16.03.1928
Efri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2792 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Það er mikill misskilningur, að lítill áhugi sje fyrir þessu máli hjer í Reykjavík. Að vísu hafa umræður um sjerstakan gagnfræðaskóla legið niðri nú í 1½ ár. En það stafar ekki af áhugaleysi, heldur af því, að um hann hefir verið rætt í sambandi við samskóla. En ekkert mál hefir fengið eins almennar undirtektir hjer eins og samskólahugmyndin. En það sprettur af því, að þar þóttust menn finna ráðið fram úr framhaldsmentun unglinganna og grundvöllinn undir vöxt þeirrar stofnunar. En jeg er viss um það, að enginn hlutur væri hægari en sá, að hóa saman almennum fundi innan fárra daga, er sannfærði hæstv. dómsmrh. um áhuga bæjarbúa í þessu efni. Að þessi áhugi hefir ekki komið fram í verki, stafar af því, að enginn grundvöllur hefir verið lagður af löggjafarvaldinu, sem byggja mætti á, eins og t. d. hafði verið gert með Laugaskólann. En þessi grundvöllur fæst nú með samþ. þessa frv. og brtt. minni. Og verði það samþ., þá er jeg viss um, að hæstv. ráðh. verður hissa á því, hve fljótt þetta mál verður borið fram af áhuga bæjarmanna.