30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla aðeins að leiðrjetta þann misskilning, er kom fram í ræðu hv. þm. Vestm., þegar hann sagði, að með frv. þessu væri verið að hefta gagnrýningu á opinberum fyrirtækjum. Þetta er ekki rjett, nema að því leyti, sem slíkar umræður eru órjettmæt árás á samvinnufjelög eða opinber fyrirtæki. Ef hv. þm. telur ekki rjett að samþykkja þetta, þá hefir hann þar með tekið hlutdræga afstöðu til málsins nú þegar, þar sem hann þá ekki vill, að þessi fyrirtæki njóti sömu rjettarverndar og einstaklingar. Ætti hv. þm. ekki að sækja það fast, að málið gangi til nefndar, þar sem hann hefir lýst afstöðu sinni til þess, áður en sjálft málið er tekið til umr. hjer í deildinni.