13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2767 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

15. mál, strandferðaskip

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi leiðrjetta lítið eitt af því, sem hv. 3. landsk. sagði. Hann hjelt því fram, að farþegarýmin á Esju væru dauðadómur yfir rekstrarafkomu hennar. Jeg vil minna hann á það, að eitt árið var tekið til þess ráðs að láta Esju fara hraðferðir, til að fólk gæti orðið fljótara í förum. Sumar þessara ferða báru sig allvel. Aðstaða ríkisins með Esju er eins og aðstaða bónda, sem þarf bæði reiðhest og vagnhest, en á ekki nema reiðhest og verður að beita honum fyrir vagninn og plóginn og nota til reiðar. Því hefir Esja verið misnotuð undanfarið, að vísu fremur af nauðsyn en illvilja, til að fara með vöruslatta inn á hvern vog og vík. Það geta allir sjeð, hve heppilegt er fyrir skipið að verða að fara með 150 farþega inn í Búðardal og bíða þar eftir sjávarföllum. Esja getur fyrst notið sín til fulls, þegar hið nýja skip er komið og hætt verður að reyna að samrýma hið ómögulega, eins og nú.

Jeg skal játa það fyrir hv. frsm. minni hl., að jeg er hlyntur vegabótum á Snæfellsnesi, einkum eftir að jeg, ferðaðist þar með honum síðastliðið sumar, ekki af því að jeg búist við, að menn noti akvegi til sementsflutninga þangað, því að sementið flytja þeir með strandferðaskipinu nýja til Búða og Skógarness, heldur af því að jeg veit, að hjeruðin þar vestra hefðu gott af auknum samgöngum á landi af ýmsum öðrum ástæðum.