04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Baldvinsson:

Jeg á hjer nokkrar brtt. á þskj. 695. Það er fyrst V. till., um styrk til Hólmfreðs Franzsonar stúdents, 1000 kr. til háskólanáms. Það er nú svo, að margir munu álíta, að nógu margir slíkir styrkir sjeu komnir inn í fjárlagafrv., sá nafnalisti sje orðinn nógu langur nú þegar. En um marga þessa menn er það svo, að ekki er í annað hús að venda fyrir þá en til Alþingis um styrk. Þeir eru fæstir svo efnum búnir, að þeir geti kostað sig til náms erlendis af eigin ramleik nema að litlu leyti. Enn er enginn sjóður til, sem styrkir mentamenn í þessu skyni, og því verður útkoman sú, að svo margar styrkbeiðnir koma til þingsins, þar sem þó helst er von um einhvern styrk. Þá er og ekki nema eðlilegt, að meðal þeirra sjeu margir gáfaðir stúdentar og góðir námsmenn, sem við þekkjum til og teljum styrks verða. Að vísu er það svo, að embættin eru ekki svo mörg, að þeirra vegna sje þörf á að styrkja fleiri menn til náms, en hitt er alment viðurkent, að við höfum þó altaf not af mentuðum og dugandi mönnum. Þessi piltur, sem hjer er um að ræða, hefir meðmæli, sem eru alveg sjerstök í sinni röð. Það eru ekki þau venjulegu, um góða hegðun og ástundun og gott próf o. s. frv., sem að vísu einnig fylgja og eru í góðu lagi, heldur hafa samstúdentar Hólmfreðs, sem útskrifuðust ásamt honum 1927, öll og óbeðið skrifað undir áskorun til þingsins um að veita honum styrk. Jeg vil sjerstaklega vekja athygli á þessum meðmælum þessa stúdents, sem kveða mjög sterkt að orði og eru eftirtektarverð meðal annars vegna þess, að meðal þeirra, sem undir þessi meðmæli rita, eru einmitt nokkrir, sem hafa þá aðstöðu að keppa við hann um styrk frá Alþingi. Þeir segja svo meðal annars: „Hólmfreður er einhver hinn allra gáfaðasti og mesti námsmaður, sem við höfum kynst. Hann hefir auk gáfnanna til að bera fádæma nákvæmni og skapfestu, og er hví öllum öðrum, þeirra er við þekkjum, líklegri til vísindastarfsemi. Þótt gáfur hans sjeu fjölbreyttar með afbrigðum, hefir hann þó um langa hríð lagt sjerstaka stund á þá grein, sem hann nú hefir valið sjer til háskólanáms, og aldrei látið hugðarefni sín sitja á hakanum, enda mun orsökin til, að einkunn hans varð ekki hærri en raun varð á, einkum hafa verið sú“.

Og þeir bæta við: „Þegar styrk var úthlutað í vor, var það einróma álit vort, að Hólmfreður ætti að verða hans aðnjótandi, jafnvel þótt svo færi um einkunn hans í þetta skifti, að hún væri ekki næg, ef eingöngu væri farið eftir einkunnum umsækjenda, en það fullyrðum við, að gert hafi verið. — Hinsvegar álítum við það hlutverk Alþingis fyrst og fremst, ef það á annað borð sinnir nokkrum beiðnum um námsstyrk, að bæta úr heim misrjetti, sem menn geta orðið fyrir, ef þeim mælikvarða er eingöngu fylgt“.

Þannig farast þeim orð þessum stúdentum, sem verið hafa Hólmfreði samtímis í skóla, enda þótt þeir viti, að þetta gæti beinlínis stuðlað að því að fella fjárstyrk til sumra þeirra. Þessi meðmæli eru svo óvenjuleg og sjerstök í sinni röð, að jeg vil leyfa mjer að vekja athygli hv. deildar á þeim. Hjer hefi jeg að vísu meðmæli kennara og rektors, en þó að þau sjeu líka mjög góð, þá legg jeg þó meira upp úr þessum. — Jeg læt svo þetta nægja um þessa till. Jeg vænti, að hv. deild sjái sjer fært að samþ. hana, enda þótt jeg viti, að mörgum mun nú þykja nóg komið af slíku.

