30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2892 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Magnús Jónsson:

Af þeim tveim stuttu ræðum, sem jeg hefi flutt, var að minsta kosti hin fyrri athugasemd um þingsköp, og jeg gerði þá aðeins tillögu um, að málinu væri vísað til nefndar. Vona jeg því, að hæstv. forseti vægi mjer, þó að jeg flytji nú lengri ræðu en sem svarar athugasemd.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri óvanalegt að vísa máli til nefndar eftir 2. umr., — en hvers vegna er hjer stungið upp á því, sem er óvanalegt? Það stafar af hví, að það var byrjað á því með þetta mál, sem er óvanalegt: því var ekki vísað til nefndar við 1. umr., og er það rangt af hæstv. stjórn, að hún skuli hyllast til þess að hespa mál gegnum umræður án þess að þau gangi til nefndar. Þetta mál var til 1. umr. daginn sem jarðarförin mikla var hjer. Var það flutt til á dagskránni, og kom þannig til umr. fyr en ýmsir þm. voru mættir á fundi. Það er mjög undarlegt, ef þessi sjerstöku atvik mega ekki teljast nægileg ástæða til að vísa málinu til nefndar á þessu stigi, en annaðhvort ætti að gera, að greiða atkv. um málið og vísa því svo til nefndar, eða, sem best ætti við, að fresta umr. og vísa því til nefndar.

Það er alveg rangt, sem hæstv. dómsmrh. skaut að hv. þm. Barð., að það væri búið að skera úr því, hvort málið ætti að fara til nefndar. Það var aðeins fyrir athugaleysi þingmanna, að málinu var ekki vísað til nefndar þegar við lok 1. umr., en þingsköp mæla svo fyrir, að máli megi vísa til nefndar á hvaða stigi sem er, jafnvel þótt væri í byrjun 3. umr. Jeg ætla þess vegna að hafa það fyrir satt, ef hv. deild beitir þeim hörkubrögðum að vísa málinu ekki til nefndar, að þá sje þessi leikur gerður með ráðnum huga frá unnhafi.

Jeg sakna þess mjög, að hæstv. dómsmrh. skuli vera horfinn úr deildinni, því að jeg varð svo glaður við að sjá hann, en það er annars ákaflega sjaldan, að hæstv. ráðh. er hjer. Hann er líka farinn að leggja það í vana sinn að koma þá fyrst, er flestir þeir eru „dauðir“, sem við hann hefðu viljað tala, og gerir því ekki annað en tala yfir dauðra manna gröfum. En úr því að hæstv. forseti leyfir mjer að tala, þá vil jeg gera það. (ÓTh (lítur inn í ráðherraherbergið og sjer dómsmrh. sitja þar): Ráðherrann er viðstaddur). Hæstv. dómsmrh. hefir í háttv. Ed. talað ákaflega óvarlega um hæstarjett. En það ættu allir góðir menn að vera samtaka um að vernda virðing manna fyrir þeim dómstóli og auka veg hans, því að á því getur mikið oltið fyrir þjóðina, að dómar hans sjeu óvjefengdir. Ætti því enginn að leyfa sjer óvarleg ummæli um dóma hæstarjettar, nema sjerstaklega brýna nauðsyn beri til. En tífalt verður þetta brot, er í hlut á sjálfur dómsmálaráðherrann, sem talar frá virðingarsæti sínu á Alþingi og hann þar talar um það, að dómar hæstarjettar sjeu hver ofan í annan, því að slíkt er óvenjulega vel til þess fallið að vekja tortryggni á þeim dómstóli, að jeg ekki tali um það, sem hæstv. ráðh. endurtók hjer, að hæstirjettur hefði framið „justits“-morð. Við skulum nú athuga, hvað meint er með orðinu „justits“-morð. Það er hin ljótasta athöfn, sem veraldarsagan hefir frá að segja. Það var t. d. „justits“-morð, þegar Napoleon Bonaparte ljet taka mann nokkurn af konungsættinni, varpa honum í fangelsi, dæma hann til málamynda og skjóta. Það var líka „justits“-morð, þegar afturhaldsstjórnin á Spáni ljet taka Ferrar höndum og lífláta hann, og það átti líka að fremja „justits“-morð á Dreyfus, þó að það tækist ekki. Og þetta endurtekur hæstv. dómsmrh. í báðum deildum, að hæstirjettur Íslands hafi gert. Þetta er svo afskaplegt, að mann setur hljóðan við. Jeg veit ekki, hve mikið hæstirjettur mætti til þess vinna, áður en maður slepti slíkum orðum út úr sjer um hann.

