25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2944 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Það er rjett, sem hv. flm. sagði í upphafi ræðu sinnar, að þetta frv. er gamall gestur í þessari hv. deild. Það hefir verið borið hjer fram á þingunum 1926 og 1927, og í bæði skiftin felt. Jeg hefi á báðum þessum þingum átt sæti í þessari hv. deild og í bæði skiftin lagst á þá sveif að eyða málinu. Mun jeg halda áfram uppteknum hætti og síst linast í sókninni um að halda því fram, að frv. þetta eigi að sæta sömu afdrifum og það hefir gert á undanförnum þingum.

Það hefir jafnan verið venja, að þegar til mála kæmi að skifta einhverju kjördæmi í tvent, þá lægi fyrir um það samþykki beggja aðilja, sem hlut eiga að máli. Það er að vísu rjett, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefir mælt með því, að skifting yrði lögskipuð, en hinu má heldur ekki gleyma, að hinn aðilinn, báðar sýslunefndir sýslnanna, er andvígur skiftingunni, og hafa sýslunefndirnar lagst eindregið á móti henni, enda verður því ekki neitað, að það eru sýslurnar, sem bíða mestan hallann við skiftinguna. En þrátt fyrir það, þó fyrir liggi meðmæli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að skifta kjördæminu á þennan hátt, að hafnfirskir kjósendur einir kjósi annan þingmanninn, þá er það opinbert leyndarmál, að allmikill hluti hafnfirskra kjósenda stendur á móti því, að kjördæminu verði skift.

Í þessu frv. er því eingöngu um kröfur jafnaðarmanna að ræða. Þeir hugsa sem svo, að verði það lögfest, að Hafnarfjörður verði einn um að velja annan þingmanninn, þá sje líklegt, að jafnaðarmaður verði kosinn.

Þeir halda því fram, jafnaðarmannaforingjarnir, að Hafnarfjörður eigi sanngirniskröfu á því, að skifting kjördæmisins verði lögboðin, og hafa þrásinnis reynt að rökstyðja það með atkvæðatölum þeim, er flokkarnir hlutu við aukakosninguna 1926.

Eins og kunnugt er, urðu úrslit kosningarinnar þau, að frambjóðandi jafnaðarmanna hlaut 958 atkv., en frambjóðandi Íhaldsflokksins 1318 atkv. Af þessu hafa jafnaðarmenn svo dregið þá ályktun, að ef listakosning hefði verið viðhöfð að þessu sinni og kosnir tveir þingmenn, þá hefðu jafnaðarmenn hlotið annað þingsætið.

Höfuðrök þeirra, sem með skiftingunni mæla, eru þá þau, að úr því að Alþingi hafi viðurkent rjettmæti hlutbundinna kosninga til Alþingis með því að lögbjóða þær fyrir Reykjavík, þá sje eðlilegt, að hið sama gildi um tvímenningskjördæmi, en ef svo væri, mundu jafnaðarmenn ráða öðru þingsætinu fyrir þetta kjördæmi.

Jeg skal ekki fjölyrða um, hver afleiðingin mundi verða, yrðu hlutbundnar kosningar lögboðnar í tvímenningskjördæmum, með þeirri kjördæmaskipun, sem nú er; en það er fullvíst, að slík fyrirmæli, ef gilt hefðu, mundu hafa losað margan hv. þdm. við óþægindi þingsetunnar, enda bert, að slík hlutbundin kosning í tvímenningskjördæmi fullnægir hvergi nærri rjettlætinu.

Annars vildi jeg benda á það, að jafnaðarmenn hafa ekki athugað sem skyldi, að atkvæðatölurnar, er fram komu við kosninguna í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1926, sanna ekkert um rjettmæti skiftingarinnar, því að langmestur hluti þeirra 800–900 kjósenda, sem ekki gátu neytt kosningarrjettar síns þá, voru bændur og íhaldsmenn. Aftur á móti höfðu Hafnfirðingar betri aðstöðu til kjörsóknar, og komu þeirra atkv. fram með tölu, eða því sem næst.

Á undanförnum þingum hafa margir framsóknarmenn fylgt jafnaðarmönnum að máli um þessa skiftingu. Þeir munu hafa eygt einhverja sanngirniskröfu til handa jafnaðarmönnum, bæði vegna þeirra upplýsinga, er fyrir lágu um atkvæðatölu jafnaðarmanna í kjördæminu, en einkum þó vegna hins, að jafnaðarmenn hafa talið framsóknarmönnum trú um, að Alþýðuflokkurinn færi vaxandi hröðum skrefum, og einkum þó í Hafnarfirði. Sjálfsagt hefir Framsóknarflokkurinn ljeð fylgi sitt með sársauka, því kjörorð þeirra hefir verið: að halda þungamiðju þjóðlífsins í sveitunum.

Mjer er því óblandið gleðiefni að skýra framsóknarmönnum frá, að nú hefir nýr dómur fallið í málinu. Atkvæðatölur síðustu kosninga slá því föstu, að jafnaðarmenn fari rangt með, er þeir segja flokk sinn stóran og stækkandi. Þær herma hitt, að flokkurinn sje lítill og minkandi.

Við síðustu kosningar er meðaltals atkvæðatala frambjóðenda jafnaðarmanna aðeins um 680, eða um 280 atkv. færri en frambjóðandi flokksins hlaut 1926. Samtímis hefir meðaltals atkvæðatala íhaldsmanna vaxið um 30 atkv., ef talin eru aðeins gild atkv. En rjettari mynd af hugarfari kjósenda kjördæmisins sjest, ef hinu er viðbætt, að frambjóðendur Íhaldsflokksins áttu um 150 atkv., er talin voru ógild, og voru á annað hundrað þeirra þannig, að kjósendur höfðu aðeins kosið annanhvorn frambjóðanda Íhaldsflokksins einan.

Sannleikurinn er því sá, að á 1½ ári fækkar atkv. jafnaðarmanna um 250, en atkv. íhaldsmanna fjölgar á sama tíma um 180 atkv.

Ef miðað er við hlutbundna kosningu, er rjett að geta þess, að jafnaðarmenn áttu ekki einu sinni greiddra atkv. við síðustu kosningar.

Af þessu er það bert, að nú geta framsóknarmenn gert það tvent í senn, að sýna sanngirni og jafnframt að fylgja meðfæddri tilhneigingu sinni til þess að halda þungamiðju þjóðlífsins í sveitunum.

Jeg vænti þá, að úrslit málsins verði þau, að frv. þetta fái að sofna hægt og rólega. En ef annað reynist, ef t. d. framsóknarmenn gegn sanngirninni verða til þess að flytja þungamiðju þjóðlífsins úr sveitunum í bæina, þá verð jeg að líta á það sem raunalega tilkynningu til alþjóðar um það, að Framsókn hafi keypt ráðherrasætin, en selt sannfæringu — að hún hafi lyft veldissprotanum, en gengið í ánauð og þrældóm.