Þá á jeg hjer aðra brtt., undir XII. lið, við 15. gr., um að veita Guðbrandi Jónssyni 640 kr. uppbót á styrk þann, sem hann nú hefir, eða hækkun úr 1200 kr. upp í 1800 kr., og get jeg algerlega skírskotað til þess, sem hann hefir skrifað um þetta, og vísað til þess, er jeg hefi áður um þetta sagt.

Þá flyt jeg ásamt hv. 1. þm. G.-K. (BK) till. um 13500 kr. til girðingar um listasafnshús Einars Jónssonar. Eitt af því, sem Íslendingar hafa gert sjer mest til sóma, er það, hvernig þeir hafa búið að Einari og listaverkum hans, enda mun hann nú einhver hinn frægasti Íslendingur, sem nú er á lífi, og hefir orðið þjóð sinni til hins mesta sóma. En það, sem nú þykir helst á vanta, að vel sje frá þessu gengið, er girðing um húsið. Það er áætlað, að hún kosti 13500 kr. Hornstólparnir hafa þegar verið steyptir. Það má telja mjög nauðsynlegt, að þessi girðing verði komin upp fyrir 1930, og til þess að það geti orðið, þarf að veita til þess í fjárl. fyrir árið 1929. Nú hefir mjer verið sagt, að fjvn. muni hafa skrifað stj. um þetta; og ef svo væri, vænti jeg, að stj. sjái um framkvæmdir í málinu, og gæti jeg þá tekið till. aftur, en jeg bíð eftir að heyra frá stj. eða frsm. fjvn., hvort þetta er rjett. — Nú segir einn hv. þm. úr fjvn. mjer með látæði, að ekkert hafi verið gert í nefndinni í þessu, og heldur þá till. auðvitað áfram. — Það má telja víst, að árið 1930 leggi margir leið sína upp í listasafnshúsið til að skoða safnið, og jeg sje ekki, að við getum verið þektir fyrir að láta hjá líða að laga þetta. Það er líka miklu betra að gera þetta sem fyrst heldur en að flaustra því af þegar í eindaga er komið. Jeg álít, að þetta sje nokkuð, sem ekki verði komist hjá að gera, hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki. Það er nú einu sinni síður að halda sjer til fyrir gestum, en hvað sem því líður, þá er okkur það sómi, hve vel við höfum búið að þessum ágæta listamanni, og ættum við ekki að setja blett á það með því að láta vanta sómasamlega girðingu um húsið og blett þann, er því fylgir. Vil jeg beina því til hv. þm., sem komið hafa upp að húsi Einars Jónssonar, hvort þeim þykir ekki þörf á þessu.

Þá á jeg enn brtt. undir XX. lið, um 6500 kr. styrk til Byggingarfjelags Reykjavíkur, Samvinnuhlutafjelags. Það hefir staðið í fjárl. styrkur til þessa fjelags, en bundinn því skilyrði, að bæjarsjóður legði fram styrk á móti, en það hefir bæjarsjóður ekki enn gert. Þetta fjelag hefir gert fyrstu myndarlegu tilraunina til að koma hjer upp góðum og hollum verkamannabústöðum, með auknum þægindum og betri en hjer höfðu þekst áður. Það hóf líka starfsemi sína þegar þörfin var mest fyrir aukinn húsakost hjer í bænum, og jafnframt á dýrasta tíma, og hafa því húsin orðið dýrari en ella. Þessi byrjun, sem það hefir gert, hefir fætt af sjer mikið aukið húsnæði í bænum, sem komið hefir á eftir, svo sem hús Landsbankans við Framnesveg, og margt mætti fleira telja. Vegna þess hvað lítið fjelagsmenn gátu lagt fram í byrjun, varð að lifa mikið á lánum, og voru þau mjög dýr. Þau eru með víxlavöxtum og eru framlengd með um 8%. Þessi erfiðu lánskjör, sem fjelagið varð að sæta, stöfuðu af því, að lánsstofnanirnar höfðu ekki fje til að lána út á 1. veðrjett með sæmilegum kjörum. Þá voru veðdeildarbrjefin svo langt niðri, að 100 kr. brjef seldust á 75 kr., ef hægt var að koma þeim út. Bankinn hafði ekkert fje til að kaupa brjefin fyrir og þeir, sem gátu keypt, notuðu sjer aðstöðuna til að fá þau fyrir lítið verð. Þessum kjörum varð fjelagið að sæta. En jeg fullyrði, að það vann mikið nauðsynjaverk, því að þörfin fyrir aukið húsnæði var þá einna brýnust. Hitt viðurkenni jeg fyllilega, að fjelagið hefir fengið styrk áður, bæði úr ríkissjóði og bæjarsjóði, en sá styrkur hefir ekki verið nálægt því eins mikill eins og tíðkast í nágrannalöndunum að veita slíkum fjelögum. Vitanlega er ekki ætlast til, að þessi liður standi óbreyttur áfram. Heldur er aðeins farið fram á þetta til þess að borga af lánum fjelagsins, því meðan lánin eru svona há og meðan vaxtakjörin eru svona erfið, er ekki auðvelt að færa niður leiguna, en að því þarf fjelagið þó að stefna. Jeg mun svo láta hjer staðar numið og ekki nema að gefnu tilefni taka til máls aftur.

