16.04.1928
Efri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg get verið hæstv. ráðh. þakklát fyrir skilning hans á brtt. mínum. En jeg fæ naumast skilið, að þetta frv. mundi ekki ná fram að ganga, ef þær verða samþ., vegna mótstöðu hv. Nd. Jeg hefi hlerað það, að hv. mentmn. Nd. muni ekki vera svo allsendis ánægð með frv., að hún myndi ekki vera fáanleg til að breyta því. En eins og jeg tók fram áður, þá er ekki meining mín með þessum brtt. að tefja fyrir frv. — Jeg vil taka það fram, að það eru ekki orðin sjálf, gagnfræðaskóli eða unglingaskóli, sem jeg legg aðaláhersluna á. Heldur það, að nafnið sje svo valið, að það leiði fólkið til rjetts skilnings um tilgang skólans. Eins og hæstv. ráðh. tók fram, þá er það ekki tilgangur minn, að þessi skóli sje settur í samband við mentaskólann. Jeg hugsa þetta sem almenna mentastofnun við hæfi unglinga, þar sem stefnt sje að ákveðnu marki. — Það, sem jeg vil koma í veg fyrir með brtt. mínum, er ringulreið í kenslunni, þar sem hver og einn er sjálfráður um það, hvort námið er stundað einn eða fleiri vetur, og getur eftir eigin óskum tekið aðeins 1 eða 2 námsgreinar. Jeg veit af reynslu, að verulegs árangurs af kenslu má þá fyrst vænta, er námstíminn er að minsta kosti 2 — helst 3 — vetur. Hitt er aðeins kák. Og minni kenslu en 24 st. á viku álít jeg ófullnægjandi. 1–2 stunda nám á dag verður oftast kák eitt og á engan rjett á sjer, nema þá á kvöldskólum fyrir þá, sem verða að vinna á daginn.

Þessar brtt. mínar miða eingöngu að því, að frv. þetta verði ekki bygt á sandi. En þar sem lítið útlit er á, að brtt. mínar verði samþ., þá er ekki annað við því að segja en það, að „ekki veldur sá, er varir“. Jeg vildi nota reynslu mína á þessum málum til að koma í veg fyrir, að unglingum væri veittur aðgangur að málamyndanámi, sem þeir væru engu bættari með.