16.03.1928
Efri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2788 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Jeg get verið þakklátur hæstv. dómsmrh. fyrir undirtektir hans við fyrri brtt. mína á þskj. 486, og þá einnig skýringar hans á því, hvernig kenslugjöldunum skuli verða varið. Þetta var nokkuð óljóst eftir frv., en skilst nú, að svo sje til ætlast, að skólanefndin ráði yfir þessum gjöldum og að henni sje leyfilegt að verja þeim upp í kostnað við skólahaldið, í viðbót við það, sem ríkið og bærinn leggur til hans. Til þessa sama hafði jeg einnig ætlast. Þá er jeg einnig þakklátur hæstv. dómsmrh. fyrir það, að hann taldi, að ríkið ætti að leggja 2/5 til byggingar skólans á sínum tíma, eða sama hlutfall og jeg taldi hæfilegt. Það, sem þá er eftir og okkur greinir á um, er það, hvort rjett sje nú þegar að veita ríkisstjórninni heimild til þess að leggja fram fje í þetta skólahús, eða að því skuli slá á frest að veita slíka heimild. –Hæstv. ráðh. heldur því fram, að þörfin á slíku húsi mundi verða ljósari, er fram liðu stundir. Jeg get fallist á, að það sje rjett, að það mætti gera almenningi þetta mál ljósara. En mjer hefir verið og er þetta mál algerlega ljóst, og jeg býst við, að það væri heldur engum erfiðleikum bundið að gera hv. þdm. ljósa hina miklu þörf, sem er á byggingu þessa skóla. Þá tel jeg, að hæstv. ráðh. hafi gert of mikið úr þeim fjárframlögum, sem til þessa þyrfti. Hann sagði, að samskólinn myndi kosta mörg hundruð þús. kr. En mín till. er eingöngu miðuð við hlutfallslegt tillag ríkissjóðs til gagnfræðaskóla. Jeg skal skýra það nánar, þó það sje því miður ekki nógu vel undirbúið frá minni hálfu nú á þessari stundu. Jeg hefi ekki gert ráð fyrir því, að bygt verði sjerstakt hús fyrir verklegu kensluna. Jeg geri ráð fyrir því, að hægt verði að fá rúm fyrir hana í þeim húsakynnum, sem nú eru til, t. d. vinnustofum handiðnarmanna, til að byrja með. Það myndi þurfa að byggja stofur fyrir hina venjulegu bóklegu kenslu og annað, sem kenslustofur eru venjulega notaðar til. Þá þyrfti og, ef nokkur kostur væri, að byggja stofu fyrir venjulegar líkamsíþróttir, af því að mikill hörgull er á þeim, og þær fáu, sem eru til afnota, liggja við niðurfalli af ofnotkun. Jeg tel svo sjálfsagt, að bygt verði svo, að við megi auka síðar og lóðin valin með tilliti til þess. Til að byrja með hygg jeg, að nægja mundu 6 kenslustofur, auk leikfimistofu og máske samkomusals. Sú bygging er ekki afarstór og mundi sennilega ekki kosta meira en einn hjeraðsskóli. Ef það þykir fært að koma upp unglingaskólum úti um land með 20 þús. kr. tillagi úr ríkissjóði á ári, þannig að hver skóli fái sem svarar tveggja ára tillagi, þá býst jeg við, að þessum skóla mætti koma upp fyrir það fje. Jeg býst við, að ríkistillagið til hans yrði ekki mikið yfir 40 þús. kr. En þetta er þó, eins og jeg tók fram áður, ágiskun mín, því engin rannsókn hefir farið fram á þessu. Þar sem nú hæstv. dómsmrh. viðurkennir, að þetta sje rjett stefna, þá finst mjer heldur ekki rjett af honum að vera því mótfallinn, að hæstv. stjórn fái heimild um framkvæmd málsins í sínar hendur. Því fyrir málið sjálft er það mikilsvert og undirbúning þess að fá þannig með lagasetningu fastan grundvöll um hlutföll á framlagi og rekstri skólastofnunarinnar. Og þegar sá grundvöllur er fenginn í lögum, þá veit jeg, að það mundi ekki tefja fyrir skólabyggingunni, þétt ríkissjóður hefði ekki handbært framlag sitt, þegar bygt væri. Fjárhag Reykjavíkurbæjar er það rúmt fyrir komið, að einhver tök yrðu á því að koma byggingunni upp, þegar um ákveðið tillag ríkissjóðs væri að ræða, þótt það yrði ekki borgað út fyr en síðar. Það er að vísu satt, að ekki hefir verið hafinn neinn fjárhagslegur undirbúningur hjer í Reykjavík, en jeg býst við, að farin yrði venjulega leiðin sú, að taka þetta með útsvörunum. Framlög bæjarbúa gengju þá í gegnum bæjarsjóðinn.

Það er þá ekki meira um þetta að segja, og sýnir það eiginlega, hvað ágreiningsatriðin eru afarlítilfjörleg. Ágreiningurinn er aðeins um það, hvort lögleiða skuli strax heimild þá, sem hæstv. dómsmrh. gerir ráð fyrir, að lögleiða þurfi hvort sem er. En þar sem við hæstv. ráðh. erum sammála um skiftingu kostnaðarins og skólagjöldin, hefi jeg ekki fleira að segja.