04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Páll Hermannsson):

Við 1. umr. fjárlaganna í þessari hv. deild námu útgjöldin samkvæmt frv. eins og frá því hafði verið gengið af hv. Nd. kr. 10773668.91. Við 2. umr. í þessari hv. deild bættust við gjöldin kr. 48659.00 og nú eftir till. fjvn. til 3. umr. hækka þau enn um kr. 5700.00. Gjöldin nema þá alls kr. 10828027.91.

Þegar þessi hv. deild tók við fjárlagafrv., voru tekjur samkvæmt því áætlaður kr. 10108600.00. Tekjuliðir frv. tóku engum breytingum við 2. umr., en fjvn. leggur til nú við 3. umr., að tekjuáætlunin hækki um kr. 775000.00. Samkvæmt því nema tekjur alls kr. 10883600.00.

Tekjuhalli varð á frv. eins og það var samþ. í hv. Nd. kr. 665068.91. Eftir 2. umr. í þessari hv. deild hafði tekjuhallinn aukist samkv. áður sögðu um kr. 48659.00, svo að hann nam þá alls kr. 713727.91. En eftir till. þeim, sem fyrir deildinni liggja frá fjvn., ætti tekjuafgangur að verða kr. 55572.09.

Eins og getið var um við 2. umr., er það vitanlegt, að hv. Nd. hafði gengið út frá því í meðferð sinni á fjárlögunum, að hinn mikli tekjuhalli yrði jafnaður með tekjuaukum samkvæmt frv., sem þetta þing hafði til afgreiðslu. Það hefir nú komið á daginn, að samþykt hafa verið sem lög frá Alþingi tvö frv., sem lögð voru fyrir þingið og ætlast var til, að gæfu tekjuauka. Á þessum samþyktu lögum og einu frv., sem samþ. hefir verið í hv. Nd. og gengið gegnum 1. og 2. umr. hjer í þessari hv. deild og sem telja má víst, að verði afgreitt sem lög, byggist sá tekjuviðbætir, sem fjvn. leggur til, að tekinn verði inn í frv.

Jeg þykist ekki þurfa að fara mörgum orðum um frv. í heild sinni. Hv. deildarmenn hafa fylgst það vel með, að það ætti að vera óþarfi. Fyrir hönd nefndarinnar vil jeg þó benda á tvent. Tekjuafgangur sá, er frv. mundi sýna, ef till. nefndarinnar væru samþ. hjer við 3. umr., er ekki hærri en það, að nefndin, eða að minsta kosti meiri hl. hennar, álítur ekki mega af honum taka.

Meiri hl. fjvn. lítur svo á, að nú þegar sje komið svo mikið inn í frv. útgjaldamegin, að þar megi ekki hækka úr þessu. — Í öðru lagi vil jeg benda á, að of margir liðir eru bundnir við nöfn einstakra manna, svo sem sjerstaklega námsstyrkir. Og til viðbótar við það, sem jeg hefi sagt við 2. umr. um það atriði, vil jeg enn taka það fram, að nefndin álítur, að ekki beri að skoða þá sem fasta liði í fjárlögum. Fyrir hönd fjvn. vil jeg beina því til hæstv. stjórnar, að það er ekki álit nefndarinnar, að þessa liði þurfi að taka upp í frv. næsta ár. Þótt ekki sje um sjerlega háa fjárupphæð að ræða, verður nefndin að lýsa því yfir, að illa fari á því í fjárlögum, að mjög margir persónustyrkir standi þar, þótt svo hafi farið í þetta sinn.

Þá ætla jeg að minnast á einstakar brtt. nefndarinnar á þskj. 695. Það eru þá fyrst brtt. hennar við 2. gr. frv., um tekjuáætlunina. Flestar þær brtt. eru hækkunartill. Í fyrsta lagi hefir fjvn. lagt til, að tekju- og eignar skattur verði áætlaður kr. 1050000.00 eða hækki um kr. 200000.00. Þessi hækkun er bein afleiðing af lagafrv., sem liggur fyrir þessari hv. deild og víst þykir að verði samþ. Það er 25% hækkun á tekju- og eignarskatti frá því sem verið hefir.

