28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2812 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Björn Kristjánsson:

Í frv. þessu er gert ráð fyrir, að hlutafjelög, samlagsfjelög eða önnur fjelög njóti sömu lagaverndar sem einstakir menn gegn órjettmætum, prentuðum ummælum, sem fallin eru til þess að hnekkja atvinnurekstri þeirra. Þetta felst í 1. gr. Jeg veit ekki til þess, að einstakir menn hafi neina slíka sjerstaka vernd, t. d. umfram hlutafjelög eða kaupfjelög, sem hægt sje að miða við, eins og 1. gr. heldur fram. Hana virðist því vanta raunverulegan grundvöll, vegna þess að einstakir menn hafa enga slíka lagavernd, sem hægt er að miða við.

En mjer er annað kunnugt. Mjer er kunnugt um það, að það er hjer föst lagavenja að dæma þeim bætur, sem verða fyrir fjártjóni út af órjettmætum ummælum á prenti, að svo miklu leyti sem hægt er að sanna fjártjón. Vera má það líka, að skaðabætur verði tildæmdar eftir sterkum líkum. En slík rjettarvenja nær ekki einungis til einstakra manna, heldur til allra atvinnufyrirtækja, sem bíða órjettmætt fjártjón vegna slíkra ummæla. — Þetta bið jeg hv. deildarmenn að athuga vandlega.

Nú kemur það stundum fyrir, að þjóðarheill krefur, að skrifaðar sjeu rökstuddar aths. við atvinnurekstur fyrirtækja, sem snerta almennan hag, t. d. þegar fyrirtæki útiloka almennan hagnað annara manna, því að einmitt þá getur verið alveg nauðsynleg opinber „kritik“ á slíkum fyrirtækjum. Jeg sje því ekki, að frv. bæti neitt úr því ástandi, sem nú er, því að eðlilega tekur frv. fram, að áburðurinn verði að vera órjettmætur, til þess að hann geti bakað skaðabótaskyldu. En einmitt af því, að hann á að vera órjettmætur, þá geta lögin ekki ráðið neitt yfir því, hvernig úrskurðurinn um það fellur. Um rjettmæti dæma dómstólarnir, og þeir eru einir til að dæma um það, hvenær rjettmætt er að dæma skaðabætur og hvenær ekki; og að banna alla opinbera „kritik“ á almennum fyrirtækjum, við skulum segja t. d. á landsverslun, í hvaða móti sem hún er rekin, og jeg vænti þess, að þingið sje ekki þannig skipað ennþá, að það fallist á slík ákvæði að útiloka alla „kritik“ á opinberum fyrirtækjum. (Dómsmrh. JJ: Ekki rjettmæta „kritik“). En það eru dómstólarnir, sem dæma um það, hvort hún er rjettmæt eða ekki.

Dálítið þykir mjer það einkennilegt við þetta frv., að þessi órjettmætu skrif skuli endilega þurfa að vera prentuð til þess að þau verðskuldi skaðabótaskyldu. Samkvæmt því mega menn tala um atvinnufyrirtæki alveg eins vel og illa og þeir vilja; það krefur engrar skaðabótaskyldu. Menn mega tala á mannamótum, halda fyrirlestra og tala í útvarp um fyrirtæki, því til skaðsemdar, og við því liggur engin skaðabótaskylda. Þetta finst mjer vera dálítil hola í frv., því að það ætti vitanlega að ná til alls, hvort sem ummælin eru skrifuð, töluð eða víðvörpuð. Þetta vildi jeg biðja hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, að athuga.

Jeg leiði alveg minn hest frá því að tala um þær mjög einkennilegu ástæður, sem eru færðar fyrir þessu frv., því að það stendur nær lögfræðingunum, en mjer þætti það mjög undarlegt, ef þeir gætu unað við þær.