31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Páll Hermannsson):

Jeg á sjálfur eina brtt. á þskj. 642, XIV. till. Þar er farið fram á 1000 kr. námsstyrk handa ísl. stúdent, sem nú stundar nám við Kaupmannahafnarháskóla. Þessi piltur heitir Skúli Þórðarson. Hann var fyrst við nám á Eiðum veturna 1919–1920 og 1920–1921, fyrstu veturna, sem alþýðuskólinn starfaði þar. Er mjer persónulega kunnugt um, að hann er góður námsmaður; sjerstaklega þótti hann ágætur sögumaður. Næst dvaldi hann 3 missiri við nám í Sigtúnum, og þá í kennaraháskóla í Kaupmannahöfn. Vegna veru sinnar erlendis tók hann stúdentspróf í Kaupmannahöfn, og er því útilokaður frá þeim styrk hjeðan, sem ætlaður er íslenskum stúdentum. Hann les nú sögu við Kaupmannahafnarháskóla og sem sjernámsgrein leggur hann stund á sögu Íslands, sjerstaklega tímabilið frá 1400–1602. Hann hugsar til að taka kennarapróf og væntir þess að geta lokið því 1930. Hann hefir að vísu notið nokkurs styrks úr sáttmálasjóði, en sá styrkur er of lítill, því að Skúli er bláfátækur. Meðmæli hefir hann ágæt frá aðalkennara sínum, próf. Arup, sem hælir honum fyrir góðar gáfur, viljafestu, ástundun og sparsemi. Sendiherra okkar, herra Sveinn Björnsson, hefir líka gefið Skúla meðmæli. Telur hann fluggáfaðan, hugrakkan, stefnufastan og nægjusaman með kjör sín. — Jeg býst við, að þessi maður geti orðið ágætur starfsmaður við alþýðuskólana, og veit jeg, að hann vill það helst. Annars vil jeg geta þess, að mjer virðist líkt farið um þessa mörgu námsstyrki. Jeg get tekið undir það með hæstv. fjmrh., að vegna þess hve þeir eru margir, vildi maður gjarnan vera laus við þá alla, þótt maður hafi í aðra röndina tilhneigingu til að samþykkja þá. Jeg býst við, að styrkur til þessa manns eigi ekki síður rjett á sjer en aðrir slíkir styrkir, sem hjer er farið fram á nú. Jeg mun þó ekki fara fleiri orðum um það, en sætta mig við það, sem hv. deild kann að gera í því efni.

Þá vil jeg fyrir hönd fjvn. þakka fyrir vinsamlegar umræður, er fallið hafa um störf hennar. Enda þótt fundið hafi verið að einstökum atriðum, þá hafa þau ummæli þó einnig verið vinsamleg. Jeg mun þá víkja nokkrum orðum að þeim fáu aðfinslum, sem fram hafa komið. Hæstv. forseti (GÓ) drap á það, að það, sem jeg sagði um starfstíma fjvn., hefði ekki verið nákvæmt. Hann taldi, að nefndin hefði ekki haft hálfan mánuð til starfsins. Jeg taldi tímann frá því fjárlagafrv. kom til 1. umr. hjer í deild. En auk þess hafði nefndin rannsakað skjölin nokkuð áður. Annars skiftir þetta engu máli og má því liggja milli hluta.

Hæstv. fjmrh. leit svo á, að liðurinn til rekstrar Kristneshælisins væri of lágt áætlaður. Þetta er máske rjett. Nefndin tók þetta til athugunar, en sá ekki, að hægt væri að gera nákvæma áætlun, en getur fallist á, að þetta muni máske vera of lágt áætlað, þar sem rekstur þessa hælis er í byrjun og því máske litlar tekjuvonir. Á Vífilsstöðum er gert ráð fyrir tæpum 2000 kr. rekstrarhalla. Má þó búast við, að þessi áætlaða upphæð til Kristneshælisins verði of lág, þótt nefndin sæi sjer ekki fært að benda á aðra rjettari upphæð.

