24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

15. mál, strandferðaskip

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er mesti misskilningur að vera að brýna mig með því, að Íhaldsflokkurinn hafi gert það, sem dugði í þessu máli. Það, sem dugði, kom ekki úr þeirri átt. Jeg hefði ekkert gert, ef ekki hefði komið annað til skjalanna, og þetta annað kom ekki frá Íhaldsflokknum, heldur frá þingmeirihlutanum, sem gat sannað mjer, að með breyttri skattalöggjöf yrðu fjárlögin ekki afgreidd með tekjuhalla, þótt þetta yrði sett í þau.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði ekki gefið fullnægjandi svar. Þetta er rjett. Og jeg get ekki samvisku minnar vegna keypt fylgi hv. 1. þm. Skagf. með því að gefa yfirlýsingu um annað en jeg meina.