Raunar flyt jeg hjer enn eina till. ásamt hv. 1. þm. G.-K., um utanfararstyrk til dr. Helga Pjeturss. Jeg játa það, að þegar till. kom um að veita honum 6000 kr. í 18. gr., þótti mjer það of hátt og greiddi atkvæði á móti því, einkum vegna þess, að jeg taldi, að margir aðrir ekki síður verðugir rithöfundar mundu koma á eftir. Jeg sagði það þá við einhverja deildarmenn, að jeg mundi verða því fylgjandi, að honum yrði veittur sjerstakur styrkur til utanfarar. Það, að komast utan, er það, sem hann þarfnast mest og kvartar mest um að geta ekki. Jafnvel þótt jeg álíti hitt ekki of mikið honum til handa, þá þótti mjer það óheppilegri leið, vegna þess að það hefði dregið þann dilk á eftir sjer, að við hefðum orðið að veita öðrum samskonar hækkanir á eftirlaunastyrk.

Þá á jeg eina till. á þskj. 700, um styrk til Guðmundar Kambans, 2000 kr. Þessi rithöfundur hafði komið inn í Nd. með 2500 kr. styrk, en var feldur hjer við 2. umr. Jeg er hræddur um, að hv. þdm. hafi kannske ekki athugað, hvernig ástatt var. Nú er það lægri upphæð, sem jeg fer hjer fram á, svo að jeg vona, að hv. þm. samþykki hana. Þessi rithöfundur hefir nú um langt skeið verið mjög mikið veikur, og er alveg nýkominn aftur svo til heilsu, að hann getur farið að vinna. Nú hefir hann hugsað sjer að semja stórt íslenskt skáldrit. um efni frá 17. öld, og ætlast á, að það verði um 1000 síður að stærð. Til þess verður hann að ferðast hingað heim og rannsaka heimildir í Landsbókasafninu, og hefir farið fram á 2400 kr. styrk í því skyni. Þessi rithöfundur er svo þektur og jeg vil segja frægur, að jeg álít, að Alþingi geri rjett í því að veita honum nokkra viðurkenningu sem rithöfundi. Jeg man nú ekki í svipinn, hvort hann hefir áður fengið einhvern styrk, en það hefir þá aðeins verið mjög lítið.

Það er kunnugt, að hann hefir fengist við leikritagerð og hefir vakið mjög mikla athygli á Norðurlöndum. Hann var hjer einnig á síðastliðnum vetri og sýndi þá eitt leikrit sitt, sem mönnum fanst mikið til um.

Auk þess, sem nú var getið, hefir hann einnig lagt fyrir sig stjórn leikhúsa, og eftir því, sem talið er, farist það vel úr hendi. En sjerstaklega mun hann þó, ef hann kemst til fullrar heilsu, eiga eftir að skrifa margt það ritverk, sem gerir garðinn frægan. Jeg ætla ekki að svo stöddu að mæla fleira fyrir þessari tillögu og læt það ráðast, hvernig atkvæði falla um hana, en jeg teldi það mjög nauðsynlegt, að þessum styrk væri ekki synjað; jeg held, að þessum rithöfundi myndi tæplega takast að sinna þeim ritstörfum, sem hann ætlar að fást við, nema því aðeins, að hann fengi einhvern styrk.

Jeg hefi þá minst á þær tillögur, sem jeg er flm. að eða meðflm., og mun láta það nægja. Jeg mun ekki hafa nein orð um hinar aðrar brtt. við fjárlögin, en sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á þær.