13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2931 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

51. mál, landhelgisgæsla

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg sje ekki, að neitt sje athugavert við að samþykkja frv. þetta eins og það liggur fyrir, síst þar sem ekki er tímabundið, hvenær lögin sjeu framkvæmd. Jeg álít, að ekki sje gott að flýta málinu meira en góðu hófi gegnir, því að það þarf allmikinn undirbúning. Jeg tel varla líklegt, að þetta væntanlega skip geti tekið við strandgæslu að ári um þetta leyti, ef vel á að vanda til þess. Enginn má þó skilja orð mín svo, að jeg vilji á nokkurn hátt tefja fyrir málinu, enda bera Alþingistíðindin þess ljós merki, hver afstaða mín hefir verið í þessu máli. Jeg hefi ávalt haldið því fram, að landhelgigæslunni þyrfti að koma í sem fullkomnast horf og að hjer þyrfti að minsta kosti fjögur fullkomin skip til þess, að svo yrði, en enga litla og ferðlausa vjelbáta. Hjer er aðalatriðið að vanda sem mest til hins væntanlega skips, þótt það kunni að kosta einhverja bið. Hæstv. dómsmrh. hefir tekið af mjer ómakið um að gera athugasemdir við ummæli hv. frsm. um stærð skipsins. Jeg teldi mjög illa farið, ef þetta væntanlega skip væri haft minna en Óðinn. Þessi skip þurfa að geta verið á siglingu í hvaða veðri sem er, ekki fyrst og fremst til landhelgivarna, heldur til þess, sem enn mikilsverðara er, að bjarga mönnum og bátum í sjávarháska.

Jeg vil nú að vísu ekki halda því fram, að landhelgigæslan yrði allskostar fullkomin, þótt bygð yrðu fjögur strandgæsluskip. En jeg hefi ekki álitið fært að setja markið hærra kostnaðar vegna. Það er ekki stofnkostnaðurinn, sem hjer er stærsti liðurinn, heldur rekstrarkostnaðurinn. Tekjur af sektum minka eftir því sem landhelgigæslan verður fullkomnari og færri freista gæfunnar við ólöglegar veiðar. Þetta verða menn að gera sjer ljóst. Það er alveg víst, að rekstrarkostnaður fjögra skipa verður ekki undir ½ miljón kr. árlega. Þótt þetta sjeu óumflýjanlegar ráðstafanir, verðum vjer að gera oss ljóst, að þær hafa afarmikinn kostnað í för með sjer.

Hv. frsm. sagði, að landhelgigæslan væri ekki fullkomnari nú en hún hefði verið í stríðsbyrjun. Víst er um það, að fleiri lögbrjótar sæta sektum nú en þá. Ef þetta væri satt h.já hv. frsm., að strandgæslan hefði verið í betra lagi meðan eitt erlent skip annaðist hana heldur en nú, þegar gæslan hefir verið stórum aukin, þá virðist það ekki styðja þann málstað, að fjölga beri skipunum. En jeg tel ekki rjett á þetta litið. Jeg tel líka, að talsvert sje leggjandi upp úr gagnsemi af hinu erlenda skipi, sem vjer eigum kost á. Jeg held, að vjer verðum, af fjárhagslegum ástæðum, að láta nægja í bili að byggja eitt skip til viðbótar, en vjer verðum að gera oss ljóst, að enn er langt frá, að því marki sje náð, að gæslan sje fullkomin. Og menn verða að gera ráð fyrir, að erlendir lögbrjótar kunni enn að gerast nærgöngulir í veiðistöðvum þessa lands, og þótt það komi fyrir, er ekki rjett að áfella þing eða stjórn fyrir það. Menn hafa lengi orðið við slíkt að búa, en nú er tímabært að hefja undirbúning um byggingu þessa nýja skips.