28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2817 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Björn Kristjánsson:

Jeg benti á það í ræðu minni og sagði skýlaust, að ein og sama rjettarregla gilti í þessu efni fyrir alla, hvort heldur það eru einstaklingar, hlutafjelög eða kaupfjelög. Það er eins og hver önnur vitleysa hjá hæstv. dómsmrh., að þessi meginregla nái ekki einnig til kaupfjelaga eða annara samvinnufjelaga. Þau fá dæmda skaðabótadóma yfir árásum, sem á þau kunna að vera gerðar að ósekju, samkvæmt lögum og þeirri rjettarvenju, að sá fái dæmdar skaðabætur sjer til handa, sem verður fyrir órjettmætu tjóni.

Hæstv. dómsmrh. fór að benda á, að jeg hefði ekki orðið fyrir neinni skaðabótagreiðslu fyrir ummæli í skrifum um samvinnufjelagsskapinn á Íslandi. Nei, við því var heldur ekki að búast. Og það kemur til af því, að jeg var að skrifa í almenningsþarfir; jeg var að skrifa gegn hinu hættulega fyrirkomulagi, samábyrgðinni. Gegn samvinnufjelögunum sem slíkum hefir mjer aldrei komið til hugar að skrifa. Þau hafa ekki einasta sinn fulla tilverurjett, heldur eru og innan skynsamlegra takmarka nauðsynleg og heppileg. En það er samábyrgðarflækjan, sem jeg berst á móti, þessu heimskulega og haldlausa fyrirkomulagi, sem hvergi tíðkast meðal þjóða, það jeg veit til, nema ef vera skyldi í ráðstjórnar-Rússlandi, og þó í annari mynd.

Reynslan hefir sýnt, hve haldlítil samábyrgðin er, þegar á reynir. Menn hafa fallið frá að nota hana, er til átti að taka. Vottur þess er það, að bankarnir hafa orðið að gefa kaupfjelögunum eftir skuldir í stað þess að ganga að öðrum fjelögum í skjóli samábyrgðarinnar. Þannig er þetta ábyrgðarfyrirkomulag alveg gagnslaust eins og það er „praktiserað“. Hefði því verið beitt út í æsar, hefði það getað reynst hættulegt, jafnvel gert heil sýslufjelög öreiga.

Jeg hefi þess vegna haldið því fram, að þessi „kritik“ mín hafi verið og sje rjettmæt og á rökum reist. Svo hafa og dómstólarnir litið á það mál. Þeir litu ekki svo á, að mjer bæri að greiða skaðabætur fyrir ummæli mín. Jeg átti ekki einu sinni skilið að fá sekt, þótt smávægileg væri, 100 kr. Tilgangurinn með skrifum mínum var og er öllum sannsýnum mönnum auðsær. Jeg hefði ekki farið að eyða fje til þess að gefa þau út, ef jeg hefði ekki álitið hag almennings krefjast þess. Sjálfur gat jeg bersýnilega engan hagnað af því haft. En sumum mönnum er svo farið, að þeim hættir við að vilja leggja alla skapaða hluti út á þann versta veg, er þeir geta. Og hæstv. dómsmrh. sjer ætíð og alstaðar skrattann á veggnum. Altaf sjer hann eitthvað í fari annara, er beri vott um óhreinar hvatir að hans dómi. Það er óþarfi fyrir hæstv. ráðh. að vera að dylgja um mistök hjá hæstarjetti. Hann er ekki lögfræðingur og því ekki bær um að dæma.

Hæstv. ráðh. segir, að útvarp muni verða undir svo ströngu eftirliti, að ekki geti verið um að ræða misnotkun í þá átt, er þetta frv. vill fyrirbyggja. Þetta má vel vera satt. En það eru til margar aðrar leiðir til þess að koma á framfæri gagnrýni á hendur þeim fyrirtækjum, er hjer um ræðir. Það má skrifa brjef, halda fyrirlestra o. s. frv., án þess að það falli undir þessi lög, þótt óvarleg ummæli kunni þar að felast. Jeg skal ósagt láta, hvernig farið skal með, ef fjölritað er, hvort það getur heimfærst undir þann lagabókstaf, er hjer á að setja. En ef frv. á að verða að lögum, þá á það að vera heilt, en ekki hálft sem þetta.

Þá mintist hæstv. dómsmrh. á, að ekki yrði þolað, að sumir nytu rjettarverndar, en sumir ekki. Um þetta er alls ekki að ræða. Að þessu leyti standa allir jafnt að vígi gagnvart landslögum, og er leitt, að sjálfur dómsmrh. skuli koma fram með aðrar eins firrur og þetta.