13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Halldór Steinsson):

Í nál. mínu, sem er ekki langt, eru teknar fram aðalástæðurnar fyrir því, að jeg er á móti þessu frv. Þar er það tekið fram, að jeg sje að vísu þeirrar skoðunar, að strandferðir hjer við land sjeu ekki komnar á fullkomið stig og að mjög væri æskilegt, að þær væru betri, en jeg lít þó svo á, að þær sjeu komnar í það horf, að þær sjeu tiltölulega lengra komnar en vegabætur á landi. Eins og nú standa sakir, virðast mjer strandferðir vera komnar í sæmilegt horf, en það verður hinsvegar ekki sagt um vegina. Vegir hjer eru allir í molum, en vegalaust land eða vegalítið verður altaf kyrstöðuland. Það hefir verið mín bjargfasta trú í mörg ár, að ríkið hefði átt að taka margra miljóna króna lán, til dæmis 10–15 milj., til þess að leggja vegi. Jeg er sannfærður um, að þeim miljónum hefði verið betur varið en þeim, sem þegar hafa verið teknar að láni. Auk þess eru ýmsar aðrar framkvæmdir, til dæmis hafnir, vitar og símar, sem þola mjög litla bið.

Um þetta mál er það svo, að kálið er ekki sopið, þótt í ausuna sje komið. Það er ekki nóg, að ríkissjóður leggi fram 500–600 þús. kr. til þess að byggja nýtt skip. Það er ekki það versta. Aðalagnúinn við þetta er, að altaf verður meiri og minni rekstrarhalli á strandferðaskipunum. Reynsla undanfarinna ára hefir sýnt það greinilega, að þau bera sig ekki og geta ekki borið sig. Esja hefir sýnt þetta greinilega. Hún hefir borið sig illa. Var hún þó bygð með þetta hlutverk, strandferðirnar, fyrir augum, og mun smíði hennar hafa tekist ágætlega. Fyrirkomulag rekstrarins og forstaða mun og vera með besta móti. Þó hefir árlega verið rekstrarhalli, er nemur hundruðum þúsunda króna. T. d. var hann árið 1926 300 þús. kr., ef tekin er með nauðsynleg afskrift á skipinu. Þetta er ekki glæsileg útkoma. En við öðru er vart að búast hjer við land. Hafnir eru svo margar og erfiðar, sem skipin verða að koma á, en á þær hafnir koma hin erlendu skip ekki, sem samgöngum halda uppi hjer við land. Það verður því eingöngu með tilliti til þess, að fullnægja verður þörf fólksins, að telja verður rjett, að ríkissjóður beri þennan halla. En spurningin er bara, hvað rjett sje að ganga langt í því. Og jeg álít, að þar sem annað þarfara liggur nær dyrum, þá sje ekki rjett að byggja nýtt skip.

Jeg get ekki látið hjá líða að minnast lítið eitt á nál. meiri hl. Þar stendur: „Nú reka útlend gróðafjelög strandferðir hjer við land og raka saman fje á þann hátt ár eftir ár“. Þessi setning er hreinasta fjarstæða. Jeg skil alls ekki í því, hvað þetta hefir getað staðið öfugt í höfðum þeirra manna, er skrifað hafa undir þetta álit. Ef þau græða á þessum flutningum hjer, hvers vegna ættum við þá ekki að græða á þeim líka? — Nei, þeir hafa ekki grætt á strandflutningum hjer, heldur stórtapað. En að þeir halda þeim áfram, stafar af því, að þeir eiga nú skipin og hafa ekki annað við þau að gera en að halda þeim hingað, og svo eru þeir líka með það mark fyrir augum að bola okkur frá í samkepninni, og horfa þess vegna ekki í, þótt þeir verði fyrir tjóni í bili. Auk þess eru þeir styrktir til þessara ferða. Þeir hafa því engan fjárhagslegan gróða á þessu, heldur þvert á móti. Þá er það gefið í skyn í nál. meiri hl., að þegar strandferðaskipin eru orðin tvö, þá muni takast að ná í fólksflutningana hjer á milli hafna. Jeg held, að þessi spádómur sje ekki ábyggilegur. Þótt það myndi máske nást frá lakari höfnunum, þá mundi það þó naumast verða frá betri höfnum. Þetta er því bara spádómur, sem hefir við lítil rök að styðjast.

Hvernig því, sem á þetta er litið, þá verður niðurstaða mín sú, er jeg gat um áður, að fremur beri að leggja þungann á samgöngubætur á landi heldur en ráðast í kaup á skipi, sem hefir í för með sjer árlegan rekstrarhalla, sem nemur hundruðum þúsunda.