30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Ólafur Thors:

Jeg verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. forsrh. skuli vera á móti því, að þetta mál verði athugað í nefnd. Jeg skal fúslega gefa þá yfirlýsingu, að mjer er ekki fullljóst, hvernig málið liggur fyrir. Jeg hefi ekki enn kynt mjer það nægilega.

Þess mun vera full þörf, að málið fái þá meðferð, sem yfirleitt er ætlast til samkv. þingsköpum. Því til sönnunar vil jeg til dæmis geta um tvö tilfelli, sem komið hafa fyrir á þessu þingi, og er annað þeirra frá sjútvn., sem jeg á sæti í Sjútvn. Nd. fjekk send tvö frv. frá hv. Ed. Þau voru bæði frá sama flm., sama nefnd hafði fjallað um þau og bæði höfðu þau sætt venjulegri meðferð og gengið gegnum allar umr. En þó voru þau svo úr garði gerð, að ef bæði næðu fram að ganga og yrðu að lögum, mætti svo heita, að annað eyðilegði höfuðatriði hins. Þetta hafði þeim sjest yfir, hv. flm., nefndinni og allri Ed. Jeg veit ekki, hvort jeg má bera það traust til þessarar hv. deildar, að hún sje það glöggskygnari, að hún hefði sjeð þessar misfellur, ef málin hefðu ekki verið athuguð í nefnd.

Hitt málið, sem jeg tek til dæmis, kom til hv. fjhn. sömuleiðis afgreitt af hv. Ed. án þess á það hefði verið bent, að forsendur flm. voru raunverulega rangar að því leyti, að háttv. flm. skýrir frá því, að frv. sje borið fram til þess að afla ríkissjóði tekna, en hann miðar við alveg óvenjulegt ár og byggir þannig á skökkum forsendum og fær þar af leiðandi niðurstöðu, sem ekki stenst próf reynslunnar. Sje miðað við meðaltal undanfarinna ára, kemur það í ljós, að frv. yrði sem lög til allverulegs tekjumissis fyrir ríkissjóð. Mjer finst, þegar dæmin eru þannig deginum ljósari um skeikulleika hv. Ed., þá megi ekki minna vera en málum, sem þaðan koma, sje vísað til nefnda undantekningalítið, og undantekningarlaust, ef um nýmæli er að ræða, og vænti jeg þess, að hæstv. forsrh. geti sætt sig við það.