20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

15. mál, strandferðaskip

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg ætla aðeins að gera stutta aths. Jeg get látið mjer nægja, að svara þeim báðum í einu hv. frsm. meiri hl. og hv. þm. Barð. Í rauninni erum við sammála um fyrirkomulagið. Ágreiningurinn er aðeins um það, hvort veita skuli stj. heimildina eða ekki.

En einu atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. vil jeg ekki láta ómótmælt. Hann vildi telja hv. þdm. trú um, að Norðmenn hefðu enn gamla siðinn, að flytja fólk í lest eins og kindur eða kýr. Jeg hefi nú leitað mjer nákvæmra upplýsinga og m. a. átt tal við mann, sem gagnkunnugur er norskum strandferðum, og hann fullyrðir, að þetta eigi sjer alls ekki stað, og af þeirri einföldu ástæðu, að flutningur fólks utan farrýma er bannaður með lögum. Auk þess eru lestirnar innsiglaðar af tollþjónum á hverri höfn og skipsmenn mega ekki brjóta innsiglin milli hafna. Skipverjar eða farþegar geta því ekki komist niður í lestirnar, þó að þeir vildu. Hitt er annað mál, að á sumum strandferðaskipum eru lestir þannig útbúnar, að hægt er að breyta þeim í farrými með lítilli fyrirhöfn, þegar þörf er á, en þá er enginn flutningur í þeim ásamt fólkinu. Hv. þm. hefði því ekki átt að vitna í fyrirkomulag Norðmanna; þeir hafa þegar náð því, sem við eigum að stefna að í okkar samgöngumálum, að farþegum geti liðið sæmilega. Enda hefði það ekki verið nein fyrirmynd til að fara eftir, ef það væri eins hjá Norðmönnum og hann segir það vera. Finn jeg svo ekki ástæðu til að taka fleira fram. En jeg taldi nauðsynlegt að leiðrjetta þessa villu hv. frsm.