13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

15. mál, strandferðaskip

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Af því jeg trúi á umbætur þær, sem bygging nýs strandferðaskips hefir í sjer fólgnar, þá vil jeg bæta nokkrum orðum við það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það væri sín skoðun, að höfuðáherslu bæri að leggja á landvegina, og taldi, að rjett hefði verið að taka 20 milj. kr. lán til þess að herða á vegalagningum. Jeg ætla nú ekki að mótmæla því, að nauðsyn sje að leggja vegi. En það teldi jeg misráðið að taka slík stórlán til þeirra hluta og vinna fyrir það á stuttum tíma, enda hygg jeg, að það kæmi ekki að tilætluðum notum. Þess verður að gæta, að vegirnir eru víða ekki nothæfir á vetrum fyrir snjó, sem á þá hleðst. Akvegir yfir fjöll og heiðar milli hjeraða hafa því meiri „kultur“-þýðingu en fjárhagslega. Ef t. d. er tekinn vegurinn frá Borgarnesi norður í Húnavatnssýslu, þá hefir sá vegur enga þýðingu fyrir Húnvetninga til flutninga á þungavöru. Þetta hefði því aðalþýðingu sem sumarvegur til fólksflutninga, en ekki sem vöruflutningavegur. Gagnið af þeim vegum yrði því meira „sócialt“ heldur en fjárhagslegt.

Þá er og þess að gæta, að ef vinna ætti fyrir 20 milj. kr. á skömmum tíma, þá hefði það allmikla röskun á vinnukrafti landsins í för með sjer. Það mundi draga fólkið óeðlilega mikið frá framleiðslustörfunum, einkum frá landbúnaðinum; þar myndi það valda stöðvun á ræktun og gera bændum erfiðara fyrir að fá fólk til heyöflunar. Þetta myndi og valda samkepni um fólkið og hækka kaupgjaldið. Þá er enn að geta þess, að af þessum 20 milj. kr., sem hv. frsm. minni hl. vildi taka að láni til að leggja í vegi, sem margir hverjir yrðu ekki færir nema yfir sumartímann, þarf nú fyrst og fremst að svara vöxtum og afborgunum, en auk þess kemur til útgjalda árlegt viðhald veganna. Mundi það ekki verða ljettasti liðurinn og áreiðanlega ekki minni en rekstrarhalli á einu strandferðaskipi. Við höfum dæmi þess frá Flóa- og Holtabrautunum, sem liggja yfir sljettlendar lágsveitir. Þó er viðhald og endurbygging þessara brauta beinlínis að sliga tvær víðlendar sýslur. Jeg læt svo útrætt um þetta atriði málsins. En orð mín ber ekki að skilja svo, að jeg sje að deila á hv. þm. Snæf. fyrir það, að hann hefir áhuga fyrir samgöngum á landi. Það er draumur okkar allra að geta unnið að þeim svo mikið sem ástæður leyfa. Aðeins tel jeg það ekki viturlegt að taka slík stórlán til þess að gera vegi yfir fjöll og heiðar, sem yrðu undir snjó á vetrum og kæmu heldur ekki að verulegu gagni á sumrum. En jeg hefi stutt hann og mun styðja hann að þeim vegabótum, sem skynsamlegar eru og ástæður okkar leyfa. Um samgöngur á sjó er það að segja, að þær hafa miklu meiri fjárhagsþýðingu fyrir atvinnuvegi landsins, til þess að koma vörum og afurðum milli hjeraða. Þó t. d. braut verði lögð frá Reykjavík til Akureyrar, þá mundi of dýrt að láta hana annast þungavöruflutninga. Um aldamótin síðustu voru samgöngur við strendur landsins betri en nú. Þá hafði útlent fjelag þær og hafði tvö skip til þeirra, er fóru ferðir til Akureyrar austan og vestan um land og sömu leið hingað aftur á hálfsmánaðarfresti og þræddu smærri hafnir. Nú eru samgöngurnar ekki betri á sjó en það, að til vandræða horfir fyrir sumar sveitir. Tökum t. d. Snæfellsnesið, sem er að náttúrugæðum engu lakari sveit en t. d. Borgarfjarðarhjeraðið. Bóndi í Staðarsveitinni sagði mjer á síðastl. vori, að það hefði kostað sig 5 krónur að koma sementstunnu þangað vestur. Er það þó ekki hið versta, því iðulega er ekki hægt að ná þangað vörum, hvað sem við liggur. Presturinn á Staðastað sagði mjer í vetur, að þó bændur þar vildu ná fóðurmjöli t. d. frá Siglufirði, þá væri það ekki hægt vegna samgönguleysis. Fátækt þessara sveita stafar miklu fremur af þessu heldur en hinu, að landið sje kostarýrt. Hin góða afkoma Borgarfjarðarhjeraðsins er fyrst og fremst að þakka þeim sæmilegu samgöngum, er hjerað þetta á við að búa til Reykjavíkur, þar sem um besta innlenda markaðinn er að ræða.

