28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Jón Þorláksson:

Af því að jeg í ræðu minni um næsta mál á undan ljet þess getið, að jeg hefði gert mjer vonir um, að sú ábyrgðarmikla staða, sem hæstv. dómsmrh. er í, mundi hafa bætandi áhrif á hann, svo ætla mætti, að hann hefði tekið umbótum frá því, sem við höfum átt að venjast, þá sje jeg ástæðu til að minnast á í því áframhaldi, að ræður þær, sem hann hefir haldið nú, gefa mjer litlar vonir um, að hann ætli að láta það hús, sem hann er kominn í, verða sjer sannkallað betrunarhús.

Jeg vil nú — og mun oftar gera það þegar þörf er á — beina því til háttv. flokksmanna hæstv. dómsmrh., hvort þeir geri sig ánægða með að heyra úr ráðherrastóli slíkar árásir eins og nú á hv. 1. þm. G.-K. Jeg hefi fæst af köpuryrðum hæstv. dómamrh. skrifað upp. Það ógeðslega verk verða þingskrifarnir að gera. Hann talaði um, að háttv. 1. þm. G.-K. væri illa mentaður, fáfróður og hálfhlakkaði yfir því, að hann mundi bráðum deyja, eða væri kominn á grafarbakkann, eins og hann orðaði það. Þetta er skraf og orðbragð ósvífinna götustráka. en hefir aldrei heyrst frá ráðherrastóli hjer, fyr en á þessu þingi. (Dómsmrh. JJ: Ætli það eigi ekki að liggja fyrir okkur báðum og öllum að deyja?). Jeg skýt því til háttv. flokksbræðra hans, sem margir eru góðir og vandaðir menn, hvort þeir geti hlustað á þetta orðbragð ráðherrans dag eftir dag. Jeg veit, að innan Framsóknarflokksins hljóta að vera margir hv. þm., sem fordæma þessa bardagaaðferð hæstv. dómsmrh.

Jeg ætla þá að víkja nokkrum orðum að því, sem mjer skilst, að sje aðalágreiningsatriðið milli þeirra háttv. 1. þm. G.-K. og hæstv. dómsmrh., og það er það, hvort samvinnufjelögin eigi að njóta meiri rjettarverndar í því efni, sem frv. ræðir um, heldur en annar atvinnurekstur. Mjer skilst, að með frv. sje það meiningin að útiloka umr. um, hvort þessi tilhögun — samvinnufjelagsskapurinn — sje gagnleg og heppileg eða ekki. Og verð jeg þá að segja það, að mjer þykir of langt gengið í þessu efni með stjfrv.

Ef við berum saman við kaupfjelagsskapinn þann rekstur, sem honum er skyldur, en það er verslun einstakra manna, þá hefir jafnan þótt rjett að finna að sjerhverri tegund verslunar eða verslunaraðferð, sem talin er óhagstæð almenningi. Og þær aðfinningar, sem á rökum voru bygðar, hittu jafnan fyrir þá kaupmenn, er þessa óhagstæðu tilhögun höfðu á verslun sinni, en hina ekki.

Slíkar aðfinningar um verslunina hafa altaf látið til sín heyra, og ekki þótt nema sjálfsagt. Jeg skal t. d. benda á, að nú síðustu dagana hefir borið á háværum aðfinslum til þeirra kaupmanna, sem flytja vörur sínar með öðrum skipum en skipum Eimskipafjelagsins. Slík aðfinsla er nauðsynleg, og kemur eflaust engum til hugar að setja lög, sem hindri slíkt. Ef eitthvað er óheppilegt í skipulagi samvinnufjelaganna, eða eitthvað kemur upp þar, sem er hagsmunum almennings til tjóns, þá verða þau að þola opinberar aðfinslur. Enda skilst mjer, að samvinnufjelögin hafi tekið til sín aðfinslur um tilhögun á fjelagsskapnum, sem álitin er óheppileg. Því hefir líka verið lýst yfir á Alþingi af mjög mikilsmetnum Framsóknarmanni, að sú almenna samábyrgð, sem lögskipuð er innan kaupfjelaganna, væri aðeins til bráðabirgða, eða á meðan fjelagsskapurinn væri að koma sjer upp veltufje. En í því virðist liggja sú viðurkenning, að þetta fyrirkomulag sje í sjálfu sjer ekki heppilegt.

Jeg held því, að það sje ekki rjett eða á neinn hátt heppilegt fyrir þennan verslunarrekstur, sem hæstv. dómsmrh. ber svo fyrir brjósti, að banna, að um hann sje rætt opinberlega, jafnmikið og sá rekstur hlýtur að snerta allan almenning og þjóðfjelagið.

Annars vildi jeg að lokum bæta því við, að þar sem um fyrirtæki er að ræða, sem rekin eru af hálfu þess opinbera, þar verða allir landsmenn að skoðast sem meðeigendur, og hljóta þá um leið sem eigendur að hafa meira frjálsræði til að tala og rita um þann rekstur en um atvinnufyrirtæki einstaklinga. Getur því ekki komið til mála að banna með lögum umr. eða gagnrýni á hverskonar ríkisrekstri sem er, og er ástæðulaust, að hann njóti meiri rjettarverndar í þessu efni en verslunarrekstur einstakra manna.