25.01.1928
Efri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

35. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg kannast við þær ástæður á móti frv., sem hv. 3. landsk. hefir fram að færa. Þær hafa verið bornar fram á hverju þingi, síðan á annað borð var farið að ræða þetta mál. Jeg skal aðeins benda á, að það er ekki alveg laukrjett, sem hv. þm. sagði um þá menn í rakarastjettinni, sem eru á móti þessu frv. Hann sagði, að þeir hefðu unnið í sínum heimahúsum á kvöldin. Jeg þykist mega fullyrða, að þessir menn höfðu vinnustofur, þó að þær væru í þeirra eigin húsum eða íbúðum. En það er órjett og villandi að segja, að þeir hafi unnið „heima hjá sjer“, rjett eins og rakarastörfin hafi verið aukaatvinna þeirra. En það voru þau auðvitað ekki.

Þá segir hv. þm., að í frv. sje gengið of nærri „persónulegu frelsi manna“. Nákvæmlega það sama var sagt um búðalokunarlögin 1917. Þá þótti það svo óskaplegt að vera að knýja þá menn, sem aðeins ynnu með skylduliði sínu við verslanir sínar, til að loka þeim kl. 7. Þegar á að halda uppi reglu, er ómögulegt að gera slíkar undantekningar. Þó að það kynni að koma illa við einhvern fyrst í stað, venjast menn því, þegar búið er að koma á fastri reglu, enda veit hv. þm. (JÞ), að í öðrum löndum eru alstaðar fastar reglur um lokunartíma vinnustofa og engar undanþáguheimildir. Jeg sje því ekki, að mótbárur hv. þm. hafi við neitt að styðjast.