11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2911 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

35. mál, lokunartími sölubúða

Hákon Kristófersson:

Þetta er að vísu ekkert stórmál og hefir áður verið rætt hjer á Alþingi. Þó finst mjer, að vel mætti vísa því til nefndar. Hefi jeg áður verið því fylgjandi, að svo yrði gert. Jeg vil nú leyfa mjer að leggja til, að umr. sje frestað og frv. vísað til hv. allsherjarnefndar. Þykir mjer ekki ósennilegt, að breyta megi einhverju í því, t. d. á þann hátt, að þeim mönnum, sem eiga rakarastofur, væri heimilt að vinna sjálfum. Hinsvegar er ekki nema sanngjarnt, að takmörk sjeu fyrir því, hve lengi þeir megi láta sveina sína vinna.

Því hefir verið haldið fram, að hjer sje um alveg samskonar takmörkun að ræða og um lokun sölubúða. Jeg held þó, að þetta tvent sje dálítið ólíkt. Menn hafa oftast einhver ráð með að afla sjer nauðsynja sinna á daginn, enda mun lögunum ekki svo stranglega fylgt, að amast sje við því, þó að vörur sjeu afgreiddar eftir pöntun símleiðis, þó að komið sje fram yfir lokunartíma. En þetta frv. er einn liður í þeirri stefnu að banna mönnum sjálfsákvörðun þar sem einstaklingsrjetturinn á að vera óskertur.

Líklega verður frv. þetta að lögum nú, en mig furðar á því, að hv. þdm. skuli ekki hafa viljað sýna því þann sóma að vísa því til nefndar.