25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Magnús Jónsson:

Það er í raun og veru óþarfi að vera að bæta neinu á það, sem hv. 2. þm. G.-K. hefir sagt um þetta frv. og hvernig það er til komið. Þeir komast aldrei hjá því, þeir háttv. bændur, sem utan um frv. ætla að standa, að þeir standa þar berstrípaðir frammi fyrir öllum landslýð með sína lítilmótlegu flokkapólitík og þar á ofan skammsýni. Þessi hugsjón, að bæta rjett Hafnarfjarðar, er nú ekkert annað en þunn og götug gríma, sem eiginhagsmunirnir og flokkapólitíkin skín í gegnum. Að grípa niður á einum stað, þar sem taka má sæti frá Íhaldsflokknum handa jafnaðarmönnum, en standa jafnframt á móti, að bætt sje úr órjetti annarsstaðar, þar sem bitinn handa jafnaðarmönnum mundi vera tekinn frá Framsóknarfl., það sjá allir, hvernig slíkt er undir komið. Sagt er, að á döfinni sje frv. um það, að sameina Seyðisfjörð og Norðfjörð í eitt kjördæmi, til þess að ná þar öðru sæti af íhaldsmönnum handa jafnaðarmönnum. En ef til vill þykir þeim svo, sem þar mundu asnaeyrun standa of langt út undan sauðargærunni til þess, að gerlegt sje að fara út í það.

Annars skal jeg alls ekki neita því, að það er mjög klóklegt af jafnaðarmönnum, út frá þeirra hugsunarhætti, að nota sína aðstöðu, þar sem þeir eru höfuðverslunarvara þingsins, og setja upp á sig sem allra mest, þegar þeir búast við svo góðum kaupanda.

Þetta frv. er einn liður í merkilegri sögu, sem að vísu væri gaman að rekja, en er óþarft hjer. En sagan byrjar með kosningunum í sumar. Þá var mikil gleði í herbúðunum yfir að hafa nú kveðið þetta ógurlega íhald niður, sem hafði setið að völdum nokkur ár. Og framsóknarmenn komu saman í bænum til þess að setja upp stjórn. Þetta var verk, sem sá flokkur hafði nú ekki getað unnið um nokkurra ára skeið, og reyndar aldrei fyr til fullnustu, svo að ekki var að furða, þótt þeir hefðu gaman af því. Hún var nokkuð há „Stemningin“ hjá þeim fyrst í stað. En þeir hafa orðið að reyna það þessir góðu menn, að þeir urðu að borga fyrir þessa skemtun eins og aðrar skemtanir. Og þetta frv., sem hjer liggur fyrir, mun vera eitt af því, sem stuðningsmennirnir, jafnaðarmenn, ætla að taka upp í þessa skuld. Jeg veit ekki neinar sönnur á því, en jeg hefi það fyrir satt, að það sje hreint skilyrði fyrir því, að jafnaðarmenn fylgi stjórninni fyrst um sinn, að hún styðji þá til þess að koma þessu frv. fram. Fleira fer í svipaða átt. Rjett áðan var verið að útbýta frv. um að færa niður aldurstakmark fyrir kosningarrjetti í málefnum sveita og kaupstaða. Frv. er borið fram um að lengja svefntíma á togurunum og að bæir fái forkaupsrjett að hafnarvirkjum, svo að fleiri geti fetað í fótspor Ísafjarðar. Yfirleitt drífa nú að reikningarnir, eins og verst er um mánaðamót hjá okkur hjer í Reykjavík.

