30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2890 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Sigurður Eggerz:

Jeg þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann hefir gefið mjer alveg ótvíræð svör um það, að hans frv. hvílir á reglu nr. 2 á þskj. 336. En ef svo er, er enginn vafi á því, að með þessu frumvarpi er verið að rýra þá rjettarvernd, sem borgararnir eða umrædd fjelög hafa haft fyrir blaðaáreitni. Því að ef þessi skilningur verður lagður í frumvarpið, þá er ekki hægt að dæma skaðabætur, nema sönnur sjeu færðar á, að tjón hafi orðið af ummælunum. Í flestum tilfellum mun ekki hægt að færa þessar sannanir. Um þá dóma, sem hæstv. dómsmrh. hefir gert að umræðuefni, get jeg ekki rætt hjer, því jeg hefi ekki rannsakað þessa dóma. Hitt er kunnugt, að í hitamálum hættir þeim aðiljanum, sem tapar, við að vera þungorður í garð dómstólsins. Jeg er sjálfur gamall dómari og veit því, hvað oft er mikið álitamál. hver úrslitin skuli verða. Auðvitað eru lögin stundum skýr og ótvíræð, þegar orðin rúma aðeins eina leið. En oftast rúma orðin fleiri leiðir. Þá koma hin „sekunderu“ skýringarmeðul til greina, og gerist þá vandinn oft meiri. Þess vegna verða menn jafnan að vera afskaplega varfærnir um að segja nokkuð um það, hvort einn dómur er rangur, fyr en öll gögn hafa verið rannsökuð vandlega, svo að maður geti fylgst með dómaranum á þeim ýmsu leiðum, sem liggja til úrslitanna.

Mjer finst, að eitt sje orðið algerlega víst, að þetta frv. sje ekki í röð þeirra mála, er sjeu svo ótvíræð, að það sje fyrirfram víst, að ekki þurfi að gera annað en rjetta upp hendina til að láta það ganga fram. Lögfræðideild háskólans segir, að annað felist í frv. en hæstv. stjórn segir. Jeg álít, að þær umræður, sem hjer hafa farið fram. sjeu orðnar örugg sönnun þess, að málið þurfi að fara í nefnd, og vil jeg nú skjóta því til hæstv. dómsmrh., til þess að jafna deilurnar í dag, hvort hann geti ekki fallist á það, eftir ósk margra manna í þessari hv. deild, að málið sje látið fara til nefndar. (Dómsmrh. JJ: Málið hefir verið í nefnd). Jeg veit, að hæstv. dómsmrh. hefir vald á því að láta málið fara frá umræðu til umræðu án rannsóknar, en jeg held, að það sje hyggilegt fyrir þá, sem völdin hafa, að banna það ekki, að skynsamleg athugun megi fram fara áður en til úrslita kemur. Eitt hafa menn að minsta kosti ekki alment gert sjer ljóst, og það er, að ef þetta lagafrv. hæstv. stjórnar verður samþykt, þá geta þeir menn, sem ekki kunna að haga orðum sínum eins og vera ber, orðið rjetthærri en áður. (Dómsmrh. J.J: Hvernig var það með pjesa Björns Kristjánssonar?). Hæstv. ráðh. má ekki biðja mig að tala um mál, sem jeg hefi ekki rannsakað. (Dómsmrh. JJ: Þá ætti hv. þm. ekki að vera að tala um þetta mál). Hvernig er hægt að heimta það af þm., að hann kunni alla dóma og tilheyrandi málsskjöl utan að og væri reiðubúinn að fella sinn sleggjudóm um alla dóma, sem framkvæmdir hafa verið í landinu? Ef nokkuð er hættulegt fyrir þjóðina, þá er það það, að skapist grunsemd og ótrú á æðsta dómstóli hennar, og ekki mun jeg verða til þess að „skjóta skörpu“ að þeim dómstóli, fyr en jeg þá hefi sannfært mig um, að þar sje eitthvað annað á ferðinni en ætti að vera.

Jeg efast um, að það hafi verið tilgangur hæstv. dómsmrh. að koma fram með meiri rjettarvernd en þá, sem verið hefir, fyrir þá menn, sem misnota orð sín á prenti. (Dómsmrh. JJ: Það er sama rjettarvernd og Björn Kristjánsson hefir haft).