13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2768 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

15. mál, strandferðaskip

Jónas Kristjánsson:

Jeg vildi drepa á nokkur atriði, sem mjer finst, að ekki hafi komið fram í umræðunum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri ekki tilætlunin að byggja skip þetta á kostnað samgöngubóta á landi. Mjer þótti vænt um að heyra þessa yfirlýsingu, af því að mjer fanst annað vera uppi á teningnum, þegar litið er á fjárhagsáætlun stjórnarinnar.

Það er skoðun mín, að eins og samgöngumálunum er nú háttað, sje þörfin til umbóta á landi miklu meiri en á sjó. Einkum álít jeg, að beri að leggja alla áherslu á það, að vegur á milli Norðurlands og Suðurlands, yfir Holtavörðuheiði, alla leið til Húsavíkur, verði lagður sem allra fyrst, og fyr en sá vegur er kominn, eigi ekki að hugsa um byggingu nýs strandferðaskips.

Þegar jeg lít á ferðaáætlun Esju á þessu ári, sje jeg, að henni er ætlað að fara 15 ferðir kringum land. Af þessum 15 ferðum er aðeins ein hraðferð. Í öllum hinum ferðunum verður skipið að tína upp svo að segja hverja vík og vog og tefjast meira eða minna á hverjum stað. Það liggur í augum uppi, að slíkar ferðir eru ekki hentugar til farþegaflutninga. Ferðakostnaður verður svo mikill, bæði sökum fæðiskostnaðar og tímaeyðslu, að heita má frágangssök fyrir menn að nota sjer þær.

En það eru skyndiferðirnar, sem jeg hygg, að borgi sig best. Skipið er bygt til farþegaflutnings, en sökum tilhögunar á áætluninni kemur það ekki að fullu gagni. Það var því fullkomlega rjett samlíking hjá hæstv. dómsmrh., að þessi tilhögun væri eins og reiðhesti væri beitt fyrir hlass. En ályktunin, sem hann dró af þessari samlíkingu, var röng að mínum dómi.

Jeg held, að tilhögunin á ferðum Esju hafi orðið til að koma mönnum á þá skoðun, að þörf sje á nýju strandferðaskipi. En það er áreiðanlegt, að mjög mætti draga úr þessari þörf með því að láta aðrahverja ferð skipsins verða hraðferð. Skipið var aðallega ætlað til mannflutninga í upphafi; lestarúm þess er lítið, enda hefir afleiðingin af því, hvernig ferðum þess kringum landið hefir verið háttað hingað til, orðið sú, að árlegur rekstrarhalli á því hefir numið 200–300 þús. kr. á ári.

Á sumum tímum árs er alveg sjerstök þörf á hraðferðum milli Reykjavíkur og Siglufjarðar og Austfjarða, þegar fólk, sem stundar síldarvinnu á sumrum, fer á milli. Útlendu skipin hafa sópað þessu fólki báðar leiðir undanfarið. Þetta hefði Esja getað gert, en það hefir ekki verið reynt að láta hana gera það. Þó er hægt að vita upp á dag, hvenær þessu fólki er þörf á að komast til atvinnu sinnar eða heim til sín aftur. Hefði áætlun Esju verið sniðin með tilliti til þessa, hefði borið langtum minna á þeirri þörf að byggja nýtt strandferðaskip.

Jeg skal viðurkenna, að þarflegt gæti verið að fá nýtt skip, en jeg tel, að akvegur milli Norðurlands og Suðurlands eigi að sitja fyrir. Á þá vegalagningu verður fyrst og fremst að leggja alla áherslu. Jeg held, að mönnum hætti nú á góðu árunum við að gleyma „landsins forna fjanda“, hafísnum, sem stundum hefir legið mánuðum saman fyrir norðurströnd landsins og hindrað allar samgöngur á sjó. Jeg minnist þess, að hafísinn lá eitt sumar fyrir norðurströndinni fram í ágúst. Öllum siglingaleiðum var lokað og enginn mjölhnefi til í verslunum. Slíkt hið sama gæti komið fyrir ennþá. Það er jafnvel ekki örugt, að unt væri að koma í veg fyrir mannfelli í slíkum árum, eins og samgöngum er nú háttað. Akvegur norður ljettir allri þessari hættu af. Snjóa leysir það snemma á Holtavörðuheiði, að hægt yrði að koma vörum norður á bílum áður en tæki verulega að sverfa að mönnum. Hjer gætu strandferðaskip ekki bætt úr vandræðum, heldur akvegir og bílar.

Jeg get ekki greitt atkv. með byggingu nýs strandferðaskips eins og sakir standa, enda þótt jeg kynni að gera það, þegar vegurinn verður kominn norður, ef þörfin þá verður aðkallandi. Þó er þess að gæta, að við byggingu akvegar norður myndi draga mjög úr þörf á nýju strandferðaskipi norðanlands. Frá maí og fram í september myndu menn yfirleitt fara með bifreiðum á milli landsfjórðunganna, en alls ekki með strandferðaskipinu. Þær ferðir eru fljótari og ódýrari. Þegar svo væri komið, mætti segja, að þörfin á auknum strandferðum takmarkaðist að miklu leyti við Austfirði eina.

En þegar hafís liggur fyrir landi fram á sumar, þá bæta vegirnir úr samgönguþörfinni. Jeg skil ekki, að ekki sje best að bæta úr þörfinni á strandferðaskipi á þann hátt, að laga fyrirkomulagið á ferðum Esju, með því að gera aðrahverja ferð hennar að hraðferð, og leggja sem mesta stund á að koma bílvegi norður á Akureyri, eða a. m. k. norður í Húnavatnssýslu. Það er vitanlegt, að ef ekki á að byggja strandferðaskip á kostnað samgangnanna á landi, verður að auka tekjur ríkissjóðs. Það er og auðsætt, að rekstrarhalli tveggja skipa verður meiri en rekstrarhalli eins skips. Það er alt útlit fyrir, að hallinn á Esju verði meiri í ár en undanfarið, af því að ferðum skipsins hefir verið hagað lakar en áður. Esja kemur nær altaf við á hverri smáhöfn, svo að fólksflutningum er afskaplega illa fyrir komið, einkum norðanlands.