03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2858 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg býst ekki við, að hjer verði langar deilur milli okkar hv. 3. landsk. Þar sem hann játar, að hann hafi litla eða enga þekkingu á þessum umræddu dómum, skal jeg með fáum orðum skýra málin nokkuð. — Svo stóð á, að kaupmaður hjer í Reykjavík keypti hross að vetrarlagi í Norðurlandi og ljet reka þau suður um Holtavörðuheiði og skipa þeim út hjer. Þá varð einn af ráðunautum Búnaðarfjelags Íslands, sem líka er einlægur dýravinur, til þess að átelja þetta og skrifaði um það greinar í „Tímann“. Út af þessu spanst svo hörð deila, aðallega milli ráðunautsins og starfsmanna kaupmannsins. Ritstjóri Tímans mun sjálfur alls ekkert hafa sagt um þetta, en tók nokkrar greinar um málið, einkum frá kaupfjelagsstjórum og bændum. Síðan stefnir kaupmaðurinn blaðinu út af þessu og undirrjetturinn dæmdi, fyrir munn Einars Arnórssonar, en á ábyrgð bæjarfógetans í Reykjavík, ritstjórann, núverandi hæstv. forsrh., til að greiða kaupmanninum 25 þús. kr. skaðabætur. Þessu máli lauk svo fyrir hæstarjetti á þann hátt, að skaðabæturnar voru færðar niður í 5 þús. kr. Nú er það auðsætt, að ekki geta báðir dómarnir verið rjettir, sambandsdómurinn og hrossadómur Garðars Gíslasonar. Það sannaðist fyrir hæstarjetti, að allir útflytjendur höfðu skaðast á hrossaversluninni það ár, og sömuleiðis að verslun kaupmannsins með hross hafði ekki minkað meira en annara. Þar var þá tvent sannað: Að verslunin með hross hafði yfirleitt minkað þetta ár og að skaði varð á hverju hrossi. Því var mestur hagur í að fá sem fæst hross þetta ár. En verslun kaupmannsins hafði ekki minkað tiltölulega meira en annara. Þetta viðurkendi hæstirjettur, en fjelst þó á skaðabótakröfuna með þeim forsendum, að ummælin hefðu getað skaðað atvinnurekstur kaupmannsins, þó að engar sannanir væru fyrir því.

Ef það er nokkuð, sem er vel fallið til þess að koma inn þeirri trú hjá borgurum landsins, að dómstólarnir sjeu ekki óskeikulir, þá eru það svona dómar, sem ganga hver ofan í annan, og þess vegna furðar mig á því, að það skuli vera nokkur sá málsmetandi maður í landinu, sem ekki finnist það betra að fá öruggan rjettargrundvöll, til þess að losna við þessa óvissu. Það er áreiðanlegt, að ef þetta frv. verður að lögum, þá fellur niður uggur um rjettleysi í þessu efni. Og í því máli, sem jeg nefndi áðan, hefði ekki verið um annað að ræða en að dæma eftir sönnuðum skaða, og hann var ekki til.

Nú vill hv. þm. ekki neita því, að um tvo af þessum prófessorum er það skjallega vitað, að þeir voru varadómarar í hæstarjetti og að þriðji maðurinn bjó til hina tvo gagnstæðu dóma. (JÞ: Jeg veit ekkert um þetta). Mig furðar satt að segja á því, að hv. 3. landsk. skuli ekki sjá það, þar sem það er vitað, að þessir dómar hafa verið ákaflega mikil hneykslunarhella í landinu, hvor um sig á sinn hátt fullkomið rjettarhneyksli, þá skiftir það ekki svo litlu máli, þegar verið er að byggja hjer þann grundvöll, sem á verður að reisa framtíðarrjettarfar landsins um mikilvægt atriði. Skjal þremenninganna verður hjer að skoðast sem fremur illa samið álit frá mönnum, sem eru sögulega riðnir við það mein, sem hjer á að lækna.

Best sannast þetta ef til vill á því, sem háttv. 3. landsk. var að reyna að gera sjer mat úr, að prófessorarnir hefðu sagt, að þegar ætti að fara að meta fjárhagstjón, þá yrði að miða við það tjón, sem væri bakað áður en málssókn væri hafin. Þeir koma með þá ágiskun, að þetta myndi væntanlega verða skilið svona. En það er alveg víst, að þetta verður ekki skilið svo, því ef þetta frv. verður samþykt sem stjfrv. frá núverandi dómsmrh., þá mun enginn íslenskur dómstóll leyfa sjer að dæma um þessi mál eftir skýringu prófessoranna, því að hv. þm. hlýtur að vita, að það er ákaflega mikið farið eftir þeim skýringum, sem fylgja frv. frá þeim, sem bera þau fram.

Þetta frv. verður alveg til að slá niður gerræðisfulla dóma eftir líkum eða ofan í líkur, eftir því sem á stendur. Glundroðinn sjest á því, þegar einn dómarinn ákveður 25 þús. kr. bætur í máli, sem annar dómstóll metur á 5 þús. kr., og þar sem almenningsdómurinn hefir fyrir löngu lýst yfir fullkominni sýknu verjanda.

Þá sagði háttv. 3. landsk., að það kæmi sjer kannske illa fyrir hæstarjett, ef það kæmi fram „kritik“ á dómum hans. (JÞ: Það sagði jeg alls ekki). En það getur ekki öðruvísi verið, því ef þjóðin er komin á þá skoðun, að lögin sjeu ekki heppileg, þá bætir hún lögin. Hún býr til form; sem undirdómarar og hæstirjettur verða að fylgja, og hæstirjettur verður altaf undir dómi almenningsálitsins.

Nú er það beinlínis í þessu tilfelli alveg sannað, að hæstarjettardómurinn í máli Sambands íslenskra samvinnufjelaga gegn Birni Kristjánssyni og hæstarjettardómurinn í málinu Garðar Gíslason gegn ritstjóra Tímans voru svo gersamlega hvor á móti öðrum, að það er ekki nokkur brú á milli þeirra, og það er ennfremur játað, að hæstirjettur hafi skift um skoðun, og menn segja líklega, að hann hafi nú endanlega skift um skoðun og að nú verði aldrei dæmdir dómar eins og sá út af verslunarólaginu. En þjóðin vill hafa rjettaröryggi, og þess vegna er það, ef þetta frv. verður samþykt, að þá leyfa lögin engar þrjár leiðir, sem dómarar geti valið um í þessu efni. Vilji þjóðarinnar er að gera glöggar leiðir og fyrirbyggja allan efa um rjettlæti dómstólanna í þessu efni. Hin leiðin er að gera ráð fyrir því, að það geti verið þrjár leiðir opnar samtímis, — og hver getur þá sagt um það, að ekki verði farið eftir því, hver í hlut á?

Jeg segi það, að jeg sem dómsmrh. álít það skyldu mína að vinna að þeim umbótum á rjettarfarinu, að ólíkir dómar um sama málstað verði ekki dæmdir til tjóns fyrir land og lýð.