02.02.1928
Efri deild: 12. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

35. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg get ekki annað en leiðrjett misskilninginn, sem kom fram í ræðu hv. 3. landsk. Það er fullkominn misskilningur, ef hann heldur, að heimild fyrir bæjarstjórnir viðvíkjandi lokun sölubúða frá 1917 sje til þess að styðja innlenda vöru og iðnað í samkepni við erlenda vöru. Aðalatriðið í þeim lögum var að vernda það starfsfólk, sem vinnur í búðum, frá því að þurfa að standa þar frá kl. 7–8 á morgnana og fram undir 12 á kvöldin. (JÞ: Þetta sagði jeg nú ekki). Ja, þetta lá í orðum hv. þm. — Hann vitnaði einnig í stjórnarskrána. Mig skal þá ekki furða, þótt þetta sje viðkvæmt mál hjá hv. þm., fyrst hann telur það koma í bága við stjórnarskrána. En jeg skil nú ekki, að þessu sje í alvöru haldið fram. — Jeg álít það eigi einmitt að heyra undir bæjarstjórnir að setja reglur um það, hvernig skuli haga lokun sölubúða og vinnustofa. Það er einmitt vegna góðrar reglu í bæjunum, sem þetta er nauðsynlegt. Það er líka vinningur gagnvart starfsfólkinu. Er rjettlátt, að þeir menn, sem koma upp fullkomnum vinnustofum og leggja mikið í kostnað til þess að fullnægja öllum hreinlætisreglum, þurfi að halda starfsfólki sínu langt fram yfir venjulegan, almennan hættutíma, af því að einhver hefir sett upp dálitla kompu, sem hann sjálfur vinnur í?

En svo eru þetta ekki nein ákvæði í sjálfu sjer um lokun þessara vinnustofa. Það er lagt á vald bæjarstjórna, og þær verða að sjá svo um, að þau ákvæði, sem þær setja, sjeu sett með heill bæjarbúa fyrir augum. Þetta hygg jeg og, að myndi verða raunin á, og sje því ekkert varhugaverðara við að afhenda þeim þessa heimild heldur en þá heimild, sem felst í búðalokunarlögunum frá 1917.