13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2927 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

51. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Halldór Steinsson):

Eins og sjá má af nál. Sjútvn., er öll nefndin sammála um aðalkjarna þessa máls.

Saga botnvörpuveiðanna hjer við land er ekki löng. Í fyrstu voru það aðeins útlendir togarar, sem stunduðu veiði hjer við land. En ekki leið á löngu þar til kvartanir um ólöglegar veiðar þeirra í landhelgi komu fram. Voru þessar kvartanir meira yfir yfirgangi hinna útlendu botnvörpuskipa og skemdum þeim, er þeir gerðu á veiðarfærum fiskimanna, en yfir skemdum þeim, er þeir gerðu á fiskimiðunum.

Þetta var mjög eðlilegt, því að sjómenn voru lengi að átta sig á þeim skemdum, er landhelgiveiðarnar gera fiskimiðunum, af óvana við þessa veiðiaðferð. En það liðu ekki mörg ár þar til kvartanirnar fóru að verða almennar, og þegar komið var fram að stríðsbyrjun, var togaraflotinn farinn að gera talsverðan usla í landhelginni. Á þeim árum var hjer aðeins eitt varðskip frá Dönum, og eins og við var að búast, var sú gæsla alveg ófullnægjandi.

Árin 1914–19, eða meðan stríðið stendur yfir, má heita, að landhelgin sje alveg friðuð. Stunduðu þá aðeins innlendir togarar veiðar hjer við land, og voru þá miklu færri en nú, og sumir þeirra þar að auki teptir frá atvinnurekstri af völdum stríðsins.

Árið 1920 byrjar togaraútgerðin aftur, og með meiri krafti en nokkru sinni áður, bæði hvað útlenda og innlenda togara snertir, enda fjölgar innlendu togurunum mjög mikið. Frá árinu 1920 er svo íslenska landhelgin frjósamur en forboðinn akur, sem altaf er meira og meira ásóttur af útlendum og innlendum ránsmönnum. Afleiðing þessa er sú, að nýtt varðskin er bygt, sem sje Óðinn. Þótt því verði ekki neitað, að með byggingu þessa, nýja strandvarnarskips er mikil bót ráðin á landhelgigæslunni, þá má hinsvegar segja, að tiltölulega er gæslan litlu betri nú en í stríðsbyrjun. Togaraflotinn er nú stærri og ágangur meiri, en það leiðir af sjer þörf á aukinni landhelgigæslu. Ef íslenska, landhelgin á ekki að verða þurausin innan fárra ára, þá er það augljóst, að bæta verður landhelgigæsluna hið bráðasta.

Því hefir verið haldið fram af sumum mönnum, að framtíðarfyrirkomulag fiskveiðanna íslensku væri togaraútgerðin; mótorbátarnir, þilskip og smábátar væru aðeins áfangar á leið til þessa takmarks. Af þeim ástæðum beri ekki að sporna við veiðum íslenskra togara í landhelgi, enda veiti þeir mikið meira í aðra hönd en smábátaútvegurinn geti nokkru sinni gert. Jeg fyrir mitt leyti er vondaufur um, að togaraútgerðin verði framtíðaratvinnuvegur allra þeirra, er sjó stunda; staðhættir eru hjer þannig, að það fyrirkomulag mun seint komast á. Og þótt svo færi, er engu minni nauðsyn að gæta landhelginnar, því að veiðar í landhelgi eru engu síður dauði togaranna en smábátanna í framtíðinni. Nei, Íslenska landhelgin er sá fjársjóður, sem við verðum að verja í lengstu lög. Þótt Ísland sje svo stórt, að ætla mætti, að sveitirnar gætu fóðrað alla landsmenn, þá mundu margir sjómenn taka þann kost heldur að fara hjeðan heldur er. fylgja þeirri byltingu í atvinnulífinu, sem þessu yrði samfara.

Í frv. er gert ráð fyrir, að bygt verði nýtt strandvarnarskip. Jeg geng að því vísu, að með því verði ráðin mikil bót á landhelgigæslunni, en þrátt fyrir það verður vörnin langt frá því að vera fullkomin. Um byggingu þessa skips hefir sjútvn. ekki gert neinar áætlanir, þar eð hún telur, að það sje ekki í hennar verkahring. En jeg skal taka það fram, að það er persónuleg skoðun mín, sem byggist á áliti kunnugra manna, að þetta skip þurfi ekki að vera eins stórt og því ekki eins dýrt og Óðinn. Aðalatriðið er, að skip sem þessi sjeu hraðskreið og fari vel í sjó.

Í frv. er gert ráð fyrir, að eitt af varðskipum ríkissjóðs annist að staðaldri landhelgigæsluna á Breiðafirði og Faxaflóa. Jeg hefi áður bent á það, að lenghelgin er meira eftirsótt á þessu svæði en annarsstaðar, sökum fiskmergðar og fiskgæða, og því tíðust landhelgibrot þar. Meiri hl. nefndarinnar sá sjer ekki fært að ganga inn á þetta ákvæði. Þótti meiri hl. nefndarinnar í því ákvæði felast misrjetti gagnvart öðrum landshlutum. Hinsvegar hefir öll nefndin talið brýna þörf fyrir aukna landhelgigæslu á þessu svæði og leggur áherslu á, að úr henni verði bætt, þótt það sje ekki sjerstaklega ákveðið í frv. Hefir hún því lagt til, að 3. gr. verði feld niður.