03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg skal ekki heldur eyða mörgum orðum að þessu frv. Á þskj. 336 er álit lagadeildar háskólans prentað, og telja prófessorarnir, að frv. þetta geri enga breytingu á gildandi lögum um þetta efni og sje þessi lagasetning því óþörf. Jeg hefi samkvæmt því áliti lagt til, að frv. verði felt. Þarf jeg varla að færa frekari rök fyrir því en gert er á þskj. 336. Það er ekki venja að vera að taka kafla út úr gildandi lögum og gefa þá út sem ný lög.

Út af ummælum hv. frsm. meiri hl. vil jeg segja það, að eigendur fyrirtækjanna hafa yfir höfuð rýmri rjett til að tala um rekstur þeirra en aðrir, og þegar um opinber fyrirtæki er að ræða, eru eigendurnir auðvitað allur almenningur. Það er samskonar rjettur og landsmenn hafa yfirleitt til að segja meiningu sína um opinber mál.