24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

15. mál, strandferðaskip

Magnús Guðmundsson:

Jeg geri ráð fyrir, að það muni þykja að bera í bakkafullan lækinn að tala mikið um þetta mál, sjerstaklega þar sem okkur stjórnarandstæðingum var ótvírætt gefið það í skyn við 2. umr., að það væri ekki til neins að ræða þetta mál.

En jeg ætla nú samt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, og jeg ætla að gera það með því að sýna fram á það nánar en gert hefir verið, hvað það er í raun og veru, sem hjer á að gera. Það á að byggja skip, sem áætlað er, að kosti um 800 þús. kr., en rekstrarkostnaður þess á ári er áætlaður um 250–300 þús. kr. Hvaðan á nú að taka þetta fje, og ef það verður tekið, er þá ekki líklegt, að það komi niður á einhverjum öðrum framkvæmdum, að það er tekið til þessa?

Þetta fje verður auðvitað tekið úr ríkissjóði, og það mun koma niður á samgöngubótum til sveita, að það er tekið til þessa.

Það hefir altaf verið svo, þegar fje vantar til einhverra framkvæmda, en hinsvegar verður að láta standast nokkurnveginn á tekjur og gjöld fjárlaganna, að þá er gripið til þess ráðs að sníða af þeim gjöldum, sem ætluð eru til samgöngubóta á landi. Því er það, að þegar ákveðið er að ráðast í byggingu þessa skips, þá er um leið ákveðið að sníða af þeim upphæðum, sem nú eru ætlaðar til samgöngubóta á landi, sem svarar rekstrarkostnaði skipsins á ári hverju. Jeg neita því að vísu ekki, að það sje æskilegt að fá nýtt strandferðaskip, en jeg segi aðeins það, að strandferðir eru hjá okkur komnar miklu lengra áleiðis en samgöngur á landi. Við höfum þegar á að skipa mörgum og góðum skipum, sem geta annast strandferðirnar, en hinsvegar eru enn margir stórir kaflar á landi, þar sem svo að segja ekki nokkur skapaður hlutur hefir verið gerður til samgöngubóta. Því finst mjer það ekkert undrunarefni, þótt þeir, sem mesta áherslu hafa lagt á auknar samgöngubætur á landi og telja, að þeim sje mest ábótavant af verklegum framkvæmdum okkar, vilji reyna að koma öðrum í skilning um þá nauðsyn, sem þeir sjá á þeim. Jeg sje heldur ekkert undarlegt við það, þótt þessum sömu mönnum sje sárt um það, að það fje, sem ætlað hefir verið til þessara framkvæmda, sje tekið frá þeim og varið til annars, er þeir telja miður nauðsynlegt.

Annars vil jeg benda á það, að þetta mál horfir nú öðruvísi við en það hefir gert á undanförnum þingum. Það var þá skipun, en nú er aðeins um heimildarlög að ræða. Þess vegna vildi jeg nú gjarnan spyrja hæstv. atvmrh., hvort hann hugsi sjer að leggja nú þegar út í þennan kostnað. Mjer hefir skilist á hæstv. ráðh. við umr. um önnur mál, að stj. muni ekki nota þær lagaheimildir til framkvæmda, sem líklegt er, að verði afgr. til stj. á þessu þingi, nema því aðeins, að það sje hægt án þess að taka lán. Í þessu frv. er gert ráð fyrir lántöku, og vil jeg því leyfa mjer að spyrja hæstv. fors.- og atvmrh., hvort stj. ætli sjer að nota þá heimild og taka lán til þessa nú á næstunni.

Ef hæstv. atvmrh. vildi lýsa yfir því, að hann ætli sjer ekki að nota þessa heimild og ekki verði ráðist í þessa framkvæmd fyr en fje er veitt til þess í fjárlögum, þá skal jeg falla frá allri andstöðu gegn þessu máli. Því að ástæðan til þess, að jeg er á móti þessu máli nú, er sú, að jeg óttast, að ráðist verði í þessa framkvæmd fyrr en fje er veitt til þess í fjárlögum.

Hjer er um heimildarlög að ræða, en jeg veit, að það getur þýtt tvent. Það getur þýtt það, að stj. og flokkur hennar treysti sjer til að vinda bráðan bug að þessum framkvæmdum, en það getur líka þýtt það, — og liggur ekki allfjarri að halda, að svo sje —, að þeir menn, sem að þessu standa, hafi viljað halda fast við afstöðu sína frá fyrri þingum og láta heita svo, að þeir hafi nú komið því máli sínu fram. Heimildarlagaformið bendir til þessa, því að skipunarformið var notað áður.

Jeg sje, að hæstv. atvmrh. er ekki viðstaddur, frekar en oftar, þegar fyrirspurnir eru bornar fram til hans hjer í deildinni. (Forsrh. TrÞ (kemur inn í deildina): Jeg hefi heyrt hvert orð, sem hv. þm. hefir sagt). Það er gott, en jeg gat ekki búist við, að hæstv. ráðh. feldi sig í krókum og kimum. En jeg vænti skýrs svars við spurningu minni.

Hæstv. ráðh. brá þeim tveim háttv. þm., sem eru í fjvn. fyrir hönd Íhaldsflokksins, þeim hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf., um stórkostlegt ábyrgðarleysi, er þeir vildu láta framkvæma samgöngubætur til sveita, og það, þótt þeir vissu, að því er hann sagði, að það hlyti að verða til þess, að fjárlögin yrðu afgreidd með tekjuhalla. En hvað gerir nú hæstv. ráðh.? Gerir hann sig ekki sekan um það sama? Jú. Hann vill láta byggja nýtt strandferðaskip fyrir tekjuhalla; því að lán er ekkert annað. Jeg hjelt, að ef núv. stj. og stjórnarflokkur vildi láta gera nokkuð fyrir tekjuhalla, þá væru það framkvæmdir í sveitum landsins. En nú er það svo, að ekkert kallar eins hart að í sveitunum eins og auknar samgöngubætur. Það kann að vera mikil þörf á því að leggja fram 1 miljón til síldarverksmiðju, en jeg býst við, að margir muni þó líta svo á, að ennþá meiri þörf sje á því að brúa ár og leggja vegi og síma, svo að það sje unt fyrir bændur landsins að koma frá sjer afurðum og til sín vörum.

Jeg ætla að bíða og sjá, hvað hæstv. atvmrh. segir um þetta. Jeg hefi skilið hann svo, að ekki verði ráðist í þær framkvæmdir, sem þetta þing mun veita stj. heimildir til, nema því aðeins, að fje sje til þess. En hvers vegna er þá verið að kúga þetta í gegnum þingið, ef það á ekki að vera annað en liður á framtíðar-prógrammi?