13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Halldór Steinsson):

Hæstv. dómsmrh. og mjer ber ekki ýkjamikið á milli um þörf á auknum samgöngum hjer á landi. En hæstv. dómsmrh. hjelt því fram, að alstaðar væri hægt að bæta úr þörfinni með auknum samgöngum á sjó, en þar er jeg á gagnstæðri skoðun. Hann komst svo að orði, að vegur á milli Norðurlands og Suðurlands myndi aðeins hafa „kulturella“ þýðingu. Jeg tel aftur á móti víst, að sá vegur hafi einnig stórmikla fjárhagslega þýðingu og verði ekki eingöngu notaður til skemtiferða, heldur einnig til vöruflutninga og nauðsynlegra ferðalaga.

Mörg hjeruð á landi hjer eru svo í sveit sett, að ómögulegt er að bæta úr samgönguþörf þeirra með auknum samgöngum á sjó. Svo er t. d. að miklu leyti ástatt um Snæfellsnes, sem hæstv. dómsmrh. var að tala um, að njóta myndi góðs af hinu nýja strandferðaskipi. Allur sá hluti Snæfellsness, sem sunnanfjalls liggur, er næstum því hafnlaus. (Dómsmrh. JJ: En Búðir og Skógarnes?). Já, þar mætti einstaka sinnum afgreiða skip sem þetta, en jeg hygg, að dýrt gæti orðið stundum að bíða eftir því, að skipið fengi afgreiðslu. Það eru vegir og ekkert annað en vegir, sem þar geta bætt úr samgönguþörfinni. Það má svo segja, að alveg hatti fyrir, þar sem Borgarnesveginum sleppir. Svo mikill munur er á framkvæmdum og framförum í þeim sveitum, sem njóta góðs af honum, og hinum, sem hann hefir ekki enn verið lagður um. Staðarsveit hefir dregist aftur úr. En í Miklaholtshreppi skiftir um, og í Eyjahreppi og Kolbeinsstaðahreppi verður ekki sjeð, að þeir hreppar standi langt að baki Mýrunum um framfarir. Hjer verður ekki bætt úr með sjóflutningum. (Dómsmrh. JJ: Aldrei verður sement flutt landveg vestur í Staðarsveit). Jú, það verður áreiðanlega gert, þegar akvegur er kominn þangað. Auk þess verður að aðgæta, að landflutningar frá Skógarnesi og Búðum eru erfiðir og langir og kostnaðarsamt að koma vörum þaðan.

Þá mintist hæstv. dómsmrh. á Hornafjörð. Jeg skal viðurkenna, að þörf er á að bæta úr samgöngum Hornfirðinga, en jeg álít, að það megi gera með öðrum og ódýrari hætti en að byggja nýtt strandferðaskip. Þótt Hornafjörður og einstöku firðir í Suður-Múlasýslu sjeu illa settir (og efast jeg þó um, að firðirnir í Suður-Múlasýslu hafi verri aðstöðu en ýms önnur hjeruð), þá finst mjer ekki ástæða til að fara að ráðast í að byggja stórt strandferðaskip þeirra vegna, heldur megi komast af með minni báta, og þeir sjeu líka heppilegri þar en stærra skip. Það var ekki sterk röksemd hjá hæstv. dómsmrh., að Esja fengi stundum ekki afgreiðslu á Hornafirði vegna veðurs. Slíkt gæti auðvitað eins komið fyrir, þótt skipi væri bætt við, enda þótt líkurnar fyrir því, að afgreiðsla tækist þar oftar, ykjust, ef ferðum væri fjölgað. (Dómsmrh. JJ: Þetta skip verður líka minna en Esja).

Jeg skildi ekki, hvað það kom þessu máli við, að Ólafsfirðingar eiga erfitt með að sækja lækni yfir í Svarfaðardal, eins og hæstv. dómsmrh. var að tala um og taldi rök fyrir máli sínu.

Það er rjett, að Dalasýsla á erfitt með aðflutninga, en hví má þá ekki fjölga ferðum e/s Suðurlands inn í Hvammsfjörð? Suðurland er gott skip og hentugt til þessara ferða. Það er ekki rjett hjá hæstv. dómsmrh., að ekki hafi verið veitt ívilnun um farmgjöld á Suðurlandi í ferðum þessum, því að hálf ívilnun hefir verið veitt.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að Esja misti af farþegum vegna tafa á höfnum kringum land og sagði, að nýtt skip, sem að mestu væri ætlað til vöruflutninga, myndi kippa þessu í lag. Jeg er vantrúaður á, að svo fari, þótt bygt verði skip, enn minna en Esja, í þessu skyni. Hve lengi skyldi það verða að fyllast? Það gæti fylst á 2–3 höfnum, og því er hætt við, að það yrði ekki til að draga mikið af farþegum á Esju. — Jeg sje, að hæstv. dómsmrh. er farinn úr deildinni, og mun jeg því ljúka máli mínu að þessu sinni.