28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Jón Þorláksson:

Þó að sumir sjeu að reyna að dylja svipbrigði sín og vera alvarlegir, sje jeg, að nú brosa allir — þegar hæstv. dómsmrh. er að vanda um blaðamensku hjá öðrum. Það var að skilja á honum, að jeg hefði haft einhverja umsjón með því, sem prentað hefir verið hjer á landi. Hana hefi jeg áreiðanlega ekki haft. Hefði svo verið, mundi jeg hafa komið í veg fyrir þann aurstraum, sem fyrir nokkrum árum var byrjað að veita inn í íslenska blaðamensku. Var ilt, að svo skyldi fara, því að þá var hún farin að skána mikið frá því, sem áður var. En jeg vil biðja menn að muna, að það var ekki Íhaldsflokkurinn, sem átti sök á, að svo raunalega fór.

Um skiftingu dóms- og framkvæmdavalds er jeg eins vel að mjer og hæstv. dómsmrh. En það vita allir, að hann er mikill ráðamaður í öllum ráðuneytum um þessar mundir. Ætla jeg því, að hann mundi ráða nokkru um, hvar reiða skyldi upp lagavöndinn vegna opinberra fyrirtækja. Að því lutu ummælin í síðustu ræðu minni.