04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

1. mál, fjárlög 1929

Einar Árnason:

Af því að það eru nokkrir deildarmenn við, vildi jeg nota tækifærið til þess að segja frá því, að jeg hefi flutt hjer á þskj. 695 þrjár brtt. við fjárlagafrv. Það dylst nú ekki, að allar þessar brtt. eiga nokkuð skylt við styrki til einstakra manna. Þegar fjárlagafrv. var til 2. umr., þá fluttu allmargir deildarmenn tillögur, sem voru svipaðs eðlis eins og þessar, sem jeg flyt nú. Jeg vildi ekki í það sinni flytja neinar brtt. um styrki til einstakra manna, vildi gjarnan sjá, hve deildin væri örlát í því efni. En sú varð raunin á við 2. umr. fjárlagafrv., að mjer finst jeg hafa nokkra ástæðu til þess að ætla, að hv. deild muni ekki taka því neitt illa, þótt jeg fari fram á það við hana, að hún taki nú vel í það að veita nokkrum mönnum styrk, fleirum en þeim, sem þegar er veitt. Það er sem sje langt frá því, að nú þegar sjeu tæmdar þær umsóknir, sem fyrir þinginu liggja um styrki frá einstökum mönnum.

Fyrsta brtt. mín er þess efnis að veita Jóhanni Sveinssyni styrk til háskólanáms í uppeldisfræðum, 1200 krónur, en jeg hefi sett til vara 1000 krónur, af því að það hefir að nokkru leyti myndast sú regla hjer í þessari hv. deild, að þessir námsstyrkir sjeu ekki yfir 1000 krónur.

Það er nú um þennan mann að segja, eða sjerstaklega námsferil hans, að hann mun hafa byrjað nám í kennaraskólanum og tók þar mjög gott próf. Eftir það stundaði hann barnakenslu um hríð, til þess að hafa ofan af fyrir sjer; hann hefir ekki haft styrk neinstaðar að, en hann hefir mikla löngun til að mentast og stundaði síðan nám hjer við mentaskólann og tók þar próf árið sem leið og hefir svo í vetur verið í heimspekideild háskólans.

Það, sem þessi maður hefir sjerstaklega lagt stund á og óskar að leggja stund á, er að kynna sjer uppeldisfræði. Hann hefir í hyggju að stunda nám við háskóla í Þýskalandi, ef hann getur fengið styrk til þess. Jeg veit ekki til, að við eigum neina menn, sem tekið hafa háskólapróf í þessum fræðum, og myndi þá ekki fjær að fá mann, sem væri vel að sjer í þeirri grein, en ýmislegt það, sem þingið hefir styrkt menn til að stunda við erlenda háskóla. Jeg skal geta þess, að þessi maður hefir fengið mjög góð meðmæli og fylgir umsókninni einnig umsögn skólastjóra kennaraskólans.

Jeg skal svo ekki eyða fleiri orðum um þennan mann, heldur snúa mjer að annari brtt. minni. Hún er um það, að þingið veiti Benedikt Elfar söngmanni 3000 kr. styrk árlega til þess að halda uppi söngkenslu á Akureyri. Þessi maður hefir sent þinginu umsókn um þetta, og fylgja umsókn hans meðmæli margra góðra borgara á Akureyri, og auk þess fylgja vottorð ýmsra manna í Svíþjóð, þar sem hann hefir stundað söngkenslu undanfarið, svo og blaðaummæli frá Svíþjóð, sem öll benda í þá átt, að maðurinn sje mjög vel fær til þessa starfs. En ástæðan til þess, að farið er fram á styrk handa honum til að halda uppi þessari kenslu á Akureyri, er sú, að í svo fámennum bæ sem Akureyri getur þetta vitanlega ekki orðið lífsuppeldi fyrir hann, en hinsvegar má teljast nauðsynlegt að halda þessari fögru list uppi þar, ekki síður en annarsstaðar. En fái þessi maður ekki styrk, þá býst hann ekki við að geta haldið áfram að starfa þar, og verður þá að leita annað eftir atvinnu, og þá sjerstaklega til útlanda, til þess að geta haft ofan af fyrir sjer með söngkenslu.

Þá er þriðja brtt. mín. Hún er um það að veita Freymóði Jóhannssyni 1000 kr. Styrk til framhalds listmálaranámi, og að þessi styrkur sje lokastyrkur. Ef til vill minnast einhverjir deildarmenn þess, að síðasta þing veitti þessum manni ofurlítinn styrk, og með þeim styrk sigldi hann á síðastliðnu ári. Hann hefir stundað nám í vetur við konunglega leikhúsið í Höfn og starfar þar aðallega að leiktjaldamálun. Nú hefir hann skrifað þinginu og kveður sig þurfa að halda áfram námi, eftir að hann hefir lokið því á konunglega leikhúsinu. Áform hans er nú að fara til Berlín eða París, en skortir fje til, því að maðurinn er efnalaus, en hinsvegar ákaflega duglegur og fær í sinni íþrótt. Jeg vildi þess vegna mæla með því, að honum væri veittur þessi styrkur í þetta sinn. Jeg er þess fullviss, að hann fer ekki oftar fram á styrk í þessu skyni, og jeg er þess líka fullviss, að hann mun nota þennan styrk vel, því að maðurinn er þannig gerður, að hann legst allur á það, sem hann tekur fyrir, og er sjerstaklega áhugasamur um það að ná sem mestri fullkomnun.

Jeg býst ekki við, að það hafi mikil áhrif á atkvæðagreiðsluna um þessar brtt. yfir höfuð, hvort um þær er talað lengur eða skemur, og þess vegna skal jeg ekki þreyta deildina á lengri ræðu um þetta efni, og ekki heldur fara að ræða brtt. einstakra þingmanna. Það er aðeins eitt atriði, sem jeg vildi minnast á, sem er almenns efnis.

Þetta atriði er það, að jeg tel mjög óheppilegt, að sú regla skuli viðgangast og vera orðin eins rík og á sjer stað hjer á þingi, viðvíkjandi fjárlögum, að menn skuli þurfa að fást við sömu afturgöngurnar fund eftir fund. Jeg vildi, að sú regla yrði tekin upp, að brtt. megi ekki bera upp aftur um sama efni, ef hún hefir áður verið feld í sömu deild. Nú hefir sú venja komist á, að það megi altaf bera upp sömu brtt., þótt hún hafi verið feld áður, aðeins með annari fjárupphæð. Ef til vill þykir þetta of mikil þröngsýni, en jeg get ekki sjeð betur en að það sje fullkomið rjettlæti í því að setja þarna nokkrar hömlur, því að það er töluvert annað að bera upp tillögur, sem hafa í för með sjer aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, heldur en tillögur á öðrum sviðum, og mjer þætti ekkert óeðlilegt, þótt einhverjar hömlur yrðu settar um slíkar tillögur.