24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2743 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Það kom fram hjá hv. 1. þm. Skagf., að rekstrarkostnaður hins fyrirhugaða strandferðaskips yrði um 300 þús. kr. Jeg held, að þetta sje nokkuð freklega áætlað. A. m. k. er það ekki samkv. áliti framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins. Um það má lengi þrátta, hver kostnaðurinn verði. Jeg hefi hjer við hendina skýrslu um það, hvað hafðist upp úr Esju árin 1925, 1926 og 1927. Sú upphæð fer altaf lækkandi, af því að svo ótrygt er að ferðast með Esju, vegna þess að hún þarf að koma á ýmsar smærri hafnir. Tekjurnar voru 1925 159 þús. kr., en 1927 102 þús. kr. Þær hafa lækkað um fullan þriðjung. Ef ferðirnar hefðu reynst betur en búist var við, þá má ætla, að tekjurnar hefðu aukist. Jeg er sannfærður um, að með nýju strandferðaskipi aukast fólksflutningar hjer við land með þessum skipum.

Jeg hefi svo oft tekið það fram, að jeg tel þýðingarlítið að fara nú inn á öll einstök atriði frv., af því að þau eru flest svo þaulrædd, að afstaða manna til þeirra er þegar ákveðin.

Ræða hv. þm. Barð. kom þessu máli lítið við, og get jeg því verið stuttorður í hans garð. Jeg get lýst yfir því; að það gleður mig, að hann skuli ekki hafa haft verra í huga en að benda til orða minna í hans garð. Jeg man ekki eftir því, að jeg hafi nokkurntíma verið með dylgjur í hans garð, og jeg hugsa, að enginn hv. þdm. muni eftir því. Jeg þarf því engu að svara honum, og get jeg þá látið útrætt um þetta mál við hann.