Það er meiningin að nota aðstöðuna til þess að pressa stjórnina, sem á svo að pressa sína flokksmenn til þess að fylgja nú jafnaðarmönnum til allra laga og ólaga, sem þeim býður við að horfa. Við höfum hjer eitt dæmi mjög greinilegt, sem er krafan um að ógilda kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu. Jeg er hræddur um, að stjórninni hafi í því tilfelli reynst nokkuð margir fastir drengir fyrir í hennar flokki til þess að geta fylgt jafnaðarmönnum að ólögum. Er það aumlegt ástand að vera í stjórn og þurfa að óska þess, að hafa sem fæsta góða drengi í sínum flokki og sem flesta, er skipa megi hvað sem verkast vill. En það gæti verið, að þó að stjórnarflokkurinn þori ekki annað en halda samning sinn við jafnaðarmenn og styðja þá að þessari skiftingu, að gleðin yfir þessu sambandi færi að dofna áður langt liði. Því að það má sá góði stjórnarflokkur vita, að jafnaðarmenn eru ekki við eina fjölina feldir. Þeir þjóta sitt á hvað og sitja við þann eldinn, sem best brennur. Það getur verið, að þá langi í sæti frá Framsókn. Og jeg skal ekki segja, hvort Íhaldsflokkurinn gengi í það með þeim að lagfæra eitthvað kjördæmaskipunina í landinu frekar en hjer er fram á farið. En ef þingið á að fara að rjetta mola að jafnaðarmönnum, þá fer freistingin að verða mikil að taka málið alt til yfirvegunar. Og það er sannast að segja, að þar eiga bæði íhaldsmenn og jafnaðarmenn um allsárt að binda, bar sem kjördæmaskiftingin er, og eiga sameiginlega kvörtun fram að bera.

Jeg gæti trúað því, að þau tákn tímanna, sem hjer sjást, boði það, að ekki verði ýkjalangt þangað til flokkur hæstv. stjórnar fer að sjá, að hann er í raun og veru skiftur í tvo parta. Og það getur orðið styttra þangað til en menn grunar, að betri partur þess flokks varpi þeim lakari af sjer til jafnaðarmanna, en komi sjálfur í bandalag við okkur íhaldsmenn og alla góða menn á landinu til þess að standa móti uppvöðslu og ójöfnuði svokallaðra jafnaðarmanna í landinu. Margt skeður ólíkara á stjórnmálasviðinu.

Hæstv. forsrh. vildi andmæla því, að verið væri að færa þungamiðju kjördæmisins úr sveitinni í kaupstaðina. Hann vill einskorða orðið „bændur“ svo þröngt. Til skamms tíma voru menn taldir bændur, þó að þeir hefðu útgerð líka samhliða landbúnaði. En hvað sem þessu líður, er það samt einkennilegt, að aðalvörn hæstv. forsrh. fyrir sinn flokk er sú, að þetta sje flokkapólitík, líka frá þeirra sjónarmiði. Menn höfðu haldið, að þeir hefðu ætlað að offra flokkshagsmununum á altari jafnaðarmanna í þetta skifti. En vörnin er, að þetta sje eiginhagsmunir þeirra líka. Þetta er þá það hæsta, sem hæstv. forshr. kemst, þegar hann er að verja flokk sinn, það, að hann berjist fyrir eigin hagsmunum. Að forsætisráðherra verji þetta út frá rjettlætisins sjónarmiði, — svo háa drauma dreymir hann aldrei fyrir sinn flokk.

Það er ákaflega einkennilegt, þegar menn eru að verja það, að Hafnarfjörður eigi kröfu á einum þingmanni, vegna þess að listakosning hefði getað unnið þeim annan þingmanninn. Jeg skal nú ekki fara neitt út í útreikninga, en það þarf ekki annað en benda á það, að listakosning um tvo menn er ekki annað en vitleysa, því að þá þarf annar flokkurinn að fá meira en helmingi fleiri atkvæði en hinn flokkurinn til þess að fá báða mennina, og er ekkert rjettlæti í því. Til þess að listakosning njóti sín, þarf að kjósa um fjóra til fimm. Að sanna það, að Hafnarfjörður eigi heimtingu á einum þingmanni, vegna þess, að hann hefði getað náð einum þingmanni, ef kosið væri listakosningu, er því ekki annað en að sanna vitleysu með annari vitleysu.