennur til annara skipa. Ennfremur má gera ráð fyrir nokkrum vöruflutningi með þessu skipi. En það er rjett að athuga, að þeim vöruflutningi, sem er hagkvæmastur Esju, verður skift milli skipanna. Eins og menn vita, hafa fargjöldin á Esju farið lækkandi ár frá ári; í fyrstu voru þau aðaltekjuliður skipsins, en flutningsgjöldin hafa gefið meiri tekjur síðustu árin. Þetta er eðlilegt. Þegar Esja hóf göngu sína, voru færri fólksflutningaskip í förum milli landa og kringum landið en nú eru. Því virðast þeir, sem eingöngu líta á fortíðina, villast bagalega, þegar þeir tala um samgöngur. Þeir gæta þess ekki, að fyrr og nú er ekki sambærilegt í þeim efnum. Nú eru beinar ferðir, mest danskra skipa, milli Norður- og Suðurlands, þegar flest fólk þarf að ferðast í atvinnuleit. Og þessi fólksflutningur dönsku skipanna verður ekki af þeim tekinn nema með beinum ferðum innlendra skipa, og þá helst millilandaskipanna. Fólk sætir bestu og beinustu ferðunum, þegar það er í atvinnuleit; það er annað með skemtiferðafólk, en flestir ferðast þó til að leita sjer atvinnu. Og þar sem Eimskipafjelagið getur annast þetta, er það ekki rjett, að við förum að byggja nýtt skip og reka það með stórtapi, til þess eins að taka þessar fáu ferðir, sem alþjóðarfjelag landsmanna getur og ætti að annast.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði um starfrækslu flóabátsins, að hún væri vandræðamál. Og það er að mörgu leyti satt. Einkum er það fjárhagslegt vandræðamál fyrir viðkomandi hjeruð, En jeg er sannfærður um, að því verður ekki kipt í lag, fyrr en ríkissjóður fær margfaldar tekjur á við það, sem nú er. Jeg þekki víðar til en við Ísafjarðardjúp og veit, að fólkið ferðast æðioft með lakari farkosti en flóabátarnir eru, ef fargjaldið er lægra bar en með flóabátunum. Því er nú svo háttað, að fólk lítur meira á kostnaðarhliðina en þægindin og öryggið. Því miður er það oftast greiðslugetan, sem þessu veldur.

Háttv. þm. (SÁÓ) vildi halda því fram, að jeg væri málsvari Íhaldsflokksins í þessu máli. Þetta mál hefir, mjer vitanlega, aldrei verið rætt á flokksfundi Íhaldsflokksins að þessu sinni. En jeg get hugsað, að vegna fjárhags ríkissjóðs vilji margir flokksmanna minna fresta því og fella frv. Jeg tala hjer einungis fyrir meiri hl. nefndarinnar og fyrir sjálfan mig.

Hv. 4. þm. Reykv. kannaðist við, að þetta skip gæti ekki fullnægt þörf Hornfirðinga, fyrir strandferðum. Því sama hefi jeg haldið fram. Vitanlega getur það ekki að neinn leyti bætt úr örf Norður-Ísfirðinga. Ekki getur það komið í stað bátsins, sem nú gengur milli Borgarness og Reykjavíkur. — Þetta skip gagnar ekki Faxaflóanum. ekki suðausturströndinni ekki Eyjafirði. Allir Eyfirðingar eru sammála um, að meiri nauðsyn sje á að fá flóabát til að halda uppi samgöngum um Eyjafjörð og við nærliggjandi hjeruð. Þetta bendir á það, sem jeg hefi haldið fram, að fyrst þurfi að koma lagi á samgöngurnar innan hjeraðanna, svo að innanhjeraðsmenn geti haft vöruskifti og sparað sjer svo kaup á aðfluttum vörum.

Háttv. 1. þm. S.-M. sagði, að ekki þyrfti að eyða mörgum orðum um þetta frv., því forlög þess væru þegar ákveðin. Jeg get trúað því, en samt tel jeg ekki óþarft að skýra þetta mál, sem vissulega er stórt fjárhagsmál, áður en lagt er út í framkvæmdir. En mjer virðist nokkur vafi vera á því, á hvern hátt málið verður leyst. Hæstv. stjórn leggur til, að keypt verði skip, sem aðallega sje ætlað til vöruflutninga. Minni hl. samgmn. er þar á annari skoðun. Nú vil jeg spyrja: Ætlar minni hl. samgmn. að beygja sig fyrir skoðun stjórnarinnar, til þess að málið nái fram að ganga? Eða ætlar hæstv. stjórn að falla frá því, sem hún álítur hagkvæmast, til þess að koma því fram? Þetta er mjer forvitni á að vita. Að sjálfsögðu verður að taka tillit til þess, hvora leiðina á að fara. Jeg sje ekki betur en hæstv. stj. og minni hl. nefndarinnar greini þarna á um aðalatriði. En meiri og minni hl. samgmn. greinir aðeins á um það eitt, hvort byggja skal skipið nú strax eða láta aðrar nauðsynlegri framkvæmdir sitja fyrir.