20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

15. mál, strandferðaskip

Hákon Kristófersson:

* Jeg get ekki tekið undir það, sem hæstv. atvmrh. sagði, að þýðingarlaust væri að ræða þetta mál. Jeg held einmitt, að þetta mál, ekki síður en önnur mál, hafi gott af því að vera rökrætt, eins og hv. frsm. meiri hl. tók nú rjettilega fram. En út af því, sem hæstv. dómsmrh. var að segja um aðstöðu mína til þessa máls, þá er hún ekki sú, sem hann gaf í skyn, að jeg telji ekki þörf á betri eða meiri skipakosti með ströndum fram. Hitt tel jeg, að við samgöngurnar á sjó megi betur una nú um stund en eins og þær eru víða á landi, þar sem bæði vantar vegi og margar ár, sem hættulegar eru, óbrúaðar og hefta ferðir manna. Það er þess vegna, að jeg fylgi meiri hl. samgmn. um það að fá vegi og brýr á undan byggingu nýs strandferðaskips.

Mjer hefir sjerstaklega verið núið því um nasir, að jeg væri á móti því að bæta strandferðir á Breiðafirði, og gefið í skyn, að þar mundi jeg vera í beinni andstöðu við kjósendur mína. En jeg get nú upplýst um það, að einmitt vestur þar óskar fjöldi manna fremur eftir því, að ár, sem valda miklum farartálma, verði brúaðar og að bættar verði samgöngur á landi, áður en strandferðirnar verða auknar.

Það þarf heldur ekki að bera saman skipaferðir um Breiðafjörð nú eða fyrir 20 árum. Það mikið hafa þær aukist. En annars mætti og geta þess, að staðháttum er þann veg háttað t. d. við norðanverðan Breiðafjörð, að tæplega mun hægt að búast við, að skip, nema þá sjerstaklega útbúin, komi þar inn á hvern vog eða vík; a. m. k. ekki fyr en búið er að mæla þar upp siglingaleiðir.

Þar sem þessu er nú svona háttað vestur þar, en mjer nú kunnugur orðinn hinn mikli áhugi hæstv. stj. fyrir bættum samgöngum um Breiðafjörð, vona jeg, að hæstv. atvmrh. láti nú framkvæma þær uppmælingar á þessum slóðum, sem Alþingi hefir áður fallist á að láta gera. Því að jeg lít þannig á, að þar, sem eins er ástatt og á Breiðafirði, þurfi ekki að ætlast til, að skip komi á þá staði, sem hvorki eru mældir upp eða skip hafa komið á áður. Fyrst um sinn verða Breiðfirðingar að gera sig ánægða með, að mótorbátar annist flutninga til afskektra staða, sem skip koma ekki á. En þá má Alþingi ekki heldur kippa að sjer hendinni um sæmilegan styrk til slíkra bátaferða, bæði þarna og í öðrum landshlutum, þar sem þess er þörf.

Jeg bið háttv. þm. velvirðingar á því, að jeg var að hnupla frá honum þeim heiðri að vera frsm. minni hl., og jeg endurtek það, að jeg biðst afsökunar á þeim ómaklegu ummælum í garð hv. þm. V.-Húnv.

Háttv. þm. V.-Húnv. hafði þau orð eftir framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, að ef við hugsuðum til að taka fólksflutningana í okkar hendur, þá bæri að gera það eftir því sem við legðum til. — Jeg segi nú eins og maðurinn: „Ekki rengi jeg sjera Jens, en ótrúlegar þykja mjer sögur hans“. Því að þetta er ekki alveg samhljóða því, sem sá virðulegi maður hefir sagt við mig. Hann hefir sagt, að sjer virtist strandferðunum sæmilega fyrir komið eins og nú er; en því er ekki að neita, að hann vill ljetta á skipum Eimskipafjelagsins að koma inn á hinar minni hafnir. Þetta er að mestu alveg rjett, en til eru líka þeir landshlutar, eins og t. d. Hornafjörður, er verða mjög útundan um skipákomur. Annars er það trúa mín, að það verði hægra sagt en gert að koma í veg fyrir, að skipin þurfi á hinar minni hafnir, því að farmeigendur óska að fá flutninginn helst án umhleðslu, og þótt nýtt strandferðaskip yrði bygt, mundu þær óskir haldast að fá millilandaskipin beint inn á hafnirnar. — Þetta skip er hugsað sem vöruflutningaskip, og er það alveg spánýtt í málinu, því að hingað til hefir altaf verið lögð aðaláherslan á að fá fólksflutningaskip, og það borið fram sem aðalknýjandi nauðsyn fyrir þessu skipi, hve þess væri mikil þörf að bæta úr fólksflutningum. Nú segir í nál. minni hl. á þskj. 248, að flutningsþörfin aukist með ári hverju. Látum svo vera, að þetta sje rjett, en annar þeirra manna, sem skrifa undir það nál., segir í greinargerð með frv., sem hann flytur á þskj. 239, að mikið af ferðalögum manna sjeu ónauðsynlegar skemtiferðir. Þar leggur hv. þm. V.-Húnv. ekki meira upp úr þörfinni á fólksflutningi á milli hafna en svo, að hann telur mikið af þeim flutningi óþarfan. Þó vill þessi hv. þm. leggja til, að ráðist verði í byggingu nýs strandferðaskips og rekstur þess.

Hvað mína afstöðu snertir til þessa máls, þá er hún sú, að jeg álít, að flutningum á sjó sje mikið betur fyrir komið en flutningum á landi sem stendur, og því beri fyrst að snúa sjer að þeim. Jeg hefi ekkert samviskubit af að hafa lagt þetta til, og ummæli hv. 1. þm. S.-M., að enginn geti staðið gegn þessu máli nema breyta á móti samvisku sinni, ná því ekki til mín. Hitt er rjett, sem hæstv. atvmrh. sagði, að óþarfi væri að ræða þetta frekar. Jeg vildi aðeins gera grein fyrir mínu atkv., en hinsvegar varð jeg dálítið undrandi að heyra slík ummæli úr þessum stól, frá jafnmerkum og drenglunduðum manni og hæstv. forsrh. er, að þm. eigi ekki að vera að tala um þetta eða hitt málið.

(* Ræðuhandr. óyfirlesið.)