16.04.1928
Efri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 782 við frv. um bráðabirgða ungmennafræðslu í Reykjavík. Ástæður fyrir þessari brtt. minni eru tvær, enda er brtt. í tveim liðum. Jeg skal fyrst nefna þann lið, sem fer fram á, að breytt sje fyrirsögn frv. Jeg legg til, að í staðinn fyrir „frv. til laga um bráðabirgða-ungmennafræðslu í Reykjavík“ komi „frv. til laga um ungmennaskóla í Reykjavík“. Jeg hafði að vísu ætlast til, að frv. hjeti frv. til laga um unglingaskóla, en þetta hefir orðið svona í prentuninni, og mun jeg sætta mig við það. Aðalástæðan til þess, að jeg tel þessa breytingu nauðsynlega, er sú, að mjer finst fyrirsögn frv. benda á alt of mikla lausung í svo mikilsverðu máli, sem hjer er um að ræða. Fólk verður að vita nákvæmlega, hvað við er átt. Það er nauðsynlegt fyrir þá, sem ætla að stunda þetta nám, að vita, að hverju þeir ganga. Hugtakið unglingaskóli eða ungmennaskóli er svo útbreitt meðal þjóðarinnar, að engum blandast hugur um, hvað í boði er. Enda eru í 3. gr. frv. taldar upp námsgreinar skólans, og eru þær að langmestu leyti þær sömu og í öðrum unglingaskólum úti um landið.

Hinn liður brtt. minnar er þess efnis, að í stað orðanna „í tilteknum, hagnýtum námsgreinum“ í 2. gr. frv. komi: „og geti nemendur að því námi loknu tekið gagnfræðapróf“. Í 2. gr. frv. stendur, að tvær ársdeildir skuli vera í skólanum, en með leyfi stjórnarráðsins megi bæta við framhaldsnámi hinn þriðja vetur í tilteknum hagnýtum námsgreinum. Þó að jeg vilji nú fella burtu síðustu orðin, rýrir það ekki gildi frv., nema síður sje, því að með brtt. minni meina jeg það, sem í greininni stendur, og að nemendur geti að náminu loknu tekið gagnfræðapróf. Jeg þykist með þessum lið tillögu minnar gera það ljóst, að mjótt sje á mununum milli þessa skóla og gagnfræðaskóla, ef nemendur hafa stundað nám í þrjá vetur. Námsgreinar eru að mestu leyti þær sömu og námstíminn jafnlangur.

Það er langt frá því, að jeg vilji setja fót fyrir þetta frv. Þvert á móti vil jeg með tillögu minni marka betur stefnu skólans en gert er í frv. og gera hann aðgengilegri. Þó að engin sjerstök rjettindi fylgi gagnfræðaprófi, þykir altaf mennilegra og að mörgu leyti hentugra, að námið stefni að einhverju ákveðnu marki, til dæmis prófi. Allir vita, að margir unglingar hafa tekið gagnfræðapróf eftir skemri námstíma en 3 vetur, svo að það er engin goðgá, sem brtt. mín fer fram á.

Jeg hefði mjög gjarnan viljað athuga ýmislegt annað í sambandi við þetta mál en það, sem jeg hefi nú nefnt. En lasleiki minn hefir valdið því, að jeg hefi ekki getað sett mig eins vel inn í það og jeg hefði viljað. En jeg vona, að hv. dm. taki brtt. mína til vinsamlegrar íhugunar, því að jeg er sannfærð um, að hún er til bóta.