25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2952 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Út af þeim orðum, sem hv. 2. þm. G.-K. hefir í þessu máli nú eins og fyr á þingi látið falla í garð Framsóknarflokksins, vil jeg ekki telja eftir mjer að minna á, að frá okkar sjónarmiði liggur það á bak við, að bæta aðstöðu bænda í þessu kjördæmi. Eins og sakir standa eru bændur ekki nema 1/6 eða svo af kjósendum. Ef Hafnarfjörður gengur frá, eru þeir 1/3 kjósenda. Þá geta þeir miklu betur notið sín en ella.

Annars voru það sjerstaklega þau orð hv. þm., sem hvöttu mig til að standa upp, er hann talaði um grímuklædda aðilja í þessu máli. Það, sem jeg vil minna á, er það, að þessi hv. þm. hefir sagt það í hv. deild — að mig minnir — og oft annarsstaðar opinberlega, hvað hann ætlaði að gera ef þetta ætti að koma til framkvæmda. Hann hefir marglýst yfir því, að þá ætli hann að koma til jafnaðarmanna og segja: viljið þið nú ekki koma með okkur íhaldsmönnum til þess að gera stórkostlega breytingu í kjördæmaskipuninni?

Það er því þessi hv. þm., sem er grímuklæddur í þessu máli, þar sem hann er að áfella okkur framsóknarmenn fyrir samstarf við jafnaðarmenn, en ætlar sjer sjálfur að stofna til miklu meiri samvinnu við þá.