02.02.1928
Efri deild: 12. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

35. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg sagði ekki nokkurt orð um það, að tilgangurinn með núgildandi löggjöf viðvíkjandi lokun sölubúða hefði verið sá, að styðja innlenda framleiðslu í samkepni við verslun með útlendar vörur. Jeg sagði þvert á móti alveg eins frá því og hv. 5. landsk., hver væri tilgangurinn.

En jeg benti á það, að löggjöfin hefir orðið til þess, enn sem komið er, að veita innlendri framleiðslu ofurlítil forrjettindi í samkepninni, nefnilega að menn eru frjálsir að því að bjóða innlenda framleiðslu á þeim tíma sólarhringsins, sem varnað er að hafa útlendar vörur á boðstólum. Jeg tel ekki óeðlilegt, að þessi litlu forrjettindi fyrir innlenda framleiðslu fái að haldast, þó að jeg viðurkenni hinsvegar, að þetta hafi ekki verið haft sjerstaklega fyrir augum, þegar löggjöfin var sett.