Það er alkunnur sannleikur, að sá aðili, sem undir verður í málaferlum, á erfitt með að sætta sig við úrslitin og telur dóminn rangan. En á því taka menn lítið mark. Menn treysta dómstólunum betur. Þess vegna þarf ekki heldur neinn að taka til þess, þó að núverandi hæstv. dómsmrh. sje að nöldra út af dómsúrskurðum, þar sem Samband íslenskra samvinnufjelaga varð undir að hans dómi. En hitt er verra, er sami maður fer að lýsa yfir því úr ráðherrastóli dómsmrh., að hæstirjettur fremji „justits“-morð.

Þá er það dómur sama ráðherra um prófessora lagadeildar, að þeir sjeu ekki vitnisbærir. Er það af meðfæddri heimsku, eða eru þeir svona afarþekkingarsnauðir? (Dómsmrh. JJ: Nei, vegna þess, að þeir hafa dæmt þessa dóma). Nú, það er þessi sama gamla sök. Ákaflega má það vera einkennilegt, ef það eitt, að menn hafa verið með í að dæma eftir einhverjum lögum, sviftir þá allri dómgreind um þau lög. Af því að lagaprófessorarnir hafa verið með í að dæma dóma eftir þessum lögum, þá eru þeir óvitnisbærir um það, hvað þau fela í sjer, og hvort frv. sem hjer liggur fyrir, gerir breyting á rjettarástandinu eða ekki. Jeg veit ekki hvernig svona hugsanaþráður er spunninn. og jeg veit ekki heldur, hvernig það hefir átt að geta ruglað þeirra skilning, þótt þeir hafi tekið þátt í þessum mjög vafasömu, og að því er hæstv. ráðh. segir, jafnvel alröngu dómum, sem hjer er um að ræða.

Hæstv. ráðh. tók hjer til dæmis þrjú mál. Fyrst var mál það, sem Ólafur Briem höfðaði f. h. Sambands íslenskra samvinnufjelaga gegn Birni Kristjánssyni, annað mál Garðars Gíslasonar stórkaupmanns gegn ritstjóra Tímans, fyrir ummæli um hrossaverslun hans, og svo þriðja málið, sem jeg veit ekki, hverjir aðiljar voru að. Jeg veit ekkert, hvaða mál það er, en hin málin voru svo stór og vöktu svo mikla athygli, að alþjóð manna þekti þau töluvert. Jeg ætla nú að reyna að leitast við að sýna það, að það er alveg fjarri sanni, þegar hæstv. dómsmrh. segir, að farið hafi verið eftir sinni reglunni í hvort skiftið. Það var að vísu komist að sinni niðurstöðunni í hvort skiftið, en þó farið eftir sömu reglu, þeirri, sem lagadeild háskólans álítur, að þetta frv. feli einnig í sjer. En áður en jeg vík að þessu, vil jeg þó minnast á eitt atriði, sem hæstv. dómsmrh. hefir vikið að. Hann þurfti sem sje að taka á milli tannanna einn best metna lögfræðinginn hjer í bænum, Jón Ásbjörnsson hæstarjettarmálafærslumann. Honum var ekki nóg að hafa hæstarjett og lagadeild háskólans í takinu. Hæstv. ráðherra sagði, að mjer skildist, að Jón Ásbjörnsson hafi átt að segja, að það væri rjettmætara eða eðlilegra, að nokkur gagnrýning ætti sjer stað á stofnun eins víðtækri og S. Í. S., heldur en á einstökum kaupmönnum. Jeg skal nú ekki dæma um það, hvort þetta er rjett haft eftir eða ekki, en mjer finst þessi dómur alveg rjettmætur og eðlilegur. Það sjá allir, að eftir því sem einhver stofnun verður víðtækari, eftir því sem fleiri hundruð eða þúsund manna eiga hag sinn undir henni, því viðurhlutameira er það, hvernig henni er stjórnað. Ef eitthvert fyrirtæki snertir aðeins fáa menn, skiftir það ekki eins miklu máli, hvernig það er rekið, en þegar það snertir þúsundir manna, fer það mál að horfa öðruvísi við.

Jeg vil í þessu sambandi benda á það, að hjer á þingi var fyrir skömmu til umræðu mál um opinber reikningsskil togarafjelaga, og var þá talað um, að margir ættu hag sinn undir þeim, og var því jafnvel haldið fram, að blaðamenn mættu hafa aðgang að aðalfundum þeirra, vegna þess að það, hvernig slíkum fjelögum væri stjórnað, væri hagsmunamál svo margra manna. Hjer kemur þessi sama hugsun fram, og er þó ekkert togarafjelag til, sem spennir jafnvítt og S. Í. S. Björn Kristjánsson taldi ýmislegt í tilhögun kaupfjelaganna og Sambandsins mjög varhugavert, og það var ekki nema alveg eðlilegt, að þær aðfinslur kæmu frekar fram um slíka stofnun heldur en ef um einstakling var að ræða.