Í morgun hitti jeg farþega af Esju. Hann sagði mjer, að þegar Esja hefði komið á Hornafjörð, sem er eini viðkomustaðurinn í tveimur sýslum, þá hefðu komið 2 bátar út þaðan með fólk og farangur, og hefði ekki náðst nema úr öðrum bátnum. Skipstjórinn hefði orðið að reka hinn í land, vegna þess að hann treysti sjer ekki til að ná upp úr honum úti á rúmsjó. Jeg bið hv. þm. Snæf. að athuga þetta dæmi. Austur-Skaftafellssýsla er gott hjerað, en algerlega skorin frá öðrum hjeruðum með fjöllum, ám og jöklum. Þar er því ekki um fjölbreytt úrræði að velja. Aðeins hafnlausa strönd. Nú fær sú sýsla eitthvað 3 Esjuferðir og 1 útlent skip á ári. Er ekki von, að framleiðsla og ræktun þrífist vel undir slíkum skilyrðum. Hornafjörður er ein af betri útvegshöfnum, engu síður en sandur. En fiskinn verður að flytja burtu til verkunar, vegna samgönguleysis. Ef um smærra skip væri að ræða, mundi það frekar geta bætt úr þessum erfiðleikum, þar sem meiri von er til þess, að það komist inn á höfnina. Um Suður-Múlasýslu er hið sama að segja. Vegir þar yrðu afardýrir og lægju undir snjó að vetrum. Hið sama má og segja um Austfirði yfirleitt. Um Vestfirði er hið sama að segja. T. d. hefir vegurinn milli Bíldudals og Ísafjarðar ekki fengist tekinn í tölu þjóðvega. Ríkið hefir ekki fengist til að viðurkenna þann veg, vegna þess hve vont er að leggja hann. Meðan ekki er úr samgöngum bætt með ströndum fram, eru stórir hlutar landsins algerlega lamaðir, þar sem ekki er hægt að leggja vegi. Um suma hluti er svo ástatt, að þá er ekki hægt að meta til peninga. T. d. er ekki langt milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals; þó er þar á milli fjallvegur, sem einatt er ófær yfir vetrartímann, svo Ólafsfirðingar ná ekki í lækni, hvað sem við liggur. Er nú verið að ráðstafa því, að þessi litla sveit fái lækni út af fyrir sig. — Það er algild regla í heiminum, að þegar samgöngur batna, þá blómgast atvinnuvegirnir.

Nú er að vísu gengið út frá því, að nokkuð dýrt skip verði bygt. En álit mitt er það, að það þurfi ekki að vera eins dýrt og Esja. Jeg held, að það ætti ekki að þurfa að kosta yfir 400 þús. kr. Það á að vera fremur lítið, svo það geti hægar farið inn á smærri hafnir. Hjer er um tvær hugmyndir að ræða. Önnur er sú, að skipið sje eins og Esja og fari líkt og hún hringferðir og taki fólk og flutning. Hin er að hafa skipið smærra. Láta það aðallega flytja vörur og nýmeti á markað, en fólk milli hafna aðallega, eða frá smærri höfnum á stærri, í veg fyrir stærri skip. Þetta hefir mest gildi í mínum augum, einkum að geta komið framleiðslunni, svo sem kjöti, smjöri, eggjum og skyri, á markaðinn, sem nú er ekki hægt. T. d. má nefna Þingeyrar, þessa ágætu laxveiðijörð, sem nú er næstum því að fara í eyði vegna samgönguleysis. Ef svona er farið að, skip bygt, sem er minna en Esja, hefir aðeins 2 farþegarúm, fyrir 20–30 manns, ekki afarsterka vjel (því það þyrfti ekki að fara mjög hart), hefði minna mannahald og eyddi minna af kolum, þá ætti það ekki að verða mjög dýrt í rekstri. Þetta skip yrði járnbraut margra hjeraða, sumstaðar frá smærri höfnum til stærri, og t. d. fyrir Breiðafjörð og Skaftafellssýslur eini sambandsliðurinn við Reykjavík. — Jeg heyrði fullyrt af mönnum í Dalasýslu, er jeg var þar á ferð 1925, að Dalamenn yrðu árlega að borga um 20 þús. kr. skatt, vegna þess að þeir gætu ekki verið í beinu sambandi við Eimskipafjelag Íslands um vöruflutninga. Þeir kunna að vera eitthvað betur staddir nú, en þó ekki vel. — Ef bygt verður lítið skip, sem annast flutning til smáhafna, þá getur Esja farið hraðferðir til allra stærri viðkomustaða, og yrði þá betur hæf til að geta náð í fólksflutninginn. Einnig væri þá opnuð leið til að koma póstflutningunum fyrir betur en nú er gert. Nýlega kom til mín maður úr Skagafjarðardölum. Var það sonur eins meiri háttar íhaldsmanns, svo skýrslu hans ætti að vera nokkuð að marka í augum íhaldsmanna. Hann lýsti ástandinu svo, að í hans sveit kæmi pósturinn iðulega tveggja mánaða gamall. Skipin kæmu með póstinn á Sauðárkrók einum til tveimur eða fáum dögum eftir að aukapóstur hefði farið þaðan. Biði því sá póstur næstu ferðar aukapóstsins. Kæmi því stundum tvöfaldur póstur, en stundum ekki neitt.

