03.02.1928
Efri deild: 13. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

51. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ekki miklu að bæta við ræðu hv. þm. Snæf., en það eru þó fáein atriði, sem mjer virðist, að jeg geti eins vel tekið fram nú og við 2. umr.

Það skiftir töluverðu máli og er vert athugunar í sambandi við byggingu nýs varðskips, að það hefir auðsjáanlega orðið minna gagn að öðru varðskipinu, sem nú er til, en búist var við í fyrstu.

Jeg vil geta þess hjer, að skipstjórinn á Þór hefir nýlega skrifað stjórnarráðinu brjef, þar sem hann gerir ítarlega grein fyrir, hve Þór eigi örðugt með að annast landhelgigæsluna svo vel sje. Hann tilfærir m. a. 7 eða 8 dæmi um það, að hann hafi tapað togurum vegna ónógs hraða skipsins. Þetta þarf að athuga um leið og frv. hv. þm. Snæf. er tekið til meðferðar. Býst jeg við, að hv. þdm. þyki ríkið ekki hafa efni á að kosta alt árið strandvarnaskip, sem svo er ástatt um. Nú hefir Þór hvað eftir annað verið teptur frá gæslu vegna bilana, og undanfarinn hálfan mánuð hefir hann legið aðgerðalaus hjer í Reykjavík vegna vjelarbilunar.

Auðsjáanlega er töluvert lakara fyrir landið, að búið er að gera kaup á Þór, ef nú á að hverfa að því að byggja nýtt strandvarnarskip. Jeg get sagt hv. flm. það, að jeg veit, að ýmsir menn, og þar á meðal skipherrann á öðru varðskipinu, hugsa ekki hærra en svo, að ríkið verði að losa sig við Þór, ef nýtt skip er bygt. Þetta er einn möguleiki, og annar er sá, sem hv. flm. nefndi, sem sje að hafa Þór í gangi um vertíðina sem björgunarskip. En það er breyting á því hlutverki, sem í upphafi var honum ætlað. Hann hefir ekki uppfylt sitt hlutverk.

Út af því, sem hv. flm. sagði um erfiðleika þá, sem landhelgigæslan ætti við að stríða sökum misnotkunar loftskeytatækjanna, skal jeg geta þess, án þess að jeg sje þó nokkuð að seilast eftir lofi frá honum um sjálfan mig, að það vill svo til, að við erum sammála um það atriði, og hefi jeg í vetur rannsakað það, í samráði við þá menn, sem best þekkja til þess. Jeg hefi beðið formann nefndar í Nd. að flytja frv. um þetta efni, og verður því útbýtt í Nd. á morgun. Fjallar það um eftirlit loftskeyta á öllum veiðiskipum hjer við land, og er með því hafin leit til þess að finna ráð til þess, að veiðiskip geti notað loftskeyti, er nauðsyn krefur, þó að jafnframt sje komið í veg fyrir, að þeim sje beitt til að brjóta landhelgilögin, eins og hv. flm. hefir lýst. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þetta frv. mitt bæti að öllu leyti úr því mikla tjóni, sem misnotkun loftskeytatækjanna veldur, en það er þó allstórt spor í áttina til þess.

Jeg er ekki forviða, þó að hv. flm. þyki nú slælega varin landhelgin við Snæfellsnes. Úr því horni hafa áður heyrst kvartanir. Þegar hv. flm. kom á þing, sagði hann mjer það sama og nú, að mikið væri um ránskap við Ólafsvík. Þá var Þór bilaður, en Óðinn varð að vera við Vestmannaeyjar. Mjer kom þá til hugar, að nota mætti vitabátinn nokkurn tíma úr árinu til að verja landhelgina. Það varð úr, að stjórnin leigði vitabátinn til þess að vera við Snæfellsnes og Garðskaga. Hugsanlegt væri, að hann gæti einnig skroppið til Vestfjarða við og við. Það er nú engin raun komin á þetta enn, en jeg þykist vita, að með því sje að nokkru bætt úr þeirri þörf, sem hv. flm. gat um. Hinsvegar er mjög vafasamt, hvort skip, sem ætti að verja Vestfjörðu alla, gæti bætt úr þörfinni, því að þann tíma úr árinu, sem heppilegast er að veiða við Ólafsvík, koma togararnir inn í landhelgina á kvöldin, slökkva öll ljós og fara svo burt, þegar fer að birta. Það er því ómögulegt að verja þessi grunnmið, nema stöðugt sje vakað yfir þeim. Þó að jeg sje að vísu sammála hv. flm. um, að ríkið hljóti að láta byggja nýtt strandvarnaskip hið allra fyrsta, þá hygg jeg ekki, að það sje sú rjetta úrlausn fyrir Snæfellsnes. Jeg hugsa, að það reynist best, sem nú er byrjað á, að láta ódýran bát liggja við Snæfellsnes og Garðskaga. Það væri hugsanlegt að taka aðra fallbyssuna af Óðni og láta setja hana í þann bát. Annars skal jeg geta þess, að við Garðskaga kvað aldrei hafa orðið eins lítið vart við togara í landhelgi og í vetur.

Jeg ætla ekki að ræða einstök atriði frv. nú. En jeg álít, að ákvörðun eins og sú, sem gert er ráð fyrir í 3. gr. frv., geti ekki átt við í frv. eins og þessu. Til dæmis hafa Austfirðir verið alveg varnarlausir undanfarin ár, og nú í morgun kom nefnd þaðan til stjórnarinnar með málaleitun um það efni. Ef strandvarnaskipin eru bara tvö, er ómögulegt, að hver einstakur landshluti geti fengið loforð um, að altaf sje vakað yfir miðum hans.