En svo að jeg víki nú aftur að þessum tveim hæstarjettardómum, sem eiga svo mjög að reka sig hvor á annars horn, þá hefi jeg þá nú hjer fyrir framan mig prentaða, og verður ósanngirni hæstv. dómsmrh. best hrakin með því að lesa kafla úr forsendum beggja dóma. Vil jeg því, með leyfi hæstv. forseta, aðeins lesa kafla úr dóminum í fyrra málinu, viðvíkjandi skaðabótakröfu S. Í. S. til Björns Kristjánssonar. Segir þar svo í dómi hæstarjettar:

„Það hefir ekki verið sannað eða gert sennilegt, að hin átöldu ummæli hafi bakað áfrýjanda tjón, og verður skaðabótakrafan því ekki tekin til greina. Sekt sú, er gagnáfrýjanda ber að greiða, ákveðst 100 krónur í ríkissjóð, ella sæti hann einföldu fangelsi í 10 daga“.

Í hinu málinu eru ummæli hæstarjettar þessi, — með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er snertir skaðabótakröfu stefnda, sem hefir verið nægilega mótmælt í undirrjetti, þá hefir stefndi aðallega bygt kröfuna á tapi á hrossaverslun sinni árið 1924. Hefir hann lagt fram í málinu staðfestan útdrátt úr verslunarbókum sínum, er sýna gróða hans á hrossaverslun árið 1923, um 13000 kr., en um 14000 kr. tap árið 1924; en það verður að telja upplýst í málinu, að tap stefnda á hrossaversluninni 1924 sje aðallega af öðrum rótum runnið en hinum átöldu blaðagreinum. Að því hinsvegar athuguðu, að verslun með hross og aðrar landbúnaðarafurðir er og var, þegar framangreind meiðyrði og móðgunaryrði birtust, einn þáttur í atvinnurekstri stefnda, og ummælin eru til þess fallin að spilla áliti hans sem kaupmanns og fæla menn frá viðskiftum við hann, og að stefndi ennfremur hefir undir rekstri málsins gert það sennlegt, að þau hafi spilt atvinnu hans, ber að dæma áfrýjanda til þess að greiða stefnda skaðabætur, er eftir málavöxtum þykir hæfilega ákveðnar 5000 kr.“

Hjer sjest á þessu, að hæstirjettur fylgir nákvæmlega sömu reglu í bæði skiftin, athugar, hvort sennilegt sje, að viðkomandi hafi beðið skaða af ummælunum. Í öðru málinu er ekki talið sennilegt, að skaði hafi af hlotist, og því er ákærður sýknaður af skaðabótakröfum, en í hinu málinu þykir það sennilegt, að skaði hafi af hlotist, og þá eru dæmdar skaðabætur. Hvað vilja menn heimta meira samræmi? Hjer vantar því enga löggjöf, og ekkert skeikar um samræmi í dómsforsendum rjettarins. Það, sem hjer ætti þá að vanta, ef menn eru ekki ánægðir með dómana, er dómgreind rjettarins að meta líkurnar í hvort skifti til skaðabótagreiðslu, og því getur hæstv. dómsmrh. ekki breytt að neinu leyti með því frv., sem hjer liggur fyrir, en hæstv. dómsmrh. fer aðeins fram á að breyta þeim reglum, sem nú er talið, að gildi, og hann hefir heldur ekki sýnt fram á neitt ósamræmi í þessum dómum.

Nú verð jeg að segja það, eins og hv. þm. Dal., að ef þessi breyting er til einhvers, þá er hún til hins lakara. Ef fengin er föst rjettarvenja, þá er óráðlegt að breyta henni; þar að auki held jeg, að eins og frv. er nú og eins og hæstv. dómsmrh. hefir útskýrt það, þá sje það alt of kröfufrekt um það, hvenær hægt sje að dæma menn í skaðabætur. Það er sem sje nálega aldrei hægt að sanna það beinlínis, að fjárhagslegt tjón hafi hlotist af meiðandi ummælum. En það getur ekki talist ómaklegt, þótt þeir menn, sem vaða upp á einstaklinga eða fjelög, sem eiga stórfje á hættu, beri ábyrgð á ummælum sínum með fje sínu. En eins og frá þessu frv. er gengið, verður aldrei hægt að fá neinar slíkar skaðabætur, hvað sem á gengur. Hjer er því í raun rjettri frv. til laga um rjettarvernd fyrir blaðasnápa og lygalaupa og rógbera.

Það þýðir lítið fyrir hæstv. dómsmrh. að segja, að hæstirjettur hafi litið rangt á þessi mál. Það verður hver og einn að gera upp í sínum eigin huga, hvorir eru líklegri til að líta hlutlaust á þessi mál, maður, sem er tengdur öðrum aðilja og auk þess ekki lögfræðingur, eða þaulvanir dómarar, sem kynt hafa sjer öll málin og fylgiskjöl þeirra til hlítar.