Hv. þm. Snæf. getur ef til vill spurt, hvað þetta komi strandferðunum við. En það er einmitt svo, því að um leið og við höfum eignast 2 strandferðaskip, verður að breyta ferðum landpóstanna svo, að þær verði viðunandi, a. m. k. 2–3 mánuði á sumrin, og þar sem komnir eru bílvegir, sem færir eru allan þann tíma ársins, sem auð er jörð, ætti að mega gera það næstum því kostnaðarlaust. Og jeg fullyrði, að það mundi t. d. verða mönnum í kjördæmi hv. þm. Snæf. til stórgagns. Jeg neita því alls ekki, að áhugi hv. þm. Snæf. á nýju varðskipi sje góður, en jeg leyfi mjer að fullyrða, að þetta skip mundi einnig verða ákaflega þýðingarmikið fyrir kjördæmi hans, því að jeg veit, að það skapar mikla möguleika til þess að setja nýtt fjör í atvinnu- og starfslíf manna þar sem annarsstaðar.

Jeg hefi þá sýnt fram á, að ekki mun verða eins mikill stofnkostnaður við skipið og hv. frsm. minni hl. vildi gera ráð fyrir, en jeg á eftir að færa líkur að því, að síðari liður áætlunar hv. frsm., um starfrækslu þess, þurfi ekki að vera alveg rjettur. Það er ekki rjett að gera ráð fyrir 100 þús. kr. til afskrifta á skipinu, því að Esja er gott skip og mun ekki ganga mikið úr sjer. Jeg verð því að segja, að mjer fanst kenna hjer hlutdrægni hjá hv. frsm. En það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er það, að bæði Eimskipafjelagið og Esja verða að blanda saman farþega- og vöruflutningum. Afleiðingarnar af þessu eru þær, að Esja missir ákaflega mikið af dýrum farþegaflutningi milli hafna, vegna þess að Eimskip verður að blanda þessu tvennu saman og annast bæði vöruog farþegaflutninga milli hafna og milli landa. Eimskipafjelagsskipin verða að fara inn á allar hafnir með ströndum fram, og afleiðingin verður, að útlendu skipin hrifsa hina arðsömu farþegaflutninga bæði frá þeim og Esju. Ennfremur tapar Eimskip farþegaflutningunum milli landa í hendur útlendingum, vegna þess m. a., að ferðirnar eru of fáar; en það kemur einkum af því, að skipin verða að sleikja smáhafnir með ströndum fram, til þess að skila af sjer vörum frá útlöndum. Ólagið, sem hefir verið á rekstri íslensku skipanna og verður til þess að þau verða undir í samkepninni við útlendu skipin, stafar ákaflega mikið af því, að þessu tvennu ólíku er blandað saman, farþegaflutningi og vöruflutningum. Ef því er hægt að ljetta af Eimskipafjelaginu vöruflutningum til smáhafna, þá er áreiðanlegt, að það mundi standa miklu betur að vígi út á við í samkepninni við útlendingana. Alveg það sama er að segja um Esju. Ástæðan til þess, að útlendu skipin hafa hrifsað til sín arðsömustu farþegaflutningana milli stærri hafna kringum land, er sú, að Esja hefir orðið að fara inn á hverja smáhöfn og oft orðið að bíða þar klukkutímum saman eftir smávöruflutningum, og því hafa farþegarnir heldur viljað fara með útlendu skipunum, sem aðeins koma á stærri hafnirnar. Ef þess vegna annað strandferðaskip kæmi, sem aðallega ljetti vöruflutningunum af Esju, þá mundi hún verða miklu færari til þess að standast samkepnina við útlendu skipin sem fólksflutningaskip. Jeg get að vísu ekki sannað það með tölum, en mjer finst jeg hafi fært mjög sterkar líkur fyrir því, að ekki þurfi að verða mjög mikill rekstrarhalli á þessu nýja skipi. Mjer dettur auðvitað ekki í hug, að hægt sje að komast algerlega hjá rekstrarhalla á strandferðum, en það er alveg það sama að segja um vegina; á þeim er altaf stórkostlegur halli, sem við auðvitað verðum að gera okkur að góðu. Það er og verður svo, að siglingar meðfram ströndum og vegir á landi verða ekki gróðafyrirtæki, en við verðum samt að halda þeim áfram sem best er hægt, meðan við yfirleitt trúum á það, að góðar samgöngur sjeu undirstaða blómlegs framkvæmdalífs í landinu. Og er þá nokkurt vit í því að vera að berjast gegn því, því að hvenær er það víst, að betri skilyrði muni gefast til þess að koma því fram? Og allra síst virðist mjer, að andstaða gegn þessu máli sitji á manni sem hv. þm. Snæf., sem bæði viðurkennir þörfina og það, að strandferðirnar sjeu undirstaða atvinnu- og framkvæmdalífs í landinu.