17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

15. mál, strandferðaskip

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi lagt það á mig að hlýða á hina löngu ræðu hv. frsm. meiri hl. samgmn. En það ræður af líkum, að enn meira hefir hann þó þurft að leggja á sig sjálfur. Það hefði verið miklu brotaminna fyrir hann að fara í Alþt. 1927 og lesa þar ræður þær, er fluttar voru þá af hálfu andstæðinga málsins. Hann hefði líka getað haft aðra aðferð. Hann hefði getað farið í Alþt. frá 1926 og lesið upp ræður þær, sem þá voru fluttar móti máli þessu? Þetta er í þriðja skifti, sem málið kemur fyrir þingið, og ekkert nýtt hefir komið fram í því. Það er aðeins verið að vefa sama vefinn og ofinn hefir verið áður. Málið liggur ljóst fyrir; það er búið að þrautræða það. Það er óþarfi að eyða mörgum orðum og tíma í að ræða það nú. Hv. þm. hljóta að hafa gert sjer grein fyrir, hvernig þeir ætla að greiða atkv. um það. Það hefir verið rætt á Alþingi, rætt í blöðum, rætt á fundum um alt land. Hv. frsm. meiri hl. var að hrósa sigri yfir því, að það hefði ekki verið hrakið, sem hann sagði. En það er búið að hrekja það í fyrra og hrekja það í hitteðfyrra. Okkur, sem að þessu máli stöndum, dettur ekki í hug að fara að eyða starfsþreki okkar, tíma eða prentsvertu til að endurtaka það, sem þá var sagt.