Þá taldi sami hæstv. ráðh. það óþarft af nefndinni að lækka styrkinn til Páls Ísólfssonar. Þetta getur nú verið álitamál. Nefndin leit svo á, að hjer væri um tilraun að ræða, sem rjett væri að sjá, hvernig gæfist, áður en hærri styrkur væri til þess veittur. Einnig taldi sami hæstv. ráðh. ekki rjettlátt að fella niður liðinn til Jóns Ófeigssonar. Þetta verður nú frekar að byggjast á tilfinningu manna en um það sje gott að dæma ákveðið. Annars hefir það verið upplýst, að þessi maður hefir fengið allverulega borgun fyrir starf sitt við orðabókina, eða nálægt 4000 kr. á ári í 5 ár. Þegar á það er litið, að hann hefir unnið þetta sem aukastarf, þá virðist starf hans ekki með öllu ógoldið. Annars er það öllum ljóst, að hjer er um þýðingarmikið og gott verk að ræða.

Jeg læt fallast í faðma þau ummæli, er orðið hafa hjer í hv. deild um þá till. fjvn., að hækka styrkinn til dr. Helga Pjeturss. Jeg geri ráð fyrir því, að nefndin standi kinnroðalaust við sína till.

Þá fann hv. 1. þm. G.-K. (BK) að því við fjvn., að hún leggur til, að liðurinn til Kjalarnesvegar verði lækkaður. Hv. þm. benti rjettilega á það, að vegamálastjóri hefði lagt til, að meira væri veitt til hans. Jafnframt benti hann á það, að þetta væri eini þjóðvegurinn, sem sýsla hefði lagt fje í, þar sem Kjósarsýsla legði fram fje á móti ríkissjóði í hann. Þetta er ekki alveg rjett. T. d. leggur Suður-Múlasýsla fram fje á móti ríkissjóði til þjóðvegarins á Hólmahálsi, eða ¼ kostnaðar. (BK: Það er þá nýr vegur). Já, að vísu. En fjvn. vissi um þetta tillag frá Gullbringu- og Kjósarsýslu og hefir gert till. sínar þrátt fyrir það. Annars vil jeg taka það fram, að jeg hefi heyrt, að bílfært sje nú þegar upp í Kjós. (BK: Nei, ekki með flutningabíl). Jeg hygg nú samt, að það sje að miklu leyti rjett, sem jeg hefi heyrt um þetta.

Þá talaði sami hv. þm. um till. fjvn. um að lækka liðinn til Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Benti hann á, að þessi maður hefði yfirgefið prestskap til að taka við þessu starfi. Þetta var nú einmitt það, sem fyrir fjvn. vakti, er hún ákvað liðinn svo háan sem hún gerði. Hún vildi ekki leggja neinn dóm á starf þessa manns og taldi rjett að láta hann hafa óbundnar hendur um, að hverju hann starfaði. Getur hann þá haft um það óbundnar hendur, hvort hann starfar eitthvað að orðabókinni áfram eða legði eingöngu stund á þau verk, er sjerstök borgun fengist fyrir og bættu honum upp lækkunina. Það vakti fyrir fjvn. að ákveða þetta svo, að ekki gæti verið um brigðmælgi að ræða í garð þessa manns.

Viðvíkjandi öðrum brtt. fjvn. skal jeg geta þess, að það hefir á síðustu stundu orðið að samkomulagi innan fjvn. að taka aftur að sinni fjórar brtt. á þskj. 615. Það eru 16. brtt. (Staðarfellsskólinn), 17. (kvenfjelagið Ósk), 37. (Samband íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga) og 38. (Guðmundur Jónsson frá Mosdal). Þessar fjórar tillögur eru teknar aftur til 3. umr.

Þá skal jeg fyrir hönd fjvn. fara nokkrum orðum um till. einstakra hv. þm. á þskj. 642. Nefndin hefir haft nauman tíma til að taka afstöðu til þeirra, sjerstaklega eftir að flutningsmenn þeirra höfðu haft tækifæri til að tala fyrir þeim. Af þessu stafar, að atkvæði um margar þessar till. eru óbundin frá nefndarinnar hálfu.

Þá skal jeg minnast á I. lið, niðurfelling skólagjalda. Meiri hl. er á móti þeirri breytingu. Lítur hann svo á, að þeir kaupstaðabúar, sem sæmilega eru efnum búnir, verði ekki fyrir ranglæti. samanborið við menn úr fjarlægum hjeruðum, þó að þeir greiði eitthvert kenslugjald. Hinsvegar álítur nefndin rjett að nota þá heimild, sem nú er veitt til þess að gefa fátækum og efnilegum nemendum eftir þetta gjald.

Þá er II. brtt., í 2 liðum, frá hæstv. dómsmrh. Fyrri liðurinn er athugasemd um, að kostnað við utanríkismál skuli greiða í dönskum krónum. Meiri hl. nefndarinnar telur þetta rjettmætt. Sömuleiðis er nefndin sammála um 2. lið, að hækka skuli skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta úr 95 þús. kr. upp í 100 þús. kr.

III. brtt. er frá hv. þm. Snæf. (HSteins): Til kvenfjelagsins á Hellissandi, til hjúkrunarstarfsemi, 400 kr. Nefndinni er það kunnugt, að víða á landinu eru kvenfjelög og hjúkrunarfjelög, sem starfa í sama augnamiði og þetta, og telur varasamt að ganga inn á þá braut að styrkja þau öll. Þó hefir hún óbundnar hendur um atkvgr.

Sama er að segja um IV. till., styrkinn til Axels Guðmundssonar frá Grímshúsum. Um hana hefir nefndin óbundnar hendur. Yfirleitt má segja, að nefndin hefir ekki nema að litlu leyti tekið afstöðu til námsstyrkja.

Um styrkinn til Evu Hjálmarsdóttur (V. brtt., frá hv. þm. Seyðf.) hefir nefndin óbundnar hendur.

VI. brtt., frá hv. þm. Snæf., er nýr liður: Til Stykkishólmsvegar, 20 þús. kr., og til vara 15 þús. kr. Um aðaltillöguna hefir nefndin óbundin atkv. Hafði hún jafnvel hugsað sjer að fara þess á leit við hv. flm., að hann tæki hana aftur, en ekki varð þó af því. Hinsvegar ætla jeg, að nefndin muni vinveitt varatillögunni.

Þá er VII. brtt., frá hv. 5. landsk. (JBald), sem fer fram á að ákveða í fjárlögum 100 þús. kr. til akvegar yfir Fjarðarheiði. Nefndin sjer ekki fært að fylgja þessar; brtt., og liggja til þess ýmsar ástæður. Fyrst og fremst er upphæðin svo há, að nefndin getur af þeirri ástæðu einni ekki mælt með henni. Fleira þarf jeg ekki að segja fyrir hönd nefndarinnar um þessa till. En frá eigin brjósti hefði jeg getað látið nokkur orð fylgja henni. Vil jeg þá fyrst geta þess, að jeg ætla, að þetta sje fyrst og fremst áhugamál Seyðfirðinga og að þeir muni eiga allmikinn rjett til þess, að þeim verði hjálpað til að leggja veg þennan á sínum tíma. Fyrir kaupstaðinn mun þessi samgöngubót vera mikið fjárhagslegt og menningarlegt atriði. Líka býst jeg við, að þetta sje áhugamál ýmsra manna í Múlasýslum. En sem kunnugur maður get jeg þó sagt það, að áhuginn muni ekki vera almennur utan Seyðisfjarðar og að flestir muni óska eftir öðrum umbótum á undan þessari. — Jeg vil geta þess, að það, sem hjer hefir verið sagt um þessa brtt., getur einnig gilt um brtt. frá hv. þm. Seyðf., sem fer í sömu átt, en tiltekur aðeins lægri upphæð.

VIII. brtt. er frá hv. þm. A.-Húnv (GÓ), um 12 þús. kr. til þess að leggja veg um Langadal. Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á, að rjett sje að samþykkja þessa till.

X. brtt., frá hv. 5. landsk., er um 800 kr. tillag til vitavarðarins við Reykjanesvita, til þess að fullgera akveg að vitanum. Nefndin veit, að þessi vegur er hvorki þjóðvegur nje sýsluvegur, en álítur hinsvegar varasamt fyrir ríkissjóð að fara að leggja fram fje til hreppavega. Þá þykir henni óeðlilegt að fá einstökum manni í hendur fje ríkissjóðs til framkvæmda, eins og hjer er farið fram á.

Af þessum ástæðum legst meiri hl. nefndarinnar í móti fyrri lið till. Varatill. er um það, að taka megi þessar 800 kr. af fje því, sem verja á til vita. Um hana vil jeg ekkert segja, en nefndin hefir óbundnar hendur um hana.

XI. brtt. er frá hæstv. dómsmrh., í 3 liðum. 1. liðurinn er: Framlag fyrir eitt herbergi í alþjóðastúdentagarði í París, fyrsta greiðsla af fjórum, 2500 kr. Nefndin hefir óbundnar hendur um þennan lið. Sama er að segja um hina 2 liðina, námsstyrkina til Björns Gunnlaugssonar og Axels Guðmundssonar.

Um XII. brtt., frá hv. þm. A.-Húnv., til Árna Björnssonar, til háskólanáms, lokastyrkur, 1200 kr., hefir nefndin einnig óbundin atkv.

XIII. brtt. er frá hv. 6. landsk. (JKr), í tveim liðum: a. Til Jóns J. Blöndals frá Stafholtsey, til hagfræðináms, 1000 kr. b. Til Agnars Norðfjörðs, til hagfræðináms, 1000 kr. Um þessa till. hefir nefndin óbundnar hendur. Sama er að segja um XIV. brtt., sem jeg hefi sjálfur flutt: Til Skúla Þórðarsonar, til háskólanáms, 1000 kr., og XV. brtt., frá hv. 2. þm. S.-M. (IP): Til Þórarins Jónssonar tónlistarnema í Berlín, 1000 kr.

Um XVI. brtt., frá hæstv. dómsmrh., hefir nefndin sömuleiðis óbundnar hendur. Þessi till. er í 2 liðum. Fyrst er athugasemd um það, að námsstyrkir skuli greiddir í íslenskum peningum; því næst er tillaga um, að liðurinn B.III.9 í 14. gr. (kenslubækur handa mentaskólanum) skuli falla niður.

Í samræmi við það, sem jeg hefi áður sagt um niðurfellingu skólagjalda, er meiri hl. nefndarinnar á móti 1. lið XVII. brtt. (frá hv. 5. landsk.). Um 2. lið, 1200 kr. utanfararstyrk til Hallgríms Jónssonar kennara, er það að segja, að nefndin ætlast til, að þessi kennari geti komið til greina, þegar úthlutað verður utanfararstyrk kennara, þeim sem ráð er fyrir gert í fjárlögunum. Sömu athugasemd vil jeg gera við XVIII. brtt., frá hv. þm. Ak. (EF): Til Steinþórs Guðmundssonar skólastjóra á Akureyri, til þess að kynna sjer reynslu annara þjóða um notkun skuggamynda og kvikmynda í þarfir fræðslu og menningar. Nefndin sjer því ekki ástæðu til að mæla með þessum styrkjum.

XVIII. brtt. er í 2 liðum. Síðari liðurinn er brtt. við 14. gr. frv. B.XIV. 2., að í staðinn fyrir „Til unglingaskóla utan Reykjavíkur, Akureyrar og Hafnarfjarðar, 47 þús. kr.“ komi: Til unglingaskóla utan Reykjavíkur, 50 þús. kr. — Með þessari till. er Akureyri og Hafnarfirði gert jafnhátt undir höfði og öðrum stöðum utan Reykjavíkur. Nú vill svo til, að í báðum þessum kaupstöðum eru gagnfræðaskólar, og því hefir verið litið svo á, að rjett væri að fella niður unglingaskólastyrk til þeirra. Vill meiri hl. nefndarinnar líta svo á, að varasamt sje að fella þessa venju niður.

XIX. brtt., frá hæstv. dómsmrh., er um 10000 kr. fjárveitingu til að reisa unglingaskóla í kaupstöðum, 2/5 kostnaðar, enda sje áætlun og teikning samþykt af stjórnarráðinu og trygging fyrir nægu fjárframlagi af hálfu kaupstaðarins, reglugerð skólans staðfest af fræðslumálastjórninni og skólinn eign kaupstaðarins. Hæstv. ráðh. hefir sjálfur gert grein fyrir þessari brtt., og meiri hl. nefndarinnar álítur rjett, að hv. deild samþykki hana.

XX. brtt., frá hv. 5. landsk., er um niðurfelling skólagjalda við Flensborgarskólann. Meiri hl. nefndarinnar verður að mæla á móti henni.

Um XXI. brtt., frá hæstv. dómsmrh., til þess að gefa út kenslubækur handa skólum, 2500 kr., hefir nefndin óbundnar hendur.

XXII. brtt., frá hv. 5. landsk., er í 3 liðum, 1. til Andrjesar J. Straumlands, til að stunda nám við alþýðuskóla í Englandi, 1200 kr. Meiri hl. leggur til, að liðurinn verði feldur. Lítur hann svo á, að svo mikill kostur sje alþýðuskólamentunar hjer í landi, að ekki sje ástæða til að styrkja menn til. utanfarar til að afla sjer hennar. — 2. liðurinn er um Landsbókasafnið og að nokkru leyti orðabreyting. Telur nefndin þá breytingu ekki til neinna bóta og mælir á móti henni. — Í sambandi við 3. liðinn hefir deildinni borist brjef frá forseta Bókmentafjelagsins. Auk þess gerði hv. flm. í ræðu sinni í dag grein fyrir riti því, sem um er að ræða, og þarf jeg ekki að endurtaka orð hans. Álítur meiri hl. nefndarinnar vert að taka tillit til tillagna Bókmentafjelagsins í þessu efni, en atkvæði eru þó óbundin um þennan lið.

XXIII brtt., um 3000 kr. til útgáfu Flateyjarbókar, er tekin aftur.

Um XXIV. og XXV. brtt. hefir nefndin óbundið atkvæði.

XXIV. brtt., frá hv. 5. landsk., er í 3 liðum. Um 1. liðinn, 200 kr. til Jóns Jónssonar frá Hvoli, hefir nefndin óbundnar hendur. 2. lið, 2800 kr. til Guðbrands Jónssonar, til að semja íslenska miðaldamenningarsögu (til vara 2000 kr.), vill nefndin fella, en láta sitja við þær 1200 kr., sem í fjárl. eru ætlaðar í þessu skyni. Um 3. liðinn: Til Ásgeirs Ó. Einarssonar, til dýralækninganáms, 1200 (til vara 1000) kr., hefir nefndin óbundnar hendur, en sumir nefndarmenn a. m. k. eru honum velviljaðir.

XXVII. brtt. er frá hv. 2. þm. S.-M.: Til sjóvarnargarðs á Neseyri í Norðfirði, 1% kostnaðar, alt að 2500 kr. Meiri hl. nefndarinnar leggur til, að þessi till. verði samþykt.

Þá kemur XXVIII. brtt. Hún er frá hv. þm. Ak. (EF): Til hafnarmannvirkja í Oddeyrarbót á Akureyri, 75 þús. kr. Meiri hl. nefndarinnar leggur til, að þessi till. verði feld. Vill hann rökstyðja mál sitt með því fyrst og fremst, að höfnin á Akureyri hafi gefið bæjarfjelaginu mikinn arð, bæði beinan og óbeinan, enda mun fjárhagur hafnarsjóðsins vera í góðu lagi. Auk þess eru dýrar lóðir við höfnina, sem myndast hafa við þann uppmokstur, sem gerður hefir verið. Meiri hlutanum virðist þessi höfn, sem er einhver hin besta á landinu, ekki sambærileg við þá mörgu staði, þar sem lending má teljast ófær af völdum náttúrunnar, og þar sem hafnarbætur hafa aðallega verið gerðar til þess að gera sjósókn mögulega á þeim stöðum eða nágrenni. Meiri hlutinn vill vona, að þótt bærinn leggi þessa háu upphæð að þessu sinni til hafnarbótanna, þá reynist þær svo vel, að þær með tímanum borgi sig fyrir bæinn og hann geti staðið straum af þeim sjálfur.

Þá er XXIX. brtt., frá hv. þm. Snæf., til hafnarbóta í Ólafsvík, 15 þús. kr. Meiri hl. nefndarinnar verður að mæla á móti þessari styrkbeiðni, og eru ástæðurnar til þess einkum þær, að ríkið er þegar búið að leggja fram svo mikið fje, um 44 þús. kr., til hafnarbóta á þessum stað, án þess að hlutaðeigandi hreppsfjelag hafi lagt nema lítið, aðeins 25 þús., á móti. Að öðru leyti mintist hæstv. fjmrh. á þetta atriði, og vill nefndin undirstrika ummæli hans þar um.

Þá er XXX. brtt., við 18. gr., 300 kr. styrkur til Rannveigar Tómasdóttur. Nefndin hefir ekki tekið neina afstöðu til þessarar brtt. og hefir því óbundnar hendur, er til atkv. kemur.

Um XXXI. brtt., 300 kr. til Hildar Jónsdóttur, hefir nefndin sömuleiðis óbundið atkvæði.

XXXII. brtt. er tekin aftur til 3. umr.

Þá er XXXIII. brtt., frá hæstv. atvmrh. og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), um lán úr viðlagasjóði til þess að stofna osta- og smjörbú. Meiri hl. nefndarinnar vill mæla með þessari brtt. Sömuleiðis mælir meiri hluti með XXXIV. brtt., frá hæstv. dómsmrh., um 5000 kr. lán til Bjarna Runólfssonar í Hólmi til þess að koma upp verkstæði vegna raflýsingar sveitabæja.

Þá er XXXV. brtt., frá hæstv. atvmrh. og hv. 1. þm. Eyf., við 23. gr., um að veita styrk í eitt skifti fyrir öll til þess að koma á stofn osta- og smjörbúum, sem nemi alt að ¼ stofnkostnaðar. Meiri hl. nefndarinnar leggur til, að þessi till. verði samþ.

Nefndin hefir óbundnar hendur um XXXVI. brtt., frá hv. þm. Snæf., um nýjan lið í 23. gr., að ábyrgjast alt að 15 þús. kr. lán til hafnarbóta í Ólafsvík, gegn þeim tryggingum, sem stjórnin metur gildar.

Þá er loks XXXVII. og síðasta brtt. á þskj. 642, frá hv. þm. Ak., um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast alt að 120 þús. kr. lán til barnaskólabyggingar á Akureyri, gegn þeim tryggingum, sem stjórnin metur gildar. Meiri hl. nefndarinnar verður að álíta rjett fyrir þessa hv. deild að fella till. Stafar það álit nefndarinnar ekki af því, að nefndin líti svo á, að hætta muni fylgja þessari ábyrgð, heldur virðist nefndinni, að fjárhagsútlitið sje þannig, að ábyrgð af þessari tegund gæti orðið ríkissjóði talsvert ónotalegur baggi, einkum með tilliti til þess, ef svipaðar beiðnir kæmu síðar frá öðrum stærri kaupstöðum og kauptúnum í landinu.

Hefi jeg þá drepið lauslega á allar helstu brtt. frá þm.