03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2857 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg gat nú ekki orða bundist þegar hv. þm. Seyðf. tók til máls og talaði eins og hann gerði, því jeg vil benda á þessi ummæli hv. þm. og þann tón, sem þau voru töluð í, og eftir því gerir hann mun á því, hvort um er að ræða fjelagsskap. eins og kaupfjelög, eða einstakan kaupmann. Þykist jeg því sjá enn betur en áður, að mikil nauðsyn sje, að þessi lög komist á, því að eftir orðum hv. þm. finst mjer það, að hann vilji ekki láta þann fjelagsskap, kaupfjelögin, eiga lagavernd eins og einstaklinga.

Hv. frsm. minni hl. og hæstv. dómsmrh. hafa verið að deila um það, hvað háskólaprófessorarnir segi um þetta mál, og það er, jeg skal játa það, dálítið undarlegt, þegar prófessorarnir segja, að það, að færa sönnur á eitthvað, sje að færa líkur fyrir einhverju. Það er dálítið undarlegt fyrir leikmann að heyra það, en það má vel vera, að fyrir lagamann þýði það hið sama. En fyrir öllum leikmönnum er það svo, að þeir telja, að það, að færa líkur fyrir einhverju, sje ekki sama og að færa sönnur á eitthvað. Mjer finst þessar fullyrðihgar lagaprófessoranna líkjast því, þegar Sæmundur hinn fróði sannaði fjandanum það, að „fór nú“ væri latína, sem þó allir vita, að er góð og gild íslenska.