Sömuleiðis leggur nefndin til, að vörutollur hækki úr kr. 1050000.00 upp í kr. 1250000.00. Þessi hækkun nemur kr. 200000.00 og er afleiðing af samþyktum lögum frá þinginu. Líka er lagt til, að verðtollur hækki úr 825 þús. kr. upp í 1325 hús. kr., eða hækki um 500 þús. kr. Einnig þetta er afleiðing af lögum samþyktum frá þessu þingi.

Þá er loks gert ráð fyrir, að tekjur af víneinkasölu ríkisins hækki úr 300 þús. kr. upp í 375 þús. kr., eða um kr. 75000.00. Þessar hækkunartillögur nema kr. 975000.00. En við sömu grein, 2. gr., er gert ráð fyrir einni lækkun. Það er á kaffi- og sykurtolli, og nemur sú lækkun kr. 200000.00. Raunveruleg tekjuhækkun er því samkvæmt þessu kr. 775000.00 alls.

Um hækkunartill. er það að segja, að þær eru gerðar að mestu leyti eftir tillögum hæstv. fjmrh. Þær eru bygðar á þeim rökum, sem samþykt lög frá þessu þingi og frv., sem talið er fullvíst, að verði samþ., virðast gera á þessum liðum. Hækkun á áætluðum tekjum af vínsölunni stafar af öðrum ástæðum. Undanfarin ár hefir verið fest talsvert af tekjunum í versluninni sjálfri. En nú er búist við, að ekki þurfi að halda því áfram. Losnar þá nokkurt fje. Einnig er talið líklegt, að eitthvað af því fje, sem nú þegar er fast sem veltufje einkasölunnar, verði — að skaðlausu — dregið inn í ríkissjóðinn. Með hliðsjón af þessu rjeðst nefndin í að hækka þennan lið um 75 þús. kr.

Hækkunartill. tekjumegin eru aðalbreytingartill. nefndarinnar við sjálft frumvarpið. Þó hefir nefndin gert tvær litlar brtt. við gjaldahlið frv., 10. gr. Er fyrst lagt til, að risnufje forsætisráðherra hækki um 4 þús. kr., og í öðru lagi gert ráð fyrir, að 7. liður 10. gr. orðist á annan veg en í frv., þannig: „Til umbóta og viðhalds á stjórnarráðshúsinu og ráðherrabústaðnum og til hitunar og lýsingar hans 6000 kr.“. Síðustu orðin: „til hitunar og lýsingar“ eru viðbót frá fjvn. og hækkar nefndin fjárveitinguna í sambandi við það um 2 þús. kr. Þessi breyting og hækkun er gerð með hliðsjón af því, að forsætisráðherra mun vera ætluð ókeypis íbúð, ljós og hitun í ráðherrabústaðnum, þótt ekki hafi fyrverandi forsætisráðherra notað þá heimild. Risnufje forsætisráðherra er svo lágt, að hann getur ekki haldið uppi þeirri risnu, sem ætlast er til, nema hann sje annað tveggja auðugur maður eða reki einhverja þá atvinnu, er gefi honum tekjur. En komið getur það fyrir, að ekki standi þannig á. Nefndin telur rjett, að þessir liðir komi til framkvæmda á yfirstandandi ári.

Við 18. gr. leggur nefndin til, að einn liður falli niður. Það upplýstist fyrir 3. umr., að maður sá, er þar um ræðir, er dáinn, og leiðir þessi brtt. því af sjálfu sjer.

Við 22. gr. hefir nefndin lagt til, að sú breyting verði gerð við 2. lið, sem er um lán til osta- og smjörbúa, að í stað 5% vaxta, sem þar er gert ráð fyrir, komi 6%. Þessi breyting er gerð með hliðsjón af öðrum liðum þessarar greinar. Þar er alstaðar gert ráð fyrir 6% vöxtum nema í 1. lið, um lán til frystihúsa. En nefndin telur rjett að láta þar sitja við sem er, 5%, vegna sjerstakrar nauðsynjar þess máls.

Líka hefir nefndin lagt til, að bætt verði við þann lið 23. gr., sem ræðir um endurgreiðslu til Rangárvallasýslu, svo hljóðandi athugasemd: „Endurgreiðsla er bundin því skilyrði, að fjenu verði varið til umbóta helstu sýsluvegum í sýslunni, sjerstaklega Landveginum og Fljótshlíðarveginum, eftir tillögum vegamálastjóra“.

Þannig stendur á þessari athugasemd, að eftir frv. er gert ráð fyrir, það ríkissjóður endurgreiði Rangárvallasýslu nokkurt fje, er sýslan hefir á sínum tíma lagt í veg innan sýslunnar. Nefndinni þótti óviðfeldið, að sýslan fengi þessa endurgreiðslu veitta skilyrðislaust. Vill nefndin binda hana því skilyrði, að fjeð verði látið ganga til ambóta á vegum þar í sýslu, og haldi þannig áfram að vera í vegum sýslunnar og koma sýslubúum að gagni á þann hátt.

Við 23. gr. hefir fjvn. bætt 2 nýjum liðum. Annar er um að flýta fyrir fyrirhugaðri Þingvallabraut upp Mosfellsdal, svo að hún verði tilbúin til afnota og umferðar 1930. Er stjórninni heimilað að taka lán til þess mannvirkis, ef á þarf að halda. Þetta er gert með hliðsjón af þeirri miklu umferð til Þingvalla, sem hlýtur að verða 1930. Jafnframt er þetta þjóðvegur, sem gert er ráð fyrir, að eigi að vera fullbúinn 1933. Það er talið líklegt, að svo mikil umferð verði á Þingvallaveginum 1930, að hætt yrði við slysum, ef látinn væri nægja sá eini vegur, sem nú liggur hjeðan til Þingvalla. En með þessu, að tveir vegir væru komnir, yrði umferð hagað svo, að bílar þurfi ekki að mætast. Geta þeir þá farið aðra leiðina en komið hina.

Í síðasta lagi hefir nefndin, eða meiri hluti hennar, lagt til, að ríkissjóði sje heimilt að taka ábyrgð á alt að 300 þús. danskra króna láni Jóhannesar Jósefssonar til þess að reisa 1. flokks gistihús í Reykjavík fyrir 1930. Þessi maður, Jóhannes glímukappi Jósefsson, hefir í hyggju að reisa slíkt gistihús. Hygst hann sjálfur að leggja allmikið fje í fyrirtækið, eins og till. nefndarinnar sýnir. Sótti hann um, að ríkisstjórninni veittist heimild til þess að takast þessa ábyrgð á hendur, en tekur jafnframt fram, að hann notaði ekki ábyrgðina nema uppfylt væru þau skilyrði, er hann tilnefndi í umsókn sinni. Sem sagt, meiri hl. nefndarinnar lítur svo á, að rjett sje að veita stjórninni þessa heimild, þótt að minsta kosti einn nefndarmanna væri henni algerlega mótfallinn. — Jeg hefi þá getið nokkuð brtt. fjvn. á þskj. 695, en jeg held, að rjettast sje um leið að minnast á brtt., sem jeg flyt sjálfur ásamt hv. 1. þm. Eyf. (EÁ).

Það er IV. brtt. á þskj. 695, um að heimila kirkjustjórninni „að verja alt að einum prestlaunum til þess að greiða ferðakostnað handa prestvígðum manni, einum eða fleirum, til eflingar andlegri samvinnu meðal presta og kristilegra áhrifa á söfnuði úti um land“, ef fje sparast við það, að prestaköll eru laus. Þessi till. er gamall kunningi þingsins. Hún komst í fjárlög fyrir árið 1927, og mun heimildin hafa verið notuð það ár.

Jeg veit, að margir líta svo á, að þessari fjárhæð sje vel varið. Það er álit margra, að það sje bæði nauðsynlegt og holt fyrir samvinnu meðal prestanna og almennan áhuga þeirra á kristilegum og trúarlegum efnum, að áhuga- og athafnamenn kirkjunnar ferðist í þessum tilgangi um hjeruð þessa lands og beiti þar vilja sínum og orku kirkjunni og kristninni til eflingar. Hjer er aðeins um heimild að ræða, en auðvitað ætti þetta helst að standa sem fastur skilyrðislaus liður í fjárl. En sakir þess, að till. þess efnis fjell í hv. Nd., fer jeg þessa leið hjer. Það hefir oftast verið svo, að eitthvað af prestaköllum hefir verið laust úti um landið. Jeg hefi spurst fyrir um þetta hjá kirkjustjórninni og fengið það svar, að líkindi væru til, að eitthvað mundi sparast á þessum lið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vænti, að hv. deild sjái sjer fært að samþ. þessa brtt. Þó að hún kunni að leiða af sjer útgjöld, hefir hún ekki áhrif á fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir.