28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það gleður mig, að ræða mín síðast hefir sýnt hv. 3. landsk., að mótstaða hans og hv. 1. þm. G.-K. gegn frv. er fjarstæða. Þegar jeg las frvgr. upp fyrir honum áðan, virðist það hafa runnið upp fyrir honum, að hún væri alveg eðlileg. Jeg vona, að hv. þm. skiljist það til fullnustu, að það er í rauninni ekki ákaflega mikilsvert að halda í rjettinn til að skrökva upp á Samvinnufjelög og landsverslun, og endirinn verði sá, að hann greiði frv. atkvæði.

Hv. þm. hjelt því fram, að jeg hefði sagt nú í umræðunum, hver ummæli ættu að vera leyfileg og hver ekki, og vegna þeirrar útskýringar minnar væri hann hræddur við að samþykkja frv. En jeg vil fræða hann um það, að þegar lög eru skýrð, er farið eftir orðalagi þeirra sjálfra, en ekki því, sem um þau kann að hafa verið sagt. T. d. mundi enginn lögskýrandi taka mark á fjarstæðum þeim, sem hann hefir látið sjer um munn fara um frv. þetta.

Þegar jeg mintist á rit hv. 1. þm. G.-K. um kaupfjelögin, datt mjer vitanlega ekki í hug, að banna ætti þeim hv. þm. að skrifa. Mjer þótti bara ekki ótilhlýðilegt að rifja upp liðnar stundir við þetta tækifæri.

Ekki get jeg sagt, að mjer fyndist lítið til um valdauka þann, sem hv. 3. landsk. vildi gefa mjer, þar sem hann gaf í skyn, að jeg rjeði lagaskýringum dómstólanna. Jeg veit ekki til þess, að það komi til mála, og óska mjer þess ekki. Hjer er um draumsjónir að ræða hjá hv. þm., og vona jeg, að hann losni við þær, ef svo kynni að fara, að hann yrði sjálfur dómsmálaráðherra, þegar jeg læt af því starfi. (JÞ: Guð forði mjer frá því).

Það fer ekki fallega á því, að hv. 3. landsk. tali um ósannindi og ljóta blaðamensku. Hvernig hefir hv. þm. farið að því að vera formaður Íhaldsflokksins, ef hann hefir óbeit á slíku? Eða hefir hann engin áhrif á þær bardagaaðferðir, sem flokkurinn beitir? Veit hann ekki, hvernig það orðbragð er, sem blaðamenn flokksins hafa notað fyr og síðar — í vörninni fyrir hann í kosningahríðinni í sumar og nú í gremju sinni yfir ósigrinum? Heldur hann, að það tíðkist í Englandi, eins og í aðalstuðningsblaði hans hjer í Reykjavík, að innan um þingfrjettir sje dreift skömmum um andstæðingana? (JÞ: Hvað höfðingjarnir hafast að . . . . ). Nei, hv. 3. landsk. má vera viss um, að svona blaðamenska þekkist hvergi nema í hans eigin herbúðum. Það er t. d. enginn vafi á því, að jeg mundi geta farið í mál við aðalblað hans til jafnaðar einu sinni á dag alt árið og fengið það dæmt í sektir fyrir meiðyrði, ef jeg aðeins nenti að hafa fyrir því. Það þarf annað og meira en venjuleg brjóstheilindi til þess að halda því fram, að yfirmaður þessa blaðs og annara þvílíkra sje á móti ósannsögli og ókurteisi.

Það er mjer fagnaðarefni, að háttv. 3. landsk. óskar mjer þess, að jeg megi læra af ritum Severin Jörgensens. Jeg held, að mjer sje óhætt að skilja þetta svo, að hann viðurkenni, að misbrestir á siðgæði hjá honum og flokki hans stafi af því, að þá vanti þekkingu á samvinnufjelagsskap. Jeg er heldur ekki vonlaus um, að þau litlu kynni, sem hann hefir haft af samvinnu, muni hafa einhver bætandi áhrif á hann. A. m. k. vill hann nú stofna einskonar samvinnufjelag til þess að reka síldarverksmiðju á Siglufirði. Það er raunar ekki fráleitt, að sumum fylgismönnum hans hafi þótt þessi tillaga beisk á bragðið og hún kunni því að hafa orðið honum sjálfum til einhvers ógagns. En hún sýnir, að hjartað er að batna. (JÞ: Og þó er jeg ekki í neinni samábyrgð). Einhvernveginn hefir þó síldin á Siglufirði hitað honum svo um hjartaræturnar, að þessi angi samvinnunnar getur þrifist þar.