28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2834 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Jón Þorláksson:

Hæstv. fjmrh. talaði um sjálfsskuldarábyrgð og samábyrgð og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri hið sama. Sá, sem tekst á hendur sjálfsskuldarábyrgð, veit altaf um takmörk fyrir skuldbindingu sinni, en sá, sem tekur á sig samábyrgð, eins og kaupfjelaganna hjer, getur ekki vitað, hve mikla ábyrgð og áhættu hann tekur á sig um leið. Þetta er verulegur munur, en jeg er ekki með þessu á neinn hátt að láta í ljós skoðun mína á því, hvort samábyrgð sje alment heppileg eða ekki. Mjer finst það ekki nema eðlilegt, að fátækir menn, sem hug hafa á því að bæta efnahag sinn, grípi til þeirra ráða, sem fyrir hendi eru, meðan þeir geta gert það á heiðarlegan hátt.

Jeg verð að leiðrjetta það eina dæmi, sem hæstv. fjmrh. tók til þess að sýna það, að leg hefði farið skakt með tölur. Jeg hefi altaf í þessu tilfelli, sem hann talaði um, tilgreint rjettar tölur og hefi altaf látið fylgja þau orð, sem skýrðu, við hvað var átt.

Það var rjett með farið hjá hæstv. fjmrh., að jeg hefi sagt, að tilkostnaðurinn við það að láta tóbaksverslun ríkisins afla ríkissjóði tekna nemi 40 til 50% af tekjunum. Þetta er villandi, segir hæstv. fjmrh., vegna þess að það sje aldrei vani að reikna tilkostnað af nettótekjum. Jeg var hjer að gera samanburð á tilkostnaðinum við þessa tekjuöflun ríkissjóðs og tilkostnaðinum við aðrar leiðir til þess að afla ríkissjóði tekna, meðal annars tollaleiðina. Því hefir mikið verið haldið á lofti, hve mikinn tilkostnað landsmenn verði að borga við tollaleiðina. En jeg hygg, að það sje ómótmælanlegt, að landsmenn borgi þó hærri tilkostnað við tekjuöflun tóbaksverslunarinnar heldur en við tekjuöflun ríkissjóðs á öðrum sviðum. Jeg segi þetta ekki til þess að finna að því, hvernig verslunin var rekin. Jeg kannast ekki við það, og mjer þykir það leiðinlegt, að hæstv. fjmrh. skuli hafa sagt það, að jeg noti rangar tölur. Jeg þykist ekki hafa gert það og jeg hygg, að bæði honum og öðrum verði torfundnar rangar tölur í því, sem jeg hefi sagt og ritað um fjármál, nema þá óviljandi villur, sem auðvitað geta komið fyrir hjá mjer sem öðrum.

Hæstv. dómsmrh. fór að afsaka sig fyrir orðbragð sitt, og verð jeg að segja það, að mjer finst, að full ástæða sje til þess fyrir hann. Í þessu sambandi kvartaði hann undan því, að hv. 1. þm. G.-K. hefði kallað sig skratta. Það gerði hann nú ekki. Hann nefndi aðeins gamlan talshátt, sem sagt er, að eigi rót sína að rekja til munnmælasögu um Lúter, þegar hann dvaldi um stundarsakir í kastalanum Warthburg. Er sagt, að hann hafi þá þótst sjá skrattann á veggnum og hafi þá gripið til blekbyttu sinnar og fleygt henni í kölska til þess að fæla hann frá sjer. Enginn álítur Lúter minni mann, þótt svona hafi farið fyrir honum, og mjer finst enginn þurfa að firtast af því, þótt sagt sje um hann, að hann „máli skrattann á vegginn“.

Hæstv. dómsmrh. tók eftir því, sem jeg sagði um frv. Hann lýsti því með mörgum og sterkum orðum, eins og honum er lagið, hvílík bíræfni það væri af mjer, að jeg skuli ekki geta verið ánægður með ákvæði frv.

Jeg get ekki sjeð, að tilgangur frv. sje annar en sá, að hefta almennar, nauðsynlegar umræður um atriði, sem varða alþjóð. Það kom berlega í ljós af ræðu hæstv. dómsmrh., að hann skilur frv. svo, að óheimilt eigi að vera að ræða það opinberlega, hvort holt sje að hafa samábyrgð, eða hvort það geti verið hættulegt, hve víðtæk hún sje. Þetta sjest ekki á frv., en heyrðist á ræðu hæstv. ráðh. Og jeg verð að telja það of langt farið og í alla staði óheilbrigt, ef banna á að ræða mál, er svo mjög varða alla landsmenn. Það væri alveg hliðstætt að banna að tala um það, ef t. d. 2–3 kaupmenn í hverri sýslu viðhefðu verslunarrekstur, sem væri óheppilegur og óhollur almenningi.

Hafi jeg lagt annan skilning í lesmál 1. gr. en hinn rjetta, þá er það hæstv. dómsmrh. að kenna, og þar með þessi „bíræfni“ mín, sem hann kallar svo. Jeg hefi sjerstaka ástæðu til þess að taka til greina ummæli hæstv. dómsmrh. um þessa gr. frv., bæði vegna þess, að hann er flutningsmaður og sennilega höfundur þess, og vegna þess að hann hefir það, vegna stöðu sinnar, sjerstaklega á valdi sínu, hvernig lögunum er beitt.

Þá var hæstv: dómsmrh. ekki ánægður með afstöðu mína til almennra umræðna um opinberar stofnanir. Hæstv. fjmrh. lagði þar rjettari skilning í orð mín, en þó meiri en jeg ætlaðist til. En hæstv. dómsmrh. sór sig þar í ætt við sjálfan sig. Jeg get ekki skilið, hvað hann meinti með því, að menn hefðu frekara frelsi til þess að segja ósatt um opinbera stofnun en einstaklinga eignir, vegna eignarrjettar síns í hinni alþjóðlegu stofnun. Menn hefðu t. d. leyfi til þess að segja ósatt um Landsbankann, en ekki Íslandsbanka, — og þetta kallar hann í næstu andránni „gagnrýni“. Með þessu, að segja að ósannindi sjeu það sama sem gagnrýni, er hæstv. dómsmrh. að lýsa sinni alþektu framkomu í opinberum málum. En jeg segi, að það sje aldrei heimilt að segja ósatt um neinn í opinberum málum.

Ef það er rjett, sem Severin Jörgensen kvað hafa sagt um samábyrgð, að hún sje svo siðbætandi, þá vona jeg, að hæstv. dómsmrh. verði svo lengi í samábyrgðarfjelögum, að hann batni svo siðferðislega, að hann hætti að telja ósannindi gagnrýni.