31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, fjárlög 1929

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg á tvær brtt. á þskj. 642. Hin fyrri, nr. V., fer í þá átt, að stúlkunni Evu Hjálmarsdóttur frá Seyðisfirði verði veittur 1000 kr. framhaldsstyrkur til dvalar í sjúkrahúsi í Danmörku, og sje það lokastyrkur úr ríkissjóði til hennar. Stúlka þessi er 22 ára að aldri og dóttir bláfátækra foreldra á Seyðisfirði, sem eiga fjölda barna. Hún hefir þjáðst af sjúkdómi, sem læknar nefna „epileptisk Hysteri“ eða „hysterisk Epilepsi“, og var komið hingað til lækninga, en fjekk ekki bata. Var því ráðist í að láta hana sigla haustið 1926 og henni komið fyrir í hæli í Danmörku fyrir slíka sjúklinga, og hefir hún verið þar síðan. Alþingi veitti henni 1000 kr. styrk í núgildandi fjárlögum, en að svo miklu leyti sem hann hefir ekki hrokkið til meðgjafar með henni í hælinu, hefir verið leitað frjálsra samskota, því að foreldrar hennar eru svo fátæk, að þau geta ekkert lagt með henni frá sjer, og hún á engan þann að, er geti kostað hana.

Læknir hælisins skrifaði nýlega föður stúlkunnar og sagði, að hún mætti nú teljast heilbrigðari bæði á sál og líkama en þegar hún kom í hælið. Henni líður þar nú svo vel, að hana sárlangar til þess að dvelja þar lengur, bæði í von um frekari bata og líka af því, að henni líður þar svo miklu betur en í fátæktinni heima. En þess er enginn kostur, að hún geti dvalið í hælinu, ef Alþingi vill ekki hlaupa undir bagga með henni, því að fullerfitt hefir reynst að ná inn með samskotum því, sem á hefir vantað meðgjöfina og útbúnað hennar og ferðakostnað til Danmerkur.

Hjer er því ekki aðeins um nauðsynjamál fyrir stúlkuna að ræða, heldur og mannúðarmál, og treysti jeg fyllilega á mannúð hv. dm. og vænti, að þessi fyrir ríkissjóð tiltölulega litla upphæð verði samþykt og stúlkunni með því gert kleift að vera annað ár í hælinu, svo að hún þurfi ekki að hverfa þegar heim í fátæktina, þar sem óumflýjanlega hlyti að bíða hennar vaxandi vanheilsa og þjáning fyrir skort á sæmilegum húsakynnum og rjettri hjúkrun.

Hin brtt. mín, nr. IX, fer í þá átt, að veittar verði 50 þús. kr. úr ríkissjóði til akvegar yfir Fjarðarheiði á árinu 1929. Jeg er svo heppinn, að hv. 5. landsk. (JBald) hefir borið fram tillögu sama efnis; aðeins er upphæð sú, sem hann fer fram á, helmingi hærri en upphæðin í brtt. minni. Hv. 5. landsk. mælti fyrir till. sinni á þann hátt, að jeg hefi þar engu við að bæta. Að sjálfsögðu kýs jeg helst, að tillaga hv. 5. landsk. verði samþ., og mun jeg þá taka mína till. aftur, en ef svo færi, að till hans næði ekki fram að ganga, kemur mín till. til atkvæða sem varatillaga, og geri jeg fastlega ráð fyrir, að hún að minsta kosti nái fram að ganga, þar sem þetta vegamál hefir að undanförnu átt óvenjulega góðum undirtektum að mæta í þessari hv. deild hjá öllum flokkum.

Hæstv. dómsmrh. bar þetta saman við Kristneshælið. Þar er þó ólíku saman að jafna. Annað er heilsuhæli fyrir berklasjúklinga, en hitt er akvegur frá einu blómlegasta hjeraði landsins niður í kaupstað, sem hefir miklar samgöngur við útlönd. Jeg sje ekki ástæðu til þess að heimta framlag frá hjeruðunum á móti framlagi ríkissjóðs til þessa vegar. Þar sem hjer er um erfiðan fjallveg að ræða, er hann ekki sambærilegur við þá tvo vegi, sem hæstv. dómsmrh. nefndi. Hólmahálsvegur og Kjalarnesvegur liggja báðir eftir endilöngum blómlegum bygðum. Jeg vænti því, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja að minsta kosti mína tillögu.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. (JJ) sagði um styrk til kenslubóka, vil jeg geta þess, að það kemur ekki heim við brtt. hans. Hæstv. ráðh. segir, að ætlun sín sje að taka styrk frá mentaskólanum, til þess að hann komi öðrum skólum að haldi. En brtt. hans er svo orðuð, að hún á aðeins við alþýðuskóla. Ef hún verður samþykt, sje jeg ekki, að heimildin nái til útgáfu kenslubóka til annara skóla en alþýðuskóla, en það fer í bága við það, sem hæstv. ráðh. kvað tilgang